Jón Magnússon
Jón Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Freyr Bjarnason Andrés Magnússon Ómar R. Valdimarsson og Jón Magnússon, lögmenn fólks sem var gert að sæta dvöl í sóttvarnahúsi, eru báðir vonsviknir yfir því að ekki hafi komið fram efnisdómur í Landsrétti vegna málsins.

Freyr Bjarnason

Andrés Magnússon

Ómar R. Valdimarsson og Jón Magnússon, lögmenn fólks sem var gert að sæta dvöl í sóttvarnahúsi, eru báðir vonsviknir yfir því að ekki hafi komið fram efnisdómur í Landsrétti vegna málsins. „Ég er sannfærður um hvernig það hefði farið. Það liggur ljóst fyrir miðað við hvernig niðurstaða héraðsdómara var,“ segir Jón.

Um var að ræða fjögur aðskilin mál en þeim var öllum vísað frá vegna skorts á lögvörðum hagsmunum. Dómur héraðsdóms er því enn í gildi.

„Þetta var það sem maður bjóst við að myndi gerast, því miður. Það hefði verið æskilegt að fá efnisdóm Landsréttar um málið því þá værum við komin með klárt fordæmi,“ segir Jón og bætir við að eftir standi úrskurður héraðsdóms. „Þá sér maður ekki að heilbrigðisráðherra eða sóttvarnalæknir geti vikið sér undan því að meðhöndla mál á þeim grundvelli að þarna liggi fyrir niðurstaða sem hafi ekki verið hnekkt og verði að taka ákvarðanir og afstöðu til stöðu sinnar í framhaldi af því,“ segir Jón.

Jón bætir við að sóttvarnalæknir geti engum öðrum um kennt en sjálfum sér. Ef málið hefði verið rekið með eðlilegum hraða og hann hefði komið málinu, strax og kærur bárust, í farveg fyrir héraðsdóm þá hefði fólkið ekki verið laust úr þessum viðjum þegar Landsréttur hefði kveðið upp sinn dóm.

Ferlið hafi byrjað á föstudaginn langa, hvað varðar umbjóðendur hans og Ómars. Vegna seinagangs sóttvarnalæknis hafi það ekki verið komið í ferli fyrr en á páskadag. Ótrúlegt sé að embættið hafi ekki verið búið undir það strax í upphafi að einhverjir myndu kæra afstöðuna.

Ómar segir úrskurð héraðsdóms endanlegan. „Þetta eru þær einu dómsúrlausnir sem liggja fyrir í málinu. Á meðan þeim hefur ekki verið haggað er þetta rétt mat og endanleg úrlausn á þessu máli,“ segir hann og bætir við að niðurstaða Landsréttar sé „fyrirsjáanlegasta niðurstaða ársins“.

Ráðherra ber fyrir sig undanþágu í upplýsingalögum

Heilbrigðisráðherra hefur ekki orðið við óskum Morgunblaðsins um að fá öll gögn heilbrigðisráðuneytisins - greinargerðir, lögfræðiálit og minnisblöð - sem lágu til grundvallar ákvörðun ráðherra um reglugerðina um skylduvist í sóttkvíarhóteli. Ráðherra ber fyrir sig undanþágu í upplýsingalögum um að gögn, sem tekin hafa verið saman fyrir ríkisstjórnarfundi, þurfi ekki að birta. Morgunblaðið hefur andæft því, þar sem hér ræði um gögn sem unnin voru áður og í öðrum tilgangi, þó svo vera kunni að þau hafi síðar verið lögð fyrir ríkisstjórnarfund. Blaðið hyggst leita réttar síns hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál, verði heilbrigðisráðherra ekki við óskum þess um hvernig hann sinnti rannsóknarskyldu sinni og komst að ákvörðun um reglugerðina, sem dómstólar hafa hafnað.