Hallgrímur Þór Hallgrímsson fæddist á Akranesi 8. apríl 1944. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands þann 26. mars 2021. Foreldrar hans voru Hallgrímur Guðmundsson, f. 19. jan. 1905, d. 12. mars 1988, og Sólveig Sigurðardóttir, f. 15. sept. 1909, d. 17. nóv. 1987. Systkini Hallgríms eru í aldursröð Gunnar Líndal, f. 6. ágúst 1930, d. 2. feb. 1989, Guðrún, f. 8. okt. 1934, d. 4. jan. 1935, Inga Lóa, f. 14. maí 1936, d. 14. okt. 2020, Sigurður Hafsteinn, f. 13. júlí 1937, Guðmundur Jens, f. 25. júní 1941, Jónas Bragi, f. 5. júlí 1949, og Pétur Sævar, f. 6. nóv. 1950, d. 13. mars 2006.

Hinn 16. október 1965 kvæntist Hallgrímur Ingibjörgu Sigurðardóttur, f. í Reykjavík 21. maí 1944, d. 11. október 2004. Börn Hallgríms og Ingibjargar eru: 1) Emil Birgir, f. 5. mars 1966, maki Edda Svavarsdóttir, f. 25. ágúst 1967, dóttir þeirra er Inga Bjartey, f. 27. mars 1996. 2) Guðfinna Björk, f. 24. apríl 1972, maki Brynjólfur Hrafn Úlfarsson, f. 10. september 1968, 3) Þóra Björg, f. 6. júlí 1978, maki Tjörvi Einarsson, f. 9. nóvember 1978, börn þeirra eru Óðinn Páll, f. 7. febrúar 1994, Una Rán, f. 30. mars 2002, Urður Ása, f. 13. ágúst 2005, og Hekla Gná, f. 2. október 2007.

Hallgrímur var bryti á sjó nær alla sína starfsævi. Hann hóf störf á sjó 26 ára á Reykjaborginni sem stundaði veiðar í Norðursjó. Eftir það var hann á mörgum bátum og togurum. Hann vann lengi hjá Hafskip, Eimskip og Skipaútgerð ríkisins á strandferðaskipinu Heklu en var einnig á varðskipum um tíma. Hallgrímur lét formlega af sjómennsku árið 2012 og hlaut heiðursmerki sjómannadagsráðs á Akranesi árið 2015.

Útförin fer fram frá Víðistaðakirkju í dag, 8. apríl 2021, kl. 11. Vegna aðstæðna geta aðeins nánustu aðstandendur verið viðstaddir útförina og verður útförinni streymt á slóðinni (stytt):

https://tinyurl.com/cwxftbt7.

Virkan hlekk á slóð má nálgast á:

https://www.mbl.is/andlat.

Þegar ég var lítil voru ekki margir pabbar sem elduðu en pabbi minn var kokkur og eldaði besta mat í heimi. Hann var sjómaður sem sigldi út um allan heim og sagði sögur með innlifun og tilþrifum svo allir hrifust af. Það gat verið tímafrekt að fara með honum að útrétta þar sem hann þekkti svo marga og alltaf gaf hann sér tíma til að stoppa og spjalla aðeins sem gat reynt á þolinmæðina hjá mér. Núna eftir andlátið er fólk að hafa samband við mig sem ég hef kynnst á minni lífsleið sem þekkti pabba einnig án þess að vita að hann væri pabbi minn. Það minnist hans með hlýhug þar sem hann snerti líf þess með velvild og umhyggju. Mikið er gott í sorginni að fá að heyra minningar þessa fólks um pabba.

Mér þótti alltaf skemmtilegast að fara með pabba að versla. Ég komst upp með að suða um hitt og þetta sem mamma vildi aldrei kaupa en pabbi lét alltaf til leiðast. Hann var líka alltaf svo upptekinn við að spjalla, að hann kannski sá ekki alveg allt sem ég potaði ofan í körfuna. Þegar heim var komið hristi mamma bara hausinn en vissi auðvitað vel þegar hún sendi okkur tvö í búðina að þetta færi svona. Pabbi var sjómaður og vildi því fá að koma sterkur inn eftir langa fjarveru og dekra okkur með nammi og framandi matvöru sem mamma vildi sjaldnast kaupa.

Honum þótti ofurvænt um okkur öll og þegar barnabörnin fóru að mæta á svæðið þá stækkaði hjartað hans enn meira. Hann var svo stoltur af þeim öllum og náði að fylgjast býsna vel með þeim. Þar sem ekkert þeirra erfði fótboltaáhuga hans mætti hann á fimleikamót og hvatti þær til dáða, þó með örlitlum efasemdum um ágæti íþróttarinnar þar sem honum þótti þetta ívið hættulegt, stökkin og snúningarnir.

