Sjómannaskólinn Listaverkið er á lóðinni og hefur látið verulega á sjá.
Sjómannaskólinn Listaverkið er á lóðinni og hefur látið verulega á sjá. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Ólöf K. Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, segir að til standi að lagfæra listaverkið Saltfiskstöflun eftir Sigurjón Ólafsson, sem stendur við Sjómannaskólann, í samhengi við framkvæmdir á svæðinu.

Ólöf K. Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, segir að til standi að lagfæra listaverkið Saltfiskstöflun eftir Sigurjón Ólafsson, sem stendur við Sjómannaskólann, í samhengi við framkvæmdir á svæðinu.

Fram hefur komið að listaverkið hefur látið verulega á sjá. Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í seinustu viku skoraði Birgitta Spur, handhafi höfundar- og sæmdarréttar listaverka Sigurjóns Ólafssonar, á stjórnvöld að bjarga þessu sögulega og mikilvæga listaverki. Hefur hún lýst áhyggjum sínum við borgaryfirvöld vegna þeirra skemmda sem lágmyndin gæti orðið fyrir vegna þeirra viðamiklu framkvæmda sem fyrirhugaðar eru á svæðinu.

Ólöf segir spurð um þetta að listasafnið sem sér um listaverk í eigu Reykjavíkurborgar muni sinna verkinu áfram samkvæmt þeim áætlunum sem koma fram í grein Birgittu.

„Verkið fer vel á þeim stað þar sem það stendur og er mikilvægur minnisvarði um sögu svæðisins auk þess sem hér er um mikilvægt listaverk að ræða,“ segir hún í svari til Morgunblaðsins. „Eins og fram hefur komið í greinargerðum safnsins um verkið verður ekki unnið að viðgerðum á því fyrr en framkvæmdir fara af stað þar sem augljóst er að um rask verður að ræða á svæðinu. Nokkur athygli hefur beinst að verkinu í samhengi nýs skipulags og baráttu manna gegn því en eins og ég nefndi er hugmyndin sú að verkið verði áfram þar sem því var upphaflega komið fyrir og ekkert óljóst við þau svör sem gefin hafa verið,“ segir Ólöf.