Ingunn Eyjólfsdóttir fæddist 14. apríl 1928. Hún lést 13. mars 2021.
Útför Ingunnar fór fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.
Inga amma var eflaust ein indælasta manneskja sem við höfum kynnst. Við munum ekki til þess að hún hafi nokkurn tímann misst þolinmæðina eða talað meðvitað illa um nokkurn mann. Hún var alltaf með augun opin fyrir fegurðinni í kringum sig og hafði dálæti á litríkum og fallegum hlutum, eins og sást á heimili hennar.
Heimili Ingu ömmu var fyrir okkur eins og griðastaður friðar og kærleika, þar sem alltaf var ró nema þegar fleiri en tvö barnabörn voru í heimsókn, en þá var íbúðin undirlögð í felu- og eltingarleiki. Ömmu fannst nefnilega ekkert sjálfsagðara en að leyfa afkomendunum að hrúgast inn í skápa, upp í hillur og hvar sem okkur datt í hug að fela okkur. Íbúðin hennar ömmu var mjög björt og falleg og skreytt með alls konar skrautlegum munum (mikið til í asískum stíl) og í minningunni skein alltaf sól inn um gluggana og lýsti íbúðina upp. Einhver sagði að heimili endurspegli persónuleika eigandans og það átti svo sannarlega við í tilfelli Ingu ömmu.
Árið 2008 kynntist amma honum Loka – labradorhundinum okkar – og urðu þau strax perluvinir. Svo miklir vinir reyndar að þegar amma byrjaði að missa minnið hugsaði maður að Loki yrði sá síðasti sem myndi hverfa henni úr minni. Amma tók alltaf með nammi handa Loka í töskunni sinni þegar hún kom í heimsókn til okkar í Lambhagann, og Loki fékk stjörnur í augun þegar hann sá Ingu ömmu, enda vissi hann nákvæmlega hvað hún var með í töskunni.
Amma var mikill dugnaðarforkur – til að mynda var hún önnum kafin þegar hún var í heimsókn hjá okkur við garðyrkju eða við að strauja fötin okkar. Hún var í senn mikill karakter sem setti svip á alla fjölskylduhittinga – hvort sem það var með því að gefa hundinum að borða, í leyfisleysi, undir matarborðinu eða taka með sér sælgætisbréf því henni þótti þau svo afskaplega falleg. Hún lenti í ýmsum hremmingum á borð við bílslys en náði sér þó alltaf aftur – þangað til hún greindist með alzheimer. Á endanum var maður farinn að ræða við skugga af ömmu sinni og yfirleitt var það sama samtalið – hvað maður væri að læra í skólanum, hvað maður ætlaði að gera að námi loknu, og hvort einhver stelpa væri búin að krækja í mann. Þó svo að það hafi verið erfitt að geta ekki haldið samtalinu áfram þar sem við enduðum síðast teljum við það hafa verið forréttindi að svara þessum spurningum síendurtekið og fá að njóta nærveru ömmu fyrir vikið. Hennar verður sárt saknað.
Hákon og Skúli Gíslasynir.