Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Á fjalli þennan finna má. Felling er hann segli á. Daufur sá í dálkinn ver. Við dýrategund kenndur er.

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Á fjalli þennan finna má.

Felling er hann segli á.

Daufur sá í dálkinn ver.

Við dýrategund kenndur er.

Helgi Þorláksson svarar:

Um hrygg á fjalli hópur fer,

hrygg í segli kenna má,

hryggur sá sem hnugginn er,

hryggdýr eru sterk og kná.

Knútur H. Ólafsson á þessa lausn:

Á fjallshrygginn slangra ég slappur í pínu.

Slétta hrygginn úr seglinu mínu.

Hryggur er sá er í hörmungum lendir.

Til hryggdýra orðið svo bendir.

„Þá er það lausnin,“ svarar Helgi R. Einarsson:

Hrygginn ég á fjalli finn.

Finnst á segli hryggurinn.

Hryggbrotinn æ hryggur er.

Hryggdýrið það víða fer.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:

Á Hlíðarfjalli hrygg má sjá.

Hryggur felling segli á.

Hryggur mjög er halur sá.

Hryggdýr síðan nefna má.

Þá er limran:

„Illa nú á mér liggur,

yður þjónað hef dyggur,“

kvað Vakri Skjóni,

skekinn af Jóni,

„minn hryggur er sár og hryggur.“

Og ný gáta eftir Guðmund:

Hver dagur er lengi að líða,

við leiða þarf margur að stríða,

í sóttkví þá gott er að glíma

við gátu og svarvísu ríma:

Skrautbúið skip fyrir landi.

Skýjafloti á randi.

Merki við sjáum í sandi.

Svo er það fas þitt og andi.

Páll skáldi orti:

Guði hjá ég mínum má

mæðu tjá af högum;

neiti hann þá um sína' ásjá

svo er ég frá með lögum.

Gömul vísa í lokin:

Þófaljóna þýðastur

þýtur um frónið harða;

er hann Skjóni auðþekktur

undir Jóni Skarða.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is