Jóhannes Finnur Skaftason fæddist 17. ágúst 1941. Hann lést 19. mars 2021.

Hann var jarðsunginn 26. mars 2021.

Horfinn er á braut gamall skólafélagi og góður vinur, Jóhannes Finnur Skaftason. Fyrstu kynni okkar af Jóhannesi voru þegar nýnemar mættu til náms í Menntaskólann að Laugarvatni haustið 1957. Í heimavistarskóla myndast traust kynni meðal nemenda sem síðan verða undirstaðan að ævilöngum vináttusamböndum. Slík voru kynni okkar af Jóhannesi. Hann féll vel í hópinn, hæglátur og prúður, léttur í skapi með sterka kímnigáfu, en fastur fyrir ef svo bar undir. Hann var frábær námsmaður, hæstur á stúdentsprófi í stærðfræðideild skólans. Þá tók við nám í lyfjafræði í Háskóla Íslands og síðar framhaldsnám í DfH í Danmörku þar sem hann fékk hina virtu H.C. Örsteds mindemedalia fyrir námsárangur. Samhliða vinnu á síðari hluta sjöunda áratugarins stundaði Jóhannes nám í viðskiptafræði en ævistarf hans tengdist þó alltaf lyfjafræði. Í tómstundum sínum aflaði hann sér þekkingar á skordýrum og var hann einn fróðasti á því sviði hér á landi. Við bekkjarfélagar Jóhannesar höfum hist um árabil á tveggja vikna fresti. Þar voru rædd þjóðfélagsmál en umfram allt rifjuð upp skemmtileg atvik frá námsárunum, og alltaf glatt á hjalla. Það eru helst þær minningar sem koma í hug á þessum tímamótum, góðar minningar um einstakan mann, og þakklæti fyrir samveruna í gegnum tíðina. Fjölskyldu Jóhannesar vottum við okkar einlægu samúð.

Fyrir hönd bekkjarfélaga í ML,

Róbert Pétursson.