[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán Hrafn Hagalín fæddist 8. apríl 1971 í Reykjavík, en ólst upp á Akureyri. Hann gekk í Oddeyrarskóla og Gagnfræðaskóla Akureyrar og spilaði fótbolta og handbolta með KA.

Stefán Hrafn Hagalín fæddist 8. apríl 1971 í Reykjavík, en ólst upp á Akureyri. Hann gekk í Oddeyrarskóla og Gagnfræðaskóla Akureyrar og spilaði fótbolta og handbolta með KA. Stefán Hrafn flutti 15 ára aftur suður yfir heiðar og hóf nám við Menntaskólann í Kópavogi.

„Ég kláraði bara ár í MK og spriklaði með gullárgangi ÍK. Tók svo örstutt frí frá formlegu námi. Hafði nefnilega sem pjakkur verið færður upp um bekk og taldi mig í inneign. Það námsleyfi stendur hins vegar enn yfir, að undanskilinni frábærri frammistöðu í bóklega ökunáminu 1988 þar sem ég var með 90 spurningar af 90 réttar og hæstur í útskriftarárganginum,“ segir afmælisbarn dagsins glottandi.

Hann hóf ungur að árum að vinna fyrir sér með skrifum. „Fyrstu greinarnar birtust í Alþýðublaðinu kringum 1990, sem var minn fyrsti alvöru vinnustaður eftir viðburðalitla spretti sem dælutæknir hjá olíufélögum og matreiðslumaður á dularfullu veitingahúsi í Garðabæ. Samhliða blaðamennskunni fyrstu árin var ég framkvæmdastjóri Sambands ungra jafnaðarmanna. Það lifði pólitískur þátttökuþráður í mér í áratug og ég þróaðist hratt frá villta vinstrinu yfir í frjálslyndan hægrikrata og öfgafemínista. Hætti aftur móti öllum pólitískum afskiptum kringum hálfþrítugt. Það var ugglaust gæfuskref fyrir land og þjóð og engar spurnir borist af því að stjórnmálaheimurinn sakni mín.“

Hjá Alþýðublaðinu starfaði Stefán Hrafn í nokkur ár, síðast sem fréttastjóri. Hann var 24 ára ráðinn ritstjórnarfulltrúi Helgarpóstsins og tók sama ár við sem ritstjóri blaðsins. Hann gegndi því starfi um tveggja ára skeið og var þá fenginn til að ritstýra tímaritinu Tölvuheimi þar sem hann var 1996-1999 og stjórnaði jafnframt sjónvarpsþáttunum Punktur.is á Stöð 2 og Sýn.

„Ég kvaddi blaðamennskuna eftir áratug árið 1999 og tók brattur við starfi markaðsstjóra Opinna kerfa. Var smástund að finna taktinn í atvinnulífinu eftir að blaðamennskunni lauk, yfirgaf Opin kerfi til dæmis eftir ársdvöl og tók þá að mér starf framkvæmdastjóra Íslenska netfélagsins. Var þar við þróun misheppnaðrar netverslunarkringlu um skamma hríð. Því næst vann ég ráðgjafarstörf og viðskiptaþróun fyrir alþjóðlega fjárfesta í tvö ár, lengst af á Indlandi en einnig í Tékklandi. Mikil lífsreynsla atarna, en uppskeran takmörkuð.“

Við heimkomuna 2001 hóf Stefán Hrafn markaðsstörf hjá Teymi – Oracle á Íslandi og var ári síðar ráðinn markaðsstjóri Skýrr sem seinna varð Advania. Þar fann hann fjölina og starfaði um 11 ára skeið. „Eftir tíð vistaskipti kringum aldamótin varð ég ígildi vel heppnaðs húsgagns hjá Advania og forverum þess. Stórkostlegt tímabil. Eigendur Odda fengu mig næst til liðs við sig sem stjórnanda mannauðs- og markaðsmála og þar var ég í þrjú ár. Þessi sérstaka blanda átti ágætlega við mig þótt eitt sinn hafi verðandi fyrrverandi starfsmaður Odda reyndar hreytt í mig að ég hafi augljóslega komist langt áfram í lífinu á útlitinu einu saman!“ rifjar Stefán Hrafn upp hlæjandi.

