María Jóna Hreinsdóttir fæddist 11. febrúar 1953 á Akranesi. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Mörkin 1. apríl 2021. Faðir: Hreinn Árnason, f. 30.8. 1931, d. 12.9. 2007, málarameistari. Móðir: Ólafía Guðrún Ágústsdóttir, f. 5.9. 1929, d. 13.8. 2018, húsmóðir. Systur Maríu eru Þóra Hreinsdóttir, f. 24.3. 1954, Bryndís Hreinsdóttir Cawley, f. 30.3. 1958, og Íris Hreinsdóttir, f. 2.12. 1962.

Þann 21.12. 1995 giftist María eiginmanni sínum Rosario Russo, f. 18.2. 1952. Börn þeirra eru 1) María Russo, f. 15.6. 1984, 2) Giuseppe Russo, f. 28.11. 1986, maki Anna Lilja Elvarsdóttir, f. 1.10. 1990, og sonur þeirra, f. 22.1. 2021.

María sinnti brautryðjendastarfi í þágu fósturgreiningar og ljósmóðurfræði. Hún lauk sjúkraliðaprófi 1974 og ljósmæðraprófi 1979. Hún starfaði á fæðingardeild Landspítala frá 1979 og síðar við sónarskoðanir á fósturgreingardeild frá 1982 til 2016. Árið 2011 var hún sæmd Riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín í gegnum árin.

Í maí 2018 var María heiðruð fyrir frumkvöðlastarf sitt á sviði fósturgreiningar á fjölþjóðlegum fundi fæðingarlækna og ljósmæðra í Reykjavík.

Útförin fer fram í dag, 8. apríl, kl. 13 í Grafarvogskirkju. Henni verður streymt á Youtube-síðu Grafarvogskirkju.

Stytt slóð á streymi:

https://tinyurl.com/4fz8uuhy

Virkan hlekk má nálgast á:

https://www.mbl.is/andlat

Elsku María.

Þar sem ég sit hér við tölvuna og langar að minnast þín koma fram ótal minningar og þakklæti. Enda kannski ekki skrýtið þar sem við unnum saman stóran hluta vinnuævi minnar sem ljósmóðir.

Fyrsta minningin er þegar ég var að taka á móti mínu öðru barni sem ljósmóðurnemi, fallegur drengur fæddur 2. desember 1983. Þú kenndir mér hvernig ég ætti að bera mig að, varst örugg í fasi, enda gekk fæðingin eins og í sögu, þrátt fyrir óöryggi ljósmóðurnemans.

Ég lærði að ómskoða hjá Maríu vorið 1988 og um sumarið leysti ég hana af í hennar sumarfríi. Svoleiðis var þetta næstu árin, ég var að hluta til „lánuð“ frá fæðingargangi af og til yfir veturinn en leysti síðan Maríu af svo hún kæmist í sumarfrí allt fram til ársins 1995 en þá fékk ég fasta stöðu á fósturgreiningardeildinni.

Áhugi þinn á starfinu var einstakur, þú varst alltaf að reyna að tileinka þér nýjungar sem gat verið erfitt á þeim tíma. Þú fannst fyrir mikilli ábyrgð að bjóða þunguðum konum og þeirra fjölskyldum upp á bestu þjónustu á hverjum tíma. Við búsett hér á hjara veraldar, án netsins og rándýrt að fljúga út á ráðstefnur, en þú fannst leið til þess.

Við fórum þó nokkuð margar ferðir, sem voru planaðar með löngum fyrirvara, best var að kaupa apex-miða með Flugleiðum, þeir voru ódýrastir, rauðir eða grænir. Þá var að kaupa hótelgistingu og að sjálfsögðu vorum við í sama herbergi því það var ódýrara og ekki kostuðu máltíðirnar mikið.

Með þessu móti komum við heim með þekkingu sem nýttist í starfinu og bættum þannig þjónustu við skjólstæðinga deildarinnar.

Einlæg ástríða þín að deildin okkar, eins og þú sagðir svo oft, ætti að vera á meðal þeirra bestu skein í gegn í allri þinni vinnu. Alveg sama þó manni fyndist alveg nóg að gera og skildi ekki hvernig við gætum bætt á okkur fleiri verkefnum, þá fannstu leið. Ef þetta er til að bæta þjónustuna þá gerum við það.

Lengst af varst þú að mestu eina ljósmóðirin að vinna, alla virka daga og álagið hlýtur stundum að hafa verið ansi mikið. Góð samvinna við læknana var einstök og hefur alltaf fylgt þessari deild ásamt okkar eðalriturum. Smám saman bættist í hóp ljósmæðra og lækna eftir því sem árin liðu.

