Ásgeir Jónsson
Ásgeir Jónsson
Í ræðu sinni á ársfundi Seðlabanka Íslands í gær benti seðlabankastjóri á að góð hagstjórn hefði „þrjá arma – þeir eru auk bankans ríkissjóður og aðilar vinnumarkaðarins sem þurfa að vinna saman til þess að halda hagkerfinu í jafnvægi.

Í ræðu sinni á ársfundi Seðlabanka Íslands í gær benti seðlabankastjóri á að góð hagstjórn hefði „þrjá arma – þeir eru auk bankans ríkissjóður og aðilar vinnumarkaðarins sem þurfa að vinna saman til þess að halda hagkerfinu í jafnvægi. Þessir þrír armar verða að vera samluktir til þess að tryggja verðstöðugleika, stöðugan kaupmátt og lága vexti til langframa.“

Í gær var einnig birt fundargerð síðasta fundar peningastefnunefndar. Þar var farið vítt yfir sviðið og hagstærðir ræddar í þaula svo ýmsum hefur sjálfsagt orðið nóg um við lesturinn, eins og gengur þegar slíkar bókmenntir eru annars vegar.

Í fundargerðinni var meðal annars fjallað um launaþróun og þar kom fram að launavísitalan hefði í febrúar hækkað um 10,6% á milli ára „þar sem bæði má greina áhrif samningsbundinna launahækkana í janúar í ár og apríl í fyrra og grunnáhrifa vegna þeirra tafa sem urðu á gerð kjarasamninga opinberra starfsmanna í yfirstandandi samningalotu. Raunlaun voru 6,2% hærri í mánuðinum en á sama tíma árið 2020.“

Afleiðing þessarar þróunar er einnig nefnd, en hún er að hlutfall launa og tengdra gjalda af þáttatekjum hafi hækkað og verið 61% í fyrra, eða 1,4 prósentum yfir tuttugu ára meðaltali.

Þessi þróun heldur að óbreyttu áfram og þættu tíðindi í góðæri en eru ótíðindi við núverandi aðstæður. Eins og nú árar hljóta að vaxa efasemdir um að fyrrnefndir þrír armar hagstjórnarinnar rói allir í sömu átt.