Frá árinu 2000 fram til 2019 hækkuðu atvinnutekjur allra á vinnumarkaði um 214%. Hækkun þeirra sem voru með grunnmenntun var 239%. Atvinnutekjur annarra hópa hækkuðu hins vegar töluvert minna á þessu tímabili.

Frá árinu 2000 fram til 2019 hækkuðu atvinnutekjur allra á vinnumarkaði um 214%. Hækkun þeirra sem voru með grunnmenntun var 239%. Atvinnutekjur annarra hópa hækkuðu hins vegar töluvert minna á þessu tímabili. Tekjur þeirra sem voru með starfs- og framhaldsmenntun hækkuðu um 185% og tekjur háskólamenntaðra hækkuðu um 173%. Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans en þar segir að af tölunum megi ráða að á síðustu 20 árum hafi þannig dregið töluvert úr tekjumun miðað við menntunarstig.

Jukust upp í 81%

Í Hagsjánni er bent á að á árinu 2000 hafi meðaltekjur fólks með grunnmenntun verið um 75% af meðaltali allra á vinnumarkaði. Á árinu 2019 voru tekjur þessa hóps komnar upp í 81% af meðaltali allra.

Einnig segir að á árinu 2000 hafi fólk með starfs- og framhaldsmenntun verið með 2% hærri tekjur en nam meðaltali allra á vinnumarkaði. Á árinu 2019 voru tekjur þessa hóps samkvæmt Hagsjánni um 8% lægri en meðaltal allra. Háskólamenntað fólk var með 35% hærri atvinnutekjur en meðaltalið á árinu 2000 og var það hlutfall komið niður í 17% á árinu 2019. „Með öðrum orðum mætti segja að á árinu 2000 hafi háskólamenntað fólk haft 80% hærri atvinnutekjur en fólk með grunnmenntun, en munurinn hafði lækkað niður í 45% 2019,“ segir í Hagsjánni.

Sé litið á þróun kynjanna kemur í ljós að atvinnutekjur kvenna hafa hækkað meira en karla í öllum hópunum frá 2000 til 2019.