Á förum Alþingismennirnir Páll Magnússon og Ásmundur Friðriksson stinga saman nefjum fyrir utan Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins.
Á förum Alþingismennirnir Páll Magnússon og Ásmundur Friðriksson stinga saman nefjum fyrir utan Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Andrés Magnússon andres@mbl.is Páll Magnússon, þingmaður og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, greindi frá því um liðna helgi, að hann ætlaði ekki að gefa kost a sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í komandi mánuði.

Baksvið

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Páll Magnússon, þingmaður og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, greindi frá því um liðna helgi, að hann ætlaði ekki að gefa kost a sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í komandi mánuði. Hann ætlaði að segja skilið við stjórnmálin að sinni.

Þetta kom flatt upp á marga, þar sem Páll hafði fyrir ekki löngu greint frá því að hann sæktist áfram eftir oddvitasætinu og engan bilbug á honum að finna.

Hann sagðist raunar hafa komist að þessari niðurstöðu innra með sér um síðustu áramót, en samt ákveðið að hugsa það áfram í þrjá mánuði áður en hann tæki endanlega ákvörðun ef eitthvað skyldi nú breyta afstöðu sinni um það. Það hafi ekki gerst.

Ástæðuna sagði hann aðallega hafa verið þá að áhuginn hafi dofnað og neistinn kulnað.

Það er sjálfsagt rétt, en ekki verður þó hjá því litið að Páll hefur á margan hátt átt erfitt uppdráttar innan kjördæmisins undanfarin ár, sem flestir vilja rekja til klofnings sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum. Þar hafi Páll lagst á sveif með klofningsmönnum, sem síðan hafi myndað meirihluta í bæjarstjórninni og skilið Sjálfstæðisflokkinn eftir úti í kuldanum. Stuðningsmenn Páls hafa hins vegar sagt málið flóknara en það og kjósendur klofningsmanna flestir verið gott og gegnt sjálfstæðisfólk.

Hvernig sem því kann að vera farið, þá komst Páll að þessari niðurstöðu, en heimildir Morgunblaðsins herma að þar hafi skoðanakönnun á vegum stuðningsmanna Páls riðið baggamuninn.Hún hafi sýnt að mjög væri á brattann að sækja.

Fjölþættar afleiðingar

Flestir viðmælendur blaðsins í Suðurkjördæmi telja að afleiðingin verði sú að Guðrún Hafsteinsdóttir „labbi inn í 1. sætið“. Reynist sú raunin hefði það ekki aðeins áhrif í kjördæminu heldur myndi það breyta ásýnd flokksins á landsvísu ef konur leiddu lista í þremur kjördæmum, eins og margt bendir til.

Stærri spurning er þó kannski hvað Vestmanneyingar geri ef þeir hafa engan Eyjamann að kjósa eða a.m.k. ekki neinn, sem á góðan möguleika á ráðherrastól. Það er óleystur vandi í þessu gamla og áður trygga vígi Sjálfstæðisflokksins.

Það mun vafalaust einnig breyta prófkjörsbaráttunni, því þá þyrftu Vilhjálmur Árnason og Ásmundur Friðriksson að eigast við með beinum hætti, sem þeir höfðu ekki ráðgert. Þá kann þetta að hvetja fleiri frambjóðendur til dáða, sem nú eygja þann kost að komast ofar á lista en ella, þótt þingsæti séu tæpast í boði.

Sumir hafa spurt hvað þetta segi um styrk Írisar Róbertsdóttur, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum og oddvita H-listans, fyrrnefnds klofningsframboðs. Ekki kannski með beinum hætti, en þó virðist blasa við að Páll hafi ekki átt nægan stuðning vísan úr þeirri átt. Aðrir segja að fylgi Páls í Eyjum hafi ekki verið vandinn heldur uppi á fastalandi.

En þá er ósvarað spurningunni um hvað Páll fari að fást við, hann muni tæpast sitja auðum höndum lengi. Um það hafa verið ýmsar getgátur, en ein sú skemmtilegri er að hann taki að sér að græða sárin með því að reyna að sameina hægriöflin í Eyjum á ný og ljúka pólitíska ferlinum í bæjarstjórastóli.

Úr fjölmiðlum í stjórnmálin

Segja má að Páll Magnússon hafi pólitíkina í æðum, en hann er sonur Magnúsar H. Magnússonar, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum og síðar alþingismanns og ráðherra.

Páll haslaði sér hins vegar völl í fjölmiðlum, fyrst á Vísi og Tímanum, en fór síðar á Ríkissjónvarpið þar sem hann varð varafréttastjóri, en söðlaði svo um yfir á Stöð 2, þegar hún fór í loftið 1986. Hann varð síðar forstjóri hennar, en var ráðinn útvarpsstjóri Rúv. 2005, en hætti þar árið 2013. Hann varð áhugasamari um stjórnmálin eftir það og var kjörinn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn 2016. Hann er formaður allsherjar- og menntamálanefndar.