Alþjóðlegur dagur barnabókarinnar hefur frá 1967 verið haldinn hátíðlegur í kringum 2. apríl sem er fæðingardagur H.C. Andersen.
Alþjóðlegur dagur barnabókarinnar hefur frá 1967 verið haldinn hátíðlegur í kringum 2. apríl sem er fæðingardagur H.C. Andersen. Þar sem daginn bar í ár upp á páskana heldur IBBY á Íslandi upp á daginn í dag með því að færa öllum grunnskólanemum landsins að gjöf smásöguna Svartholið sem Kristín Ragna Gunnarsdóttir skrifaði í tilefni dagsins. Sagan verður flutt á Rás1 í þættinum Segðu mér sem hefst kl. 09.05 og aðgengileg á vef RÚV strax að lestri loknum. Námsgagnaveitan 123skoli hefur útbúið fjölbreyttan verkefnapakka fyrir söguna sem hentar ólíkum aldurshópum og nálgast má á vefnum 123skoli.is. „Hugsjón IBBY-samtakanna er sú að barnabókmenntir geti stuðlað að auknu umburðarlyndi. Þeir sem lesa eða hlusta á sömu söguna eiga upp frá lestrinum eitthvað sameiginlegt. Með því að leyfa öllum grunnskólanemum landsins að hlusta samtímis á söguna stíga fjörutíu þúsund nemendur inn í sama heim á sama tíma.“