Guðrún Hálfdánardóttir Oddur Þórðarson Alls greindust ellefu með kórónuveirusmit innanlands á þriðjudag. Sex þeirra sem greindust innanlands voru utan sóttkvíar. Fimm af þeim smitum greindust í Mýrdalshreppi.

Guðrún Hálfdánardóttir

Oddur Þórðarson

Alls greindust ellefu með kórónuveirusmit innanlands á þriðjudag. Sex þeirra sem greindust innanlands voru utan sóttkvíar. Fimm af þeim smitum greindust í Mýrdalshreppi. Hópsmitið er talið mega rekja til ferðalangs, sem búsettur er á Íslandi. Viðkomandi er með mótefni fyrir veirunni og þarf því ekki að sæta sóttkví.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í samtali við blaðamann að smittölurnar séu til marks um að enn sé smit í samfélaginu. „Við höfum ekki náð að koma í veg fyrir það. Meðan svo er þá geta hópsmit blossað upp og því er hætta ef við förum að slaka of mikið á og leyfa stærri hópamyndanir,“ segir Þórólfur.

Varar fólk við ferðalögum

Í tilkynningu á vef embættis landlæknis ítrekaði Þórólfur í gær ráðleggingar sínar gegn ónauðsynlegum ferðalögum Íslendinga út í heim.

Sem stendur eru öll lönd heims, nema Grænland, skilgreind sem áhættusvæði vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og varar Þórólfur því við ferðalögum til þeirra svæða.

Á því rúma ári sem kórónuveirufaraldurinn hefur geisað hafa um 130 milljónir smitast af veirunni og tæplega þrjár milljónir hafa látist vegna hennar. Innan Evrópu hafa um 900 þúsund manns látist. Þórólfur segir áhættumat sitt, sem hann segir að sé í takt við áhættumat Sóttvarnastofnunar Evrópu, kveða á um að nýgengi smita úti í heimi sé víða mjög mikið og mikil hætta sé á smiti af hinum ýmsu afbrigðum veirunnar, sér í lagi B.1.1.7.-afbrigðinu sem kennt er við Bretland.

Tveir greindust með Covid-19 á landamærum á þriðjudag og bíða þeir báðir mótefnamælingar. 132 virk smit eru á landinu. Í sóttkví eru 127 en í skimunarsóttkví 904.

Nýgengi smita innanlands á hverja 100 þúsund íbúa er nú 22 síðustu tvær vikur og 6,5 á landamærunum. Alls eru 39 börn með Covid á Íslandi í dag og hefur fjölgað um eitt á milli daga. Flest smitin eru í aldurshópnum 30-39 ára eða 41. Fjögur smit eru meðal barna á aldrinum 1-5 ára, 29 smit eru á meðal barna á aldrinum 6-12 ára og sex í aldurshópnum 13-17 ára. Í aldurshópnum 18-29 ára eru 19 smit. 23 smit eru í aldurshópnum 40-49 ára. Átta smit eru í aldurshópnum 50-59 ára, eitt virkt smit er á meðal fólks á sjötugsaldri og einn á áttræðisaldri er með Covid-19.

Alls voru 1.863 skimaðir innanlands á þriðjudag. Á landamærunum voru 550 einstaklingar skimaðir.