Samvinna „Flestöll barátta hefst með einum og stefnir að samvinnu, virkja fleiri, það er lykilatriði,“ segir Hörður.
Samvinna „Flestöll barátta hefst með einum og stefnir að samvinnu, virkja fleiri, það er lykilatriði,“ segir Hörður. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Kristín Heiða Kristinsdóttir khk@mbl.is „Mér fannst upplagt að halda upp á 50 ára plötuafmæli mitt með því að gefa út nýja plötu þar sem einvörðungu eru baráttutengdir söngvar.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Mér fannst upplagt að halda upp á 50 ára plötuafmæli mitt með því að gefa út nýja plötu þar sem einvörðungu eru baráttutengdir söngvar. Mitt líf sem leiksviðslistamaður hefur byggst á að fjalla um samfélagið mitt og þróaðist fljótlega þannig að ég varð meðvitaður baráttumaður, án þess að hafa ætlað það í upphafi,“ segir söngvaskáldið og aðgerðalistamaðurinn Hörður Torfason sem á dögunum sendi frá sér vínylplötu sem heitir Dropar . Hörður hefur oft verið nefndur nestor íslenskra trúbadúra, eða sá sem ruddi brautina fyrir þá sem troða upp einir með gítarinn. Hann ferðaðist fyrstur slíkra um landið sem syngjandi skáld. Á hverju hausti fór hann hringinn um landið og hélt tónleika með sinni sérstöku leikrænu framkomu og fjölbreyttu söngvum og sumir töluðu um hann sem „Þjóðleikhús landsbyggðarinnar“.

„Fyrsta platan mín, sem heitir Syngur eigin lög , kom út í apríl 1971, svo núna 21. apríl verður liðin hálf öld frá útgáfu hennar. Nýja platan, Dropar , er tuttugasta og fimmta platan mín,“ segir Hörður sem gefur alltaf sjálfur út sínar plötur.

„Flesta söngvana á nýju plötunni samdi ég þegar ég stóð fyrir útifundum á Austurvelli veturinn 2008 til 2009. Þar skóp ég ræðupall fyrir raddir almennings andspænis ræðupöllum valdsins. Ég lenti í því að vera lykilmaður í þeirri baráttu. Ég vinn þannig að ég tala mikið við annað fólk, hlusta vel á það, spyr það álits, hvort sem það er fólk sem ég hitti á götunni, á kaffihúsum, í sundlaugum eða hvar sem það verður á vegi mínum. Að hlusta á fólk hjálpaði mér alltaf til að taka ákvarðanir um framhald þess sem ég var að gera. Fólk kemur með hugmyndir alls staðar frá í öllu sem ég geri. Allt byggist þetta á samvinnu. Söngvar mínir eru þannig hughrif frá samtölum sem ég hef átt við annað fólk, og auðvitað líka mínum hugsunum. Það má segja að söngvar mínir séu lyklar að starfi mínu sem baráttumaður og þess vegna vísa ég til þess með nýju plötunni að dropinn holar steininn. Frá barnsaldri hef ég leitað huggunar í að semja söngva, leyfa hugsunum mínum að flæða í söngvum. Þegar maður situr svona á toppnum eins og ég gerði veturinn sem mótmælin voru, þá komu þrýstiöfl alls staðar frá. Ég fann fyrir því að mörgum fannst ég mega eiga mig. Það tók á að halda stillingu sinni, að rjúka ekki fram og rífa kjaft, heldur halda pollrólegur stefnu sinni og virða skoðanir annarra.“

Við urðum fyrir uppljómun

Hörður er lærður leikari og margverðlaunaður baráttumaður. Hann lék áður fyrr í ýmsum uppfærslum Þjóðleikhússins, í sjónvarpi og útvarpi, auk þess leikstýrði hann og vann með leikfélögum víða um land, starfaði með ýmsum sjálfstæðum leikhópum, hélt tónleika og vann að kvikmynda- og útvarpsgerð hérlendis og erlendis.

„Ég lauk námi við leiklistarskóla Þjóðleikhússins fyrir fimmtíu og einu ári, en ég var virkur í ýmiskonar verkefnum áður en ég útskrifaðist sem leikari, ég var mikið í dansi, teikningu, söng og spili. Öll þessi reynsla hefur gagnast mér vel í starfi mínu sem listamaður, þetta vinnur vel saman,“ segir Hörður og rifjar upp þegar hann kom inn í leikhús í fyrsta sinn, sjö ára strákur.

„Við Kjartan Ragnarsson og fleira samferðafólk mitt í leikhúsinu höfum talað um að við urðum ekki sömu börnin eftir það. Við urðum fyrir uppljómun og leikhúsið kom með tilgang í tilveruna. Ég var svo lánsamur að geta sameinað hæfileika mína í leikhúsinu,“ segir Hörður og bætir við að hann hafi í gegnum leiklistina tekist á við samfélag sitt til að reyna að betrumbæta það.

„Það hefur líka alltaf verið lykillinn í starfi mínu, að vera með stefnubreytandi inngrip. Ég barðist til dæmis í nokkur ár fyrir stofnun Samtakanna '78 fyrir réttindum samkynhneigðra. Það gekk erfiðlega uns ég áttaði mig á að veigamikið var líka að ræða við og hlusta á fólk sem ekki tilheyrði þeim hópi. Réttur eins er réttur allra. Auk þess að þegar maður finnur ekki leiðtoga í lífi sínu verður maður að gerast hann sjálfur.

Aftur og aftur kemur þetta fram hjá mér sem vilji til að grípa inn í, að reyna að breyta slæmu ástandi í betra. Standa fyrir vitundarvakningu. Ég stend upp til að breyta en ekki til að taka mér vald, nema þá tímabundið, því ég læt mig hverfa þegar settu markmiði er náð. Flestöll barátta hefst með einum og stefnir að samvinnu, virkja fleiri, það er lykilatriði,“ segir Hörður og bætir við að ef við skoðum hvað leikhús sé í sinni einföldustu mynd, þá sé það þegar ein manneskja lyftir sér aðeins ofar hinum og talar, teygir sig upp úr og ávarpar fjöldann.

Hörður lítur sáttur yfir farinn veg og segist hafa setið við undanfarið ár við að gera upp ævi sína.

„Ég á svo mikið af heimildum til að grúska í, ég á dagbækur mínar alveg frá því ég var í leiklistarskóla og fram á daginn í dag. Þarna eru allskonar skrif og greinar og mikið af heimildum, staðreyndum. Ég dett ofan í þetta og skrifa upp úr þessu, sem er skemmtileg vinna og fræðandi. Ég er að uppfæra bókina mína Tabú sem kom út 2008. Hún var stytt og í hana vantar ýmislegt sem ég þarf að lagfæra og leiðrétta,“ segir hann að lokum.