Ljósmyndari Jóna við mynd af nunnu í heitum rökræðum. Hún málaði vegginn í sama lit og serkir nunnanna voru.
Ljósmyndari Jóna við mynd af nunnu í heitum rökræðum. Hún málaði vegginn í sama lit og serkir nunnanna voru. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Með þessari sýningu langar mig til að vekja athygli á mætti kvenna og menntun,“ segir Jóna Þorvaldsdóttir ljósmyndari en sýning hennar, Rökræður , stendur nú yfir í Ramskram gallerí við Njálsgötu í Reykjavík.

„Með þessari sýningu langar mig til að vekja athygli á mætti kvenna og menntun,“ segir Jóna Þorvaldsdóttir ljósmyndari en sýning hennar, Rökræður , stendur nú yfir í Ramskram gallerí við Njálsgötu í Reykjavík. Þar sýnir Jóna ljósmyndir sem hún tók af nunnum í Himalajafjöllunum árið 2012 þar sem þær rökræddu búddíska heimspeki af miklum hita.

„Þetta er aldagömul aðferð til að þjálfa hugann og læra að hafa stjórn á tilfinningum sínum. Þessar rökræður snúast meira um félagslega iðkun en trúarbrögð, markmiðið er að beina málefnum í ákveðinn farveg til að dýpka skilning þeirra á kenningum í búddískri heimspeki,“ segir Jóna og bætir við að allar nunnurnar sem hún myndaði hafi flúið frá Tíbet til Indlands í von um tækifæri til að mennta sig.

„Þessar stúlkur komu mjög fátækar frá Tíbet og margar þeirra kunnu ekki að lesa eða skrifa. Þær flúðu líka til að öðlast sjálfstæði, því þó búddismi sé fallegur þá er margt þar afar karllægt og möguleikar kvenna innan búddisma hafa ekki verið þeir sömu og hjá munkum. Aðeins 26 ár eru síðan nunnur fengu að taka þátt í þessum árlegu rökræðum sem munkar sátu einir að, en þetta er í raun málþing eða mót. Aðeins 11 ár eru síðan fyrsta nunnan fékk að útskrifast með Geshema-gráðu, en það er ígildi doktorsgráðu í trúfræðum. Að baki þeirri gráðu liggur sautján ára skólaganga og fjögur prófár.“

Jóna segir að samveran með nunnunum hafi gefið sér nýja sýn á klausturlíf. „Það kom mér á óvart hversu mikið fjör og gleði var meðal þessara ungu stúlkna, þær hlógu og göntuðust og ákefðin var mikil hjá þeim. Athafnir í rökræðum eru táknrænar og leikrænar, til dæmis leggur sú nunna sem spyr spurninga áherslu með því að klappa saman höndum og stappa niður fæti, en hægri höndin táknar iðkun kærleika og samkenndar en sú vinstri stendur fyrir visku. Þannig mætast kærleikur og viska í klappinu og markmið hverrar spurningar er að uppræta fáfræði og að auka færnina til að sjá hlutina frá ólíkum hliðum.“

Konur rísa upp um heim allan

Jóna segir það hafa verið mikla upplifun að fá að dvelja heilan dag í klaustrinu með nunnunum.

„Ég borðaði með þeim og ég fékk líka að fylgjast með þegar ein var krúnurökuð, en það er hluti af því að ganga í klaustur að raka allt hár af höfðinu,“ segir Jóna og bætir við að mikill kærleikur og gleði hafi verið meðal nunnanna.

„Þetta voru um 200 nunnur sem tóku þátt í rökræðunum og þær komu víða að frá nokkrum klaustrum á Indlandi. Að ganga í klaustur er í raun eini möguleikinn fyrir þær til að fá að mennta sig, en þær þurfa ekki að lifa klausturlífi það sem eftir er ævinnar, frekar en þær vilja. Þær geta unnið utan klausturveggjanna og margar vinna sem kennarar, bæði í klaustrum og skólum. Þegar ég fékk leyfi til að taka myndir var það eina sem beðið var um að ég mundi styrkja og vekja athygli á félagasamtökunum Tibetan nuns project , en þau styðja við bakið á þessum nunnum. Ég læt því 15 þúsund af andvirði hverrar myndar sem ég sel renna til samtakanna. Þar fyrir utan styrkti ég samtökin veglega þegar ég varð fimmtug, en þá lögðu vinir mínir peninga inn á reikning í tilefni dagsins, sem ég lagði inn á þessi samtök. Ég vil gefa til baka af því ég fylltist þakklæti að fá þetta tækifæri. Gott karma, eins og sagt er á Indlandi. Það á líka vel við núna að setja upp þessa sýningu og leggja konum lið, því konur rísa núna upp út um allan heim.“

Jóna verður í Ramskram á morgun, föstudag, frá kl. 14-18 og kl. 14-17 laugardag og sunnudag sem er síðasta sýningarhelgin.

Nánar um samtökin: tnp.org.

Nánar um Jónu: www.jonath.is, instagram: jonaphotoart, Facebook: jonaphotoart.