Árið 2016 var hann tiltölulega nýbyrjaður sem verkefnastjóri hjá Auðkenni þegar síminn hringdi. „Hinumegin á línunni voru stjórnendur Landspítala, sem dobluðu mig til að skipta um lið. Þar stýri ég samskiptadeild með mögnuðu starfsfólki. Á okkar könnu er öll upplýsingamiðlun spítalans; almannatengsl, fjölmiðlasamskipti, samfélagsmiðlar, vefsvæði, hlaðvörp og viðburðir. Erum öðrum þræði fréttastofa Landspítala og framleiðum þúsundir frétta gegnum árið um starfsemi, mannauð og verkefni spítalans.“

Lífið utan vinnu er litað af eldamennsku, hlaupum og barnabörnum. „Ég róa hjartað með eldamennsku, en til að tæma hugann hleyp ég daglega. Annaðhvort í fótbolta með oldboys Þróttar eða á útihlaupum með eiginkonunni. Frú Valgerður er ekki bara flinkur hönnuður og háskólamenntuð hestakona, heldur líka óvenju frá á fæti. Þessu til viðbótar geri ég talsvert af því að dæma fótboltaleiki ungmenna og flauta yfirleitt nokkra leiki í viku í Laugardalnum. Félagið og knattspyrnuhreyfingin hafa þakkað fallega með góðmálmum fyrir þá vinnu og ég er í góðu glensi titlaður Þróttari ársins 2015 í símaskránni. Skemmtilegast af allri dægradvöl minni eru árlegar keppnisferðir oldboys Þróttar til Bretlands. Tímafrekustu verkefnin utan vinnu og leikja eru þó barnabörnin. Við erum svo lánsöm að fá að taka ríkan þátt í uppeldi tveggja gullmola, sem eru okkar hjartans yndi.“

Fjölskylda

Eiginkona Stefáns Hrafns er Valgerður Gunnarsdóttir, f. 25.4. 1967, grafískur hönnuður hjá markaðsstofunni Brandr. Hjónin hafa undanfarna tvo áratugi búið í Laugardal. Foreldrar Valgerðar eru hjónin Guðríður Þorbjörg Valgeirsdóttir, f. 24.8. 1946, og Gunnar Birgir Gunnarsson, f. 9.11. 1943, bændur á Arnarstöðum í Flóa.

Stefán Hrafn á fimm börn. 1) Sonur Stefáns og Hrannar Ingólfsdóttur, f. 21.4. 1968, markaðsstjóra í Reykjavík, er Andri Már Hagalín, f. 3.9. 1989, ráðgjafi í Reykjavík. Maki hans er Ásdís Kristín Eiðsdóttir, ráðgjafi, f. 24.9. 1990. Dóttir þeirra er Aþena Sif, f. 6.10. 2017. 2) Sonur Stefáns og Hildar Bjarkar Sigbjörnsdóttur, f. 7.11. 1972, verkefnastjóra í Reykjavík, er Jökull Starri Hagalín, f. 10.8. 1995, sálfræðinemi í Reykjavík. 3) Sonur Stefáns og Arndísar Kristjánsdóttur, f. 14.4. 1969, lögfræðings í Reykjavík, er Bjartur Steinn Hagalín, f. 30.10. 1999, háskólanemi í Reykjavík. Stjúpbörn Stefáns og börn Valgerðar eru: 4) Þorbjörg Ásta Leifsdóttir, f. 18.3. 1991, lögmaður í Reykjavík. Maki hennar er Grímur Gunnarsson, f. 22.6. 1990, sálfræðingur. Sonur þeirra er Valgeir Hrafn, f. 1.12. 2018. 5) Þorgeir Bragi Leifsson, f. 23.9. 1999, verslunarmaður í Reykjavík.

Stefán Hrafn á þrjú alsystkini. Þau eru Friðfinnur Örn Hagalín, f. 3.7. 1973, kerfisstjóri í Reykjavík, Guðmundur Már Hagalín, f. 19.4. 1977, málmsmiður í Hafnarfirði, og Halldóra Anna Hagalín, f. 3.11. 1981, markaðsstjóri í Reykjavík. Stefán á sömuleiðis einn hálfbróður, Grétar Guðmundsson Hagalín, f. 6.6. 1990, framkvæmdastjóra í Reykjavík, sem faðir hans, Guðmundur, á með seinni eiginkonu sinni, Jóhönnu Björgu Jóhannsdóttur, f. 13.10. 1950, fv. launafulltrúa. Jóhanna Björg átti fjóra syni fyrir, Jóhann, Egil Rúnar, Hjört og Helga Pjetur.

Foreldrar Stefáns eru Guðmundur Hrafnsson Hagalín, f. 25.10. 1949, fv. fjármálastjóri á Spáni, og Sigrún Bára Friðfinnsdóttir, f. 3.1. 1950, þjónustufulltrúi í Reykjavík.