[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dagmál Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Á næstu 13 árum hyggjast ríkissjóður og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu verja 120 milljörðum króna í uppbyggingu samgöngukerfisins á svæðinu.

Dagmál

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Á næstu 13 árum hyggjast ríkissjóður og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu verja 120 milljörðum króna í uppbyggingu samgöngukerfisins á svæðinu. Af þeirri fjárhæð munu um 50 milljarðar króna fara í uppbyggingu svokallaðrar borgarlínu eða BRT-kerfis (BRT: e. Bus Rapid Transit.). Þá er stefnt að 52,2 milljarða fjárfestingu í stofnvegum, 8,2 milljarða í hjólastígum, göngubrúm og undirgöngum og 7,2 milljarða fjárfestingu í umferðarstýringu og öryggisaðgerðir.

Ekki fara í bútasaum

Davíð Þorláksson er framkvæmdastjóri Betri samgangna ohf. sem halda mun utan um uppbygginguna á komandi árum.

Hann er gestur Dagmála og segir aðspurður að hugmyndir sem viðraðar hafa verið um „léttútgáfu“ af BRT-kerfi séu ekki fýsilegar fyrir uppbygginguna framundan. Í þeim hugmyndum er gengið út frá því að byggja á grunni þeirra innviða sem nú þegar eru til staðar í leiðakerfi strætó, sem m.a. veitir vögnum aukið sérrými á stofnæðum.

„Lykillinn er að í stað þess að reyna að laga það sem er til staðar er að koma með nýtt kerfi. Það er það sem hefur gefist vel víða. Hugmyndir um væga útgáfu af BRT-kerfi eru líkari því sem hefur verið gert, laga það sem fyrir er. Við verðum að brjótast út úr því. Það hefur ekki skilað nægilega miklum árangri. Þetta myndi skila okkur meiri árangri,“ segir Davíð.

Á síðustu árum hefur stórauknu fé verið varið til að efla strætisvagnaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Átti milljarða innspýting að auka hlutdeild almenningssamgangna úr 4% í 8% en hlutfallið hefur lítið sem ekkert breyst. Davíð segir þá reynslu ekki eiga að hræða samfélagið frá fjárfestingu í borgarlínu, þvert á móti bendi fengin reynsla til þess að stíga þurfi mun markvissari skref í uppbyggingunni til þess að gera almenningssamgöngur að svo hentugum ferðamáta að fólk velji þær umfram einkabílinn.

Davíð bendir á að félagið Betri samgöngur ohf. muni ekki koma með beinum hætti að framkvæmdunum framundan. Þær verði m.a. í höndum Vegagerðarinnar. Hins vegar sé það meginhlutverk félagsins að hafa umsjón og eftirlit með því að verkefnið nái fram að ganga og fjármögnunarhlutinn er á herðum þess. Sem stendur eru starfsmenn félagsins aðeins þrír og segir Davíð ekki í pípunum að þenja yfirbygginguna út með fleira starfsfólki. Hann segir að eitt af meginverkefnum félagsins sé að tryggja að uppbyggingin muni ekki fara fram úr kostnaðaráætlunum. Segir hann hlutverkið að einhverju marki vera það að þjóna sem „varðhundar skattgreiðenda.“