Bændahöllin Hótel Saga er stór bygging á háskólasvæðinu.
Bændahöllin Hótel Saga er stór bygging á háskólasvæðinu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Fulltrúi Bændahallarinnar ehf. og Hótel Sögu ehf. lagði fram í héraðsdómi í gær ósk um frekari framlengingu á greiðsluskjóli fyrirtækjanna.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Fulltrúi Bændahallarinnar ehf. og Hótel Sögu ehf. lagði fram í héraðsdómi í gær ósk um frekari framlengingu á greiðsluskjóli fyrirtækjanna. Verði dómurinn við óskinni mun tíminn verða notaður til að láta reyna á samninga við ríkið um sölu húseignarinnar til nota fyrir Háskóla Íslands.

Beiðni um framlengingu var ekki mótmælt og kveðst Sigurður Kári Kristjánsson lögmaður, umsjónarmaður með fjárhagslegri endurskipulagningu Hótel Sögu, vongóður um að framlenging fáist. Héraðsdómur úrskurðar um það en að hámarki er hægt að veita fyrirtækinu þriggja mánaða frest til viðbótar því 7. júlí verður liðið ár frá því fyrirtækin nýttu sér þetta úrræði. Samkvæmt lögum getur greiðsluskjól ekki varað nema í ár.

Bændasamtök Íslands, sem eiga bæði fyrirtækin, hafa átt í viðræðum við ýmsa aðila um sölu eða leigu á húsnæði hótelsins og raunar Bændahallarinnar allrar. Fjöldi ferðaþjónustufyrirtækja, erlendra og innlendra, hefur sýnt eigninni áhuga með það að markmiði að hefja aftur hótelrekstur. Mikil óvissa er hins vegar enn í ferðaþjónustunni vegna kórónuveirufaraldursins. Þá hafa verið viðræður við tvö fyrirtæki á heilbrigðissviði um að breyta hótelinu í hjúkrunarheimili.

Viðræður við ríkið vegna Háskólans virðast þó vera mest í deiglunni nú, fyrst þær eru nefndar sérstaklega í umsókn um framlengingu.

Fram hefur komið að Háskóli Íslands hefur áhuga á að flytja menntavísindasvið sitt úr húsi Kennaraháskólans við Stakkahlíð á háskólasvæðið og telur að húsið muni geta nýst fyrir ýmsa aðra starfsemi skólans. Húsið er alls um 18 þúsund fermetrar að stærð og því fylgir réttur til að byggja við. Þar eru salir sem nýta má sem kennslustofur og aðstaða fyrir skrifstofur. Þá hafa samtök stúdenta óskað eftir að hluti hússins verði gerður að stúdentagörðum.

„Viðræður standa yfir og og tíminn verður að leiða í ljós hvort þær leiða til niðurstöðu sem báðir sætta sig við,“ segir Sigurður Kári.