Sigri fagnað Stuðningsmenn Inuit Ataqatigiit fagna fyrstu kosningatölum.
Sigri fagnað Stuðningsmenn Inuit Ataqatigiit fagna fyrstu kosningatölum. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ásgeirsson agas@mbl.is Grænlenski vinstriflokkurinn Inuit Ataqatigiit (IA) fór með sigur af hólmi í þingkosningunum á Grænlandi, hlaut 36,6% atkvæða, en kosið var í fyrradag, þriðjudag.

Ágúst Ásgeirsson

agas@mbl.is

Grænlenski vinstriflokkurinn Inuit Ataqatigiit (IA) fór með sigur af hólmi í þingkosningunum á Grænlandi, hlaut 36,6% atkvæða, en kosið var í fyrradag, þriðjudag. Umhverfismál voru helstu kosningamál hans, þar á meðal var IA andvígur umdeildri og umfangsmikilli námavinnslu syðst í landinu þar sem verðmæt sjaldgæf jarðefni er að finna. Var IA vel á undan Sioumut í talningunni, krataflokki sem verið hefur ráðandi og ríkjandi í grænlenskum stjórnmálum allar götur frá því Grænlendingar fengu heimastjórn frá Dönum árið 1979.

Kosningarnar voru í raun þjóðaratkvæði um námavinnsluverkefnið í Kuannersuit-jarðlögunum sem sagt var að myndi leiða til fjölbreyttara athafnalífs í landinu og dreifðari tekjustofna. Talsmenn vinnslunnar báru fyrir sig nauðsyn verkefnisins er landsmenn byggju sig undir breytta tíma samfara hlýnun andrúmsloftsins. Skipti sköpum að treysta undirstöður ríkissjóðsins í Nuuk ef Grænlendingar ætluðu að öðlast fullt sjálfstæði frá Dönum.

IA var í stjórnarandstöðu á nýliðnu kjörtímabili en atkvæðatölur benda til að flokkurinn fái 12 þingmenn af 31 á heimaþinginu (Inatsisartut). Eru það helmingi fleiri sæti en á fráfarandi þingi er þeir voru átta. En án hreins meirihluta þykir líklegast að IA taki höndum saman við minni flokka um myndun samsteypustjórnar.

„Þjóðin hefur sagt sitt,“ sagði hinn 34 ára gamli leiðtogi IA, Mute Egede, á fésbókarsíðu snemma í gærmorgun. „Traustið sem þið berið til okkar skyldar okkur til að sýna mikla ábyrgð og munum við gera allt til að standa undir henni,“ bætti hann við.

Egede hafði verið liðsmaður grænflokksins Inatsisartut frá 2015 og tók við forystu hans fyrir röskum tveimur árum. „Kannski er ég ungur, en það er líka styrkur minn,“ sagði hann við grænlenska útvarpið KNR í gær. Þetta er í aðeins annað sinn sem flokkur hans hefur betur en Siumut í kosningum. Fyrra skiptið var árið 2009.

Egede sagði útvarpinu að þegar í stað myndi hann hefja viðræður við flokkana og kanna „mismunandi samstarfsform“ áður en gengið yrði til formlegra stjórnarmyndunarviðræðna.

Siumut fór fyrir stjórninni sem nú varð undir en flokkurinn hefur að hluta til skaðast af innanflokkserjum og átökum undanfarin ár. Hann fékk 29,4% atkvæða og 10 menn kjörna. Var það engu að síður stærri skerfur (2%) en í síðustu kosningum, árið 2018. Á kjörskrá nú voru 41.000 manns og greiddu 27.000 atkvæði, eða 65,8%.

