Í Verksmiðjunni Sýningar Verksmiðjunnar á Hjalteyri fá styrk.
Í Verksmiðjunni Sýningar Verksmiðjunnar á Hjalteyri fá styrk. — Morgunblaðið/Einar Falur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Myndlistarráð hefur í fyrri úthlutun sjóðsins á þessu ári úthlutað 40 milljónum í styrki til 87 fjölbreytilegra verkefna á sviði myndlistar. Sjóðnum barst 261 umsókn og sótt var um styrki fyrir alls 274 milljónir. Umsóknum fjölgaði um 44% milli ára.

Myndlistarráð hefur í fyrri úthlutun sjóðsins á þessu ári úthlutað 40 milljónum í styrki til 87 fjölbreytilegra verkefna á sviði myndlistar. Sjóðnum barst 261 umsókn og sótt var um styrki fyrir alls 274 milljónir. Umsóknum fjölgaði um 44% milli ára.

Styrkjunum er skipt í þrjá flokka. Styrkir til sýningarverkefna eru 58 talsins að heildarupphæð 25 milljónir. Þá eru veittir sjö undirbúningsstyrkir að upphæð 2,7 milljónir króna og í flokki útgáfu- og rannsóknarstyrkja eru 22 verkefni sem hljóta styrki að heildarupphæð 12,3 milljónir króna.

Hæstu styrkina hljóta Verksmiðjan á Hjalteyri, 1,5 milljónir kr. fyrir sýningardagskrá 2021 og 1,2 milljónir kr. hlýtur myndlistartvíæringurinn Sequences sem verður haldinn í tíunda sinn í október 2021. Tveir hljóta 1 milljón króna í styrk, annars vegar Gjörningaklúbburinn fyrir Flökkusinfóníuna , viðamikið sjón- og tónverk, og Bryndís H. Snæbjörnsdóttir fyrir útgáfu er spannar viðamikið samstarf þeirra Snæbjörnsdóttur/Wilsons síðastliðin 20 ár.

Fjölbreytt verkefni hlutu styrki á bilinu 400 til 800 þúsund krónur. Þar á meðal má nefna yfirlitssýningu á verkum Guðnýjar Rósu Ingimarsdóttur í Listasafni Reykjavíkur, sýningu á verkum Hrafnhildar Arnardóttur – Shoplifter í Hrútey og Hjólið IV , sýningu í afmælissýningarröð Myndhöggvarafélagsins sem mun verða sett upp nærri göngu- og hjólastígum í Laugardalnum sumarið 2021. Haustsýning Hafnarborgar er styrkt, líka sýning Önnu Hallin, Keðjuverkun , einkasýning Carls Boutards í Ásmundarsafni, gjörningahátíð í Hafnarhúsi – Listasafni Reykjavíkur, sumarsýning í Sláturhúsinu á Egilsstöðum og röð þriggja sýninga sem verða settar upp á Borgarfirði eystri í sumar. Ólafur Ólafsson og Liba Castro fá styrk vegna gerð vídeóverks fyrir sýninguna Töfrafund í Hafnarborg og Nýlistasafnið fær þrjá styrki vegna mismunandi sýninga og viðburða sem verða í Marshall-húsinu á árinu.

Þá má geta þess að Hallgerður Hallgrímsdóttir hlýtur styrk fyrir bókverkið Dauðadjúpar sprungur , Steinar Örn Erluson fyrir útgáfu bókarinnar Ritmál ljóssins sem tekur á sögu ljósmyndunar, veittur er styrkur vegna útgáfu bókar um feril Gunnars Arnar myndlistarmanns, Orri Jónsson fær styrk vegna væntanlegrar ljósmyndabókar og Elísabet Alma Svendsen fær styrk vegna Listval – þættir um myndlist.

Hlutverk myndlistarsjóðs er að efla íslenska myndlist með fjárhagslegum stuðningi og stuðla þannig að framgangi listsköpunar, kynningu og aukinni þekkingu á íslenskri myndlist. Úthlutunarnefndir voru tvær og skiptu með sér umsóknum, þær skipuðu Dagný Heiðdal, Hannes Sigurðsson, Jón Bergmann Kjartansson Ransú, Elín Hansdóttir, Íris Stefánsdóttir og Unndór Egill Jónsson.