Pabbi passaði einu sinni fyrir mig og Tjörva þegar við skutumst í helgarferð. Þegar við komum heim var pabbi búinn að kaupa nýja pönnu handa okkur, gamla var víst ónothæf, skipuleggja áhaldaskúffuna, enda var hún of troðin, og taka daglegan bryggjurúnt með stelpunum, eitthvað sem við foreldrarnir höfðum algjörlega vanrækt í uppeldinu. Hann dekraði ekki bara afastelpurnar sínar heldur fékk hundurinn okkar líka allt að fjórum göngutúrum á dag og eins sögðu stelpurnar mér að afi þeirra hefði nánast deilt matnum sínum til helminga með honum.

Pabbi missti mikið þegar mamma dó og fór þá að halla undan fæti hjá honum. Hann fann aldrei almennilega taktinn eftir það þótt hann reyndi. Flutti aftur á heimaslóðirnar á Skagann þar sem hann hafði félagsskap á rakarastofunni lengi vel og heimsótti vini sína á bílasölunni sem hann talaði alltaf svo vel um og reyndust honum svo vel.

Það er ágæt huggun að hugsa sér mömmu og pabba núna sameinuð á ný þótt við sem eftir lifum söknum þeirra. Minningarnar, arfleifðin og umhyggjan sem pabbi bar fyrir okkur öllum lifir áfram með okkur.

Þóra Björg Hallgrímsdóttir.

„Þú ert alltaf svo fín Finna mín.“ Síðan pabbi minn kvaddi þann 26. mars sl. í faðmi fjölskyldunnar þá hljóma þessi orð í mínum huga. Hann kallaði mig alltaf Finnu.

Minningarnar streyma fram ásamt hafsjó af tárum. Elsku pabbi minn, þú varst alltaf svo góður og áttir endalausa ást handa okkur systkinum og mömmu. Umhyggjusamur, skemmtilegur og sagðir alltaf svo skemmtilega frá. Mín fyrsta minning um þig var þegar þú gafst mér dúkkukörfuna, ég á hana enn þá. Því þú kenndir mér ávallt að fara vel með hluti.

Ég var að skoða gamlar myndir. Á öllum myndum heldur þú svo fallega utan um mig og umhyggjan skín í gegn. Ég man þegar ég sigldi með þér þegar þú varst að vinna hjá Hafskip. Sú ferð var ákveðin með mjög stuttum fyrirvara og þú stækkaðir bara kojuna og það var svo gott að vera í pabbaholu. Við röltum svo saman í þeim borgum þar sem skipið lagðist að landi og þú sagðir: „Ég ætla að leiða þig Finna mín því við erum í útlöndum.“ Ég sigldi svo aftur með þér þegar þú varst að vinna hjá Eimskip. Ég var svo sjóveik en þá lánaðir þú mér þína káetu til að hvíla mig í þrátt fyrir að þú gætir ekki fengið þína hvíld á þeirri vakt.

Þú gafst mér fyrsta bílinn minn. „Farðu varlega Finna mín,“ sagðir þú „það er betra að fara hægt yfir og komast á leiðarenda en ekki.“

Ég hringdi í þig þegar það var brjálað veður og þú sagðir „Finna mín. Þú ert í landi,“ og svo fylgdi jafnvel saga um þegar þú lenti í vonskuveðri úti á sjó.

ÍA. Skagamaður, sjómaður, frímúrari. Víkingur AK-100. Við héldum alltaf sjómannadaginn hátíðlegan og í minningunni er steik, kryddsmjör og barmmerki svo sterkt. Þú gafst mér uppskriftina að kryddsmjörinu. Pabbi minn, ég mun geyma það leyndarmál ævina á enda. Þú varst á sjónum alla tíð og heiðraður fyrir störf þín á sjó árið 2015. Pabbi minn var kokkur af lífi og sál. Skipsfélagar sem pabbi sigldi með töluðu allir um hvað hann var mikill listakokkur.

Minningarbrot:

Fótboltinn. Þegar þú varst að horfa á fótboltann með súkkulaðirúsínur og hlaup og nammið sem þú komst með frá útlöndum. 1x2.

Þú skildir eftir ljós fyrir mig á ganginum þegar ég var myrkfælin. Bryggjurúntarnir. „Finna mín. Góða ferð og enn betri heimkomu,“ sagðir þú þegar ég var að fara í flugvél.

Elsku pabbi minn lét allt eftir mér. Ég fékk nýjan disk ef sósan var sett á vitlausan stað að mínu mati. Ég vildi Gunnars-remúlaði í dollu ekki í túbu. Kavíar í matskeið ekki teskeið. „Já, Finna mín.“

Þegar við Þóra fórum saman til þín um daginn og héldum hvor í sína höndina þína og þú sagðir bless, bless, þá hélt ég að þú værir að kveðja okkur þann daginn. Auðvitað varst þú að kveðja okkur fyrir fullt og allt og þú vissir það. Takk fyrir allt, elsku besti pabbi minn, ég veit að núna ertu í sumarlandinu fagra með mömmu.

„Segjum það Finna mín,“ voru alltaf lokaorðin þín þegar við töluðum saman.

„Er ekki splæs í kvöld?“ Jú, elsku pabbi. Í kvöld er splæs og við munum minnast þín og allra þinna góðu eiginleika. Hvíl í friði, elsku pabbi.

Þín dóttir

Guðfinna Björk

Hallgrímsdóttir (Finna).