Erna Sveinbjörnsdóttir fæddist í Reykjavík 3. apríl 1939. Hún lést á heimili sínu 27. mars 2021. Foreldrar hennar voru Sveinbjörn Jónsson bifreiðastjóri, d. 1.9. 1997, og Elínborg Ólafsdóttir, d. 9.6. 1998. Systkini Ernu eru Haukur, d. 31.10. 2018, Sigríður, Arnar sem lést stuttu eftir fæðingu og Bjarni, d. 11.2. 1996.

Hinn 24. maí 1958 giftist Erna Halldóri Friðrikssyni, d. 24.6. 2005. Foreldrar hans voru Friðrik Þórðarson og Stefanía Þorbjarnardóttir. Börn Ernu og Halldórs eru: 1) Friðrik Stefán, f. 1959, kona hans er Bergljót Friðriksdóttir og eiga þau þrjú börn: a) Auður, f. 1984, b) Esther, f. 1994, c) Íris, f. 1997. 2) Elínborg, f. 1962, og á hún fjögur börn: a) Erna Gunnþórsdóttir, f. 1984, b) Þórarinn Jökull, f. 1994, c) Alexandra, f. 1995, d) Halldóra Vera, f. 1999. 3) Sveinbjörn, f. 1963, kona hans Ingibjörg Erna Sigurðardóttir og eiga þau þrjú börn: a) Erna, f. 1985, b) Halldór Freyr, f. 1988, c) Linda Björk, f. 1995. 4) Margrét, f. 1965, maður hennar Jóhann Viktor Steimann og eiga þau þrjú börn: a) Thelma Björk, f. 1989, b) Harpa Ruth, f. 1991, c) Helena Ýr, f. 1993. Elsta dóttir Elínborgar, Erna, ólst upp hjá Ernu og Halldóri.

Erna ólst upp við Grettisgötuna og síðar í Drápuhlíð í Reykjavík. Sem barn og unglingur var hún send í sumarvinnu að Hvanneyri þar sem móðursystir hennar bjó. Hvanneyrardvölin leiðir til þess að hún kynnist Halldóri á skemmtun á Bifröst.

Erna sinnti til að byrja með heimilisstörfum enda mikið verkefni að halda úti fjórum uppátækjasömum börnum á þessum tíma. Þegar þau eru að komast á legg fór hún út á vinnumarkaðinn og vann til að byrja með við verslunarstörf. Um 1980 taka þau hjónin upp á því að gerast stórkaupmenn og hefja innflutning á hreinlætisvörum frá Svíþjóð. Þetta þróaðist áfram, fyrirtækið óx og dafnaði og fleiri vörutegundir komu til, svo sem einnota matvælaumbúðir frá Ameríku. Erna starfaði þarna sem framkvæmdastjóri með öllu því sem því fylgir í litlu fyrirtæki, allt þar til fyrirtækið var selt fljótlega eftir fráfall Halldórs 2005. Erna elskaði söng, tónlist og dans og fátt fannst henni meira gaman en að vera í góðra vina hópi þar sem hægt var að syngja við undirspil.

Fyrstu árin bjuggu þau Erna og Halldór í Selvogsgrunni, síðan byggðu þau hús í Safamýri og fluttu þaðan í Haðaland í Fossvogi, þar sem hún bjó til ársins 2006. Þá flutti hún á Strikið í Garðabæ.

Útförin fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 8. apríl 2021, klukkan 13 og streymt er frá athöfninni á slóðinni:

https://youtu.be/dkpCjuMptak

Virkan hlekk á streymi má finna á:

https://www.mbl.is/andlat

Hver gengur þarna eftir Austurstræti

og ilmar eins og vorsins blóm

með djarfan svip og ögn af yfirlæti

í ótrúlega rauðum skóm?

Ó, það er stúlka engum öðrum lík,

það er hún fröken Reykjavík,

sem gengur þarna eftir Austurstræti

á ótrúlega rauðum skóm.

Og því er eins og hafi vaxið vorsins blóm á stræti.

(Jónas Árnason)

Hún Erna var fædd í apríl og minnti okkur alltaf á vorsins blóm sem angaði af fegurð og gleði. Erna var sannkölluð Reykjavíkurmær sem naut lífsins en tókst líka á við erfið verkefni á lífsins leið. Öll munum við kveðja þessa jarðvist, en ætíð kemur það manni á óvart þegar góðir vinir falla frá. Þannig var það þegar við fréttum af andláti Ernu vinkonu okkar, sem við kveðjum í dag.

Kynni okkar hófust á Reykjalundi haustið 2006, þar sem við dvöldum okkur til heilsubótar. Þar myndaðist sterk vinátta sem við höfum viðhaldið með notalegum samverustundum í gegnum árin. Við Stöllurnar, eins og við köllum hópinn okkar, vorum á ólíkum aldri, komum úr ólíku umhverfi og með ólíka reynslu að baki en náðum afar vel saman.

Það var ánægjulegt að umgangast Ernu. Hún var gáfum gædd kona, kappsöm í störfum, ósérhlífin, kvik í hreyfingum og létt á fæti. Glaðværð, glæsileiki og lífsgleði einkenndu hennar framkomu, heilindi, hjálpsemi og hreinskiptni voru hennar eðalsteinar. Erna var mikill fagurkeri og bar heimili hennar þess glöggt vitni. Hún var höfðingi heim að sækja og tók á móti okkur með bros á vör. Alltaf beið okkar hlaðborð sem Erna skreytti með sínu dásemdarkaffistelli, fallega silfurborðbúnaði, litríkum servíettum, kertaljósum, að ógleymdum dásamlegum púrtvínsglösum sem skálað var í á góðri stund. Allt þetta, ásamt hennar hlýja viðmóti, gerði samveru með Ernu svo eftirminnilega.

Vinátta spyr ekki að vegalengdum, tíma né aldri. Hún snýst um virðingu, ást og væntumþykju. Megi falleg minning um einstaka vinkonu lifa að eilífu.

Við Stöllurnar þökkum Ernu fyrir samfylgdina og vottum ættingjum hennar okkar dýpstu samúð.

Ásdís Gígja, Elfa Dögg, Helga, Soffía og Þórey.