Metnaður þinn, þor og kjarkur var óþrjótandi, það er ekki alltaf auðvelt að vera frumkvöðull en það varstu svo sannarlega.

Þvílík gleði þegar þú fékkst fálkaorðuna 2011, áttir það svo sannarlega skilið og þar segir einmitt í umsögninni: riddarakross fyrir brautryðjandastörf í þágu fósturgreiningar og ljósmóðurfræða.

Elsku María, þú kenndir mér svo ótal margt, svo mikil fyrirmynd og ég vona að ég komi því áfram í starfi mínu, bæði gagnvart skjólstæðingum og starfsfólki. Takk fyrir allt.

Elsku Rosario, María, Giuseppe, Anna Lilja og litli kútur, missir ykkar er mikill og ég sendi ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Megi Guð hjálpa ykkur gegnum þessa erfiðu tíma.

Kristín Rut Haraldsdóttir.

Sumir ná að skrifa sig inn í söguna. María Jóna Hreinsdóttir, ljósmóðir, gerði það með mikilvægu starfi sínu í þrjá áratugi þegar byggt var upp kerfi ómskoðana fyrir þungaðar konur á Íslandi. Góð og gáfuð kona, með eðlislæga fagmennsku, dugnað og samviskusemi. Send utan með annarri ungri samstarfskonu árið 1982 til að læra að „sónarskoða“, sem þá var gert með frumstæðu tæki sem ekki var á allra færi að höndla. Tilbúin að tileinka sér nýja tækni og ný viðhorf í vinnu sem þá var óvanalegt að ljósmæður legðu fyrir sig. Þegar að því kom tveim árum síðar að finna óskipulagðri starfsemi nýjan farveg í skimun sem náði til allra kvenna, var eins og hún hefði beðið eftir tækifæri til að koma í þá vegferð. Frábær samstarfsmaður, full áhuga, skilnings og óþreytandi atorku í vinnu sem var mikilvæg fyrir íslenskar konur. Lærði, kenndi og miðlaði, næm á aðstæður og fólk. Vildi kynna nýjar og vísindalega grundvallaðar aðferðir í meðgönguvernd og koma upp ómskoðunum fyrir allar konur við 19-20 vikna meðgöngu. María skildi nauðsynina á íslenskri rannsóknarvinnu til að grunnur þess sem seinna var kallað fósturgreining yrði góður og lagði mikið til þess að gera ferlið þannig úr garði að konur kæmu í ómskoðun. María deildi með þeim gleðinni þegar allt gekk eins vel og vonast var til, en var líka til staðar með samkennd og góðvild þegar erfiðleikar komu upp.

Við byggðum upp þjónustu sem þá var aðeins til á fáum stöðum í heiminum. Fastur hluti meðgönguverndar. Stig af stigi var bætt við nýjungum eftir því sem tækni og þekkingu fleygði fram. Snemmskimun, betri aðferðir við að fylgjast með vexti og heilbrigði fósturs, nýjar greiningaraðferðir, innlend og erlend samvinna. Námskeið og kennsla. Fyrir sitt mikla frumkvöðlastarf var hún endurtekið og verðskuldað heiðruð, svo sem af Landspítalanum, á norrænum vettvangi og með fálkaorðu lýðveldisins.

María Hreinsdóttir var hógvær, fáguð og falleg kona. Farsæl í daglegu starfi og við stjórnun. Skynjaði kosti samferðamanna sinna og vissi hverjir hentuðu í starfi sem byggðist svo mjög á samvinnu og samráði fagfólks. Hafði metnað fyrir því sem hún vann við að byggja upp og vildi að staðlar í þekkingu og getu væru háir.

Fyrir um áratug fór hún kenna sjúkleika sem smám saman lamaði starfsgetuna og gerði seinustu árin svo erfið. Þegar jafnvel getan til að tjá sig varð undan að láta. En heiðríkjan í fari hennar hvarf samt ekki. Saro, eiginmaður hennar, og María voru samhent hjón. Á Kvennadeild Landspítalans er hugur okkar sem vorum samtíða þeim á svo mörgum góðum árum hjá Saro, hjá börnum þeirra og fjölskyldunni. Ég er þakklátur fyrir langa vináttu og samstarf. Meðal lækna og ljósmæðra í mæðravernd verður Maríu Hreinsdóttur minnst með virðingu og þökk.

Reynir Tómas Geirsson.