Dustin Johnson
Dustin Johnson
Mastersmótið í golfi hefst í dag á hinum glæsilega Augusta National-velli í Georgíuríki í Bandaríkjunum. Mótið fer ávallt fram á sama vellinum og sker sig að því leytinu úr hvað varðar risamótin fjögur hjá körlunum í íþróttinni.

Mastersmótið í golfi hefst í dag á hinum glæsilega Augusta National-velli í Georgíuríki í Bandaríkjunum. Mótið fer ávallt fram á sama vellinum og sker sig að því leytinu úr hvað varðar risamótin fjögur hjá körlunum í íþróttinni. Mótið er fyrsta risamót ársins hjá körlunum. Mótið fer vanalega fram í apríl en í fyrra var því frestað fram í nóvember vegna heimsfaraldursins. Í þetta skiptið líður því innan við hálft ár á milli Mastersmóta.

Í nóvember í fyrra sigraði Dustin Johnson frá Bandaríkjunum og hefur hann verið í efsta sæti heimslistans um hríð. Völlurinn var nokkuð frábrugðinn í nóvember af ýmsum ástæðum. Flatirnar voru til dæmis miklu mýkri og völlurinn var á margan hátt viðráðanlegri viðureignar en vanalega.

Tiger Woods sigraði eftirminnilega fyrir tveimur árum en hann er nú fjarri góðu gamni enda slasaður eftir bílslys. Meistarinn Dustin Johnson verður í dag í ráshópi með Lee Westwood og áhugamanninum Tyler Strafaci.