Beðið eftir sæti Ursula von der Leyen bíður eftir því að vera boðið til sætis, sem aldrei gerðist. Þeir Erdogan (t.h.) og Charles Michel eru sestir.
Beðið eftir sæti Ursula von der Leyen bíður eftir því að vera boðið til sætis, sem aldrei gerðist. Þeir Erdogan (t.h.) og Charles Michel eru sestir. — AFP
Ráðamenn í Brussel kunnu ekki að meta diplómatíska lítilsvirðingu í garð Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, er hún hugðist setjast niður til viðræðna við Erdogan Tyrklandsforseta í Ankara.

Ráðamenn í Brussel kunnu ekki að meta diplómatíska lítilsvirðingu í garð Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, er hún hugðist setjast niður til viðræðna við Erdogan Tyrklandsforseta í Ankara.

Erdogan bauð von der Leyen ekki til sætis í forsetahöllinni, aðeins voru þar stólar fyrir hann og Charles Michel, formann ráðherraráðs ESB. Von der Leyen ræskti sig til að gera vart við sig og myndskeið frá móttökunni sýndi að hún var slegin út af laginu. Á endanum settist hún í sófa lengra frá fyrirmennunum og gegnt tyrkneska utanríkisráðherranum sem er lægra settur í goggunarröð hins diplómatíska metorðastiga.

Gagnrýna Tyrki

Axarskaft Tyrkja, sem áður en varði var nefnt „sófagate“ í netheimum, átti sér stað þegar fulltrúar Brusselstjórnarinnar voru mættir til Ankara til að reyna að lappa upp á sambúðina við Tyrki, þrátt fyrir áhyggjur af réttindabrotum í Tyrklandi, ekki síst gagnvart konum.

ESB mislíkaði er Erdogan dró Tyrkja út úr alþjóðasáttmála um varnir gegn ofbeldi gagnvart konum og börnum. Eftir fundinn sagði von der Leyen að mannréttindi væru ekki samningsatriði.

„Ég hef þungar áhyggjur af úrsögn Tyrkja úr Istanbúlsáttmálanum. Hann snýst um að vernda konur og vernda börn gegn ofbeldi. Því var þessi ákvörðun kolröng.“ agas@mbl.is