Það sem skildi stóru flokkana tvo fyrst og fremst af var hvort heimila bæri umdeilda risavinnslu fágætra jarðefna og úrans í hinu 56.000 manna landi. Eru áform þau í umhverfismati sem stendur. Talið er að Kuannersuit-jarðlögin geymi einhver efnismestu steinefnalög sem vitað hefur verið um á jörðinni. Fágætu jarðlögin geyma 17 málma sem brúkaðir eru í allt frá snjallsímum til rafbíla og vopna. Hefur IA krafist þess að úranvinnslan verði stöðvuð með lögum en slíkt mundi í raun binda enda á verkefnið.

Umhverfið framar hagkerfinu

„Skilaboð kjósenda voru skýr; þeir vilja ekki fórna umhverfinu í þágu hagkerfisins,“ sagði Mikaa Mered, prófessor í fræðigrein sem snýst um samspil stjórnmálafræði og landafræði við Sciences Po-háskólann í París.

IA hefur að auki heitið því að skrifa undir Parísarsamkomulagið frá 2015 en Grænland er eitt örfárra landa sem ekki hafa staðfest það.

Skoðanakönnun sem birt var í blaðinu Sermitsiaq annan í páskum sýndi að 63% þjóðarinnar eru andvíg námavinnslunni fyrirhuguðu en aðeins 29% sögðust vera andvíg námagreftri yfirhöfuð. Hefur vinnslan verið hitamál. „Ég kýs flokk sem lýsir andstöðu við úraníum,“ sagði hinn fertugi Henrik Jensen við AFP er hann kom út úr kjörklefanum í Nuuk.

„Heilbrigðismálin eru mikilvægust. Það er vitað mál að námaverkefnin munu hafa áhrif í umhverfinu,“ sagði Egede sl. mánudagskvöld, í síðustu kappræðum flokkanna vegna kosninganna í sjónvarpinu.

Ágreiningur um Kuannersuit-vinnsluna leiddi til skyndikosninga á Grænlandi eftir að einn af smærri samstarfsflokkunum yfirgaf samsteypustjórn Siumut.

Flokksformaður Siumut, Erik Jensen, segir að náman skipti „gríðarlega miklu máli fyrir efnahagslíf Grænlands og með henni myndu tekjustofnar ríkisins verða fjölbreyttari. Það væri lykilatriði ætluðu Grænlendingar að heimta fullt sjálfstæði af Dönum.

Andstæðingar vinnslunnar í Kuannersuit segja að hún feli í sér of margar umhverfislegar hættur, muni meðal annars skilja eftir sig geislavirkan úrgang. Að námuvinnslunni á Grænlandi stendur ástralska málmleitarfélagið Greenland Minerals sem er í eigu Kínverja.

Frá 2009 hafa Grænlendingar farið alfarið sjálfir með yfirráð yfir auðlindum sínum. Þurfa þeir engu að síður að treysta á um 526 milljóna fjárhagsaðstoð frá Kaupmannahöfn á ári til að fjármagna sem svarar þriðjungi útgjalda ríkissjóðs. Danir eru ekki andvígir sjálfstæði Grænlendinga en í þeirra höndum eru áfram utanríkis- og varnarmál landsins víðfeðma. Því leitar heimastjórnin í Nuuk leiða til að finna fjölbreyttari tekjustofna svo sem með auknum sjálfbærum fiskveiðum, ferðaþjónustu og landbúnaði. Hefðbundnar fiskveiðar skila um 90% útflutningstekna Grænlands. Hernaðarlega mikilvæg lega landsins og víðtækar og miklar auðlindir í jörðu hafa vakið alþjóðlega athygli.

Í snjókomunni í Nuuk í fyrradag myndaðist biðröð við kjörstað. Deilt var út andlitsgrímum í sóttvarnaskyni en kórónuveiran hefur lítillega stungið sér niður á Grænlandi. Þeir hafa sloppið við manntjón af hennar völdum en staðfest hefur verið sýking í 31 manni. En það er ekki bara námavinnsla sem var undir í kosningunum. Yngra fólk hefur ræktað rætur sínar í auknum mæli og snúið umræðunni um arfinn af nýlendustefnu Dana, félagsmál og menningareinkenni.