Fyrir nokkrum árum voru lagðar fram á Alþingi tillögur að stofnun embættis umboðsmanns aldraðra.

Fyrir nokkrum árum voru lagðar fram á Alþingi tillögur að stofnun embættis umboðsmanns aldraðra. Þær tillögur náðu því miður ekki fram að ganga en ég tel mikilvægt að við rifjum þær tillögur upp og skoðum hvort tilefni sé til að setja slíkt embætti á laggirnar.

Samfélagið hefur tekið örum breytingum á undanförnum áratugum. Samskipti borgara við þjónustuaðila og stofnanir hins opinbera fara sífellt meira fram í gegnum internetið og stöðugt minna með samtali augliti til auglitis. Símsvörun er að sama skapi að dragast það mikið saman á hinum ýmsu þjónustustofnunum að biðtími á línunni lengist oft úr hófi. Þá þekkist einnig að svör sem fást þegar hringt er í opinberar stofnanir séu á þá leið að svör megi finna á heimasíðum og innri kerfum. Þar þurfi að sækja um og haka við.

Á dögunum átti ég samtal við virðulega frú á efri árum. Hún er nýlega orðin ekkja og greindi mér frá erfiðleikum sínum við að koma reglu á líf sitt eftir andlát maka síns. Hvernig samskipti við yfirvöld, bankastofnanir og annað sem máli skiptir við rekstur heimilis væru flókin þegar jafnvel þyrfti að leysa einfalt mál. Hinar stöðugu kröfur um að hún hefði í fórum sínum rafræn skilríki, virkt netfang og kynni á alla rangala internetsins voru henni ekki að skapi. Hún kvaðst þurfa að fá lausn sinna mála en hver þjónustuaðilinn benti á annan, ef þjónustuaðilinn var yfirhöfuð manneskja en ekki bara einhver tölva.

Ég nefndi þessa stöðu í útvarpsviðtali í gær og þá kom í ljós að hvort tveggja fjölmiðlakonan sem og fjöldi hlustenda tengdu mjög við þessa líðan. Að finnast þau ekki hafa fullkomna stjórn á lífi sínu og að erfitt væri að fá svör um hvernig ætti að leysa hluti sem áður virtust auðveldir.

Þegar samfélagið hefur breyst jafn mikið og raun ber vitni þá getur staðan vafist fyrir fólki. Hvert á að leita, hvað þarf að hafa í huga og hvernig veit fólk hvort skýrslum og skjölum hafi verið skilað eða reikningar greiddir þrátt fyrir góðan vilja. Svokallaðar mínar síður á hinum og þessum þjónustustofnunum verða að brattri brekku og læra þarf á hvert og eitt kerfi.

Þegar svona er komið væri til fyrirmyndar að stjórnvöld settu á laggirnar embætti umboðsmanns aldraðra, rétt eins og við höfum umboðsmann borgarbúa og umboðsmann barna. Með embætti umboðsmanns aldraðra væri hvort tveggja hægt að veita einstaklingum sem þangað leita víðtækar upplýsingar um hvaðeina er varðar þeirra daglega líf og einnig koma á framfæri upplýsingum til stjórnvalda ríkis og sveitarfélaga frá þessum sístækkandi og fjölbreytta hópi íbúa landsins. Hópi sem hefur ólíkar þarfir, hefur ólíkan bakgrunn og er með misjafna þekkingu á víðfeðmi internetsins. Það myndi leysa mörg mál og auka vellíðan fólks á besta aldri. helgavala@althingi.is

Höfundur er þingman Samfylkingarinnar.

Höf.: Helga Vala Helgadóttir