Guðrún Jóhannesdóttir fæddist 29. maí 1930. Hún andaðist 24. febrúar 2021.

Útförin fór fram 19. mars 2021.

Í dag kveð ég yndislega konu, Guðrúnu Jóhannesdóttur, sem fylgt hefur mér í gegnum rúmlega þrjátíu ár. Konu sem tók mér opnum örmum þegar ég kom í fjölskylduna sem tengdadóttir Helgu systur hennar. Hún bauð mig velkomna frá fyrsta degi og tók þátt í lífi mínu og fjölskyldu minnar af einlægum áhuga og væntumþykju alla tíð.

Gunna var glettin og skemmtileg kona. Hún var miðdepill tengdafjölskyldu minnar og Hamrahlíðin, þar sem hún bjó lengst af, var nokkurs konar félagsmiðstöð. Þangað voru allir velkomnir. Alltaf tók hún okkur fagnandi, dúkaði borð við eldhúsgluggann, hellti upp á kaffi og galdraði fram eitthvað gott með því. Oftar en ekki hitti maður aðra fjölskyldumeðlimi á staðnum sem kíkt höfðu til Gunnu í sömu erindagjörðum og við, að njóta samverunnar, spjalla um heima og geima og fá fréttir af fjölskyldunni. Því ef einhver vakti yfir fólkinu sínu var það Gunna. Sömu sögu má segja af heimsóknum okkar í Seljahlíðina þar sem Gunna dvaldi síðustu árin. Enn var okkur fagnað með góðu kaffi og veitingum, fréttum af fjölskyldunni og heimilislífinu í Seljahlíðinni. Gunna var þar hrókur alls fagnaðar og tók þátt í félagsstarfinu og föndrinu. Í föndrinu fengu listrænir hæfileikar hennar að njóta sín þar sem hún bjó til fallega hluti og saumaði út kort sem hún deildi út meðal fjölskyldumeðlima á merkisdögum.

Aldrei hallmælti Gunna nokkrum manni og öllum vildi hún vel. Hún hafði þann eiginleika að laða fólk að sér. Gunna hélt skemmtilegustu boðin hér á árum áður og oftar en ekki var það hún sem tók að sér að hóa vinnufélögunum saman þegar mikið stóð til. Þá var iðulega boðið upp á Hamrahlíðarbolluna sem mörgum þótti allhressileg. Uppskriftin er til og enn er boðið til gleðskapar í Hamrahlíðinni, nú af yngri fjölskyldumeðlimum.

Gunna kom úr stórum systkinahópi og var gaman að heyra hana rifja upp æskuna þar sem líf og fjör einkenndi fjölskyldulífið í Borgarfirðinum. Strákapör bræðranna á Flóðatanga liðu henni seint úr minni og margar skemmtilegar sögur sem hún sagði börnunum mínum af uppvexti þeirra syskinanna. Greinilegt var að Gunnu þótti afar vænt um systkini sín og þá ekki síst tengdamóður mína Helgu sem hún reyndist alla tíð svo vel.

Að leiðarlokum er margs að minnast. Þegar ég minnist Gunnu er þakklæti efst í huga, þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast svo heilsteyptri og sannri konu sem aldrei fór í manngreinarálit. Konu sem lét sér annt um mig og mína og gerði okkur að betri manneskjum. Minningin um elsku Gunnu mun ætíð fylgja okkur og verða okkur leiðarljós. Hafi hún þökk fyrir samfylgdina.

Guðrún Erna Þórhallsdóttir.