„Gisella Perl var manneskja, eins og aðrir sem voru þarna í haldi, og það hefur djúpstæð áhrif á mann að kynnast persónulegri reynslu hennar af vistinni og þessari martröð,“ segir Avraham Feldman, rabbíni gyðingasamfélagsins á Íslandi.
„Gisella Perl var manneskja, eins og aðrir sem voru þarna í haldi, og það hefur djúpstæð áhrif á mann að kynnast persónulegri reynslu hennar af vistinni og þessari martröð,“ segir Avraham Feldman, rabbíni gyðingasamfélagsins á Íslandi. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Avraham Feldman, rabbíni gyðingasamfélagsins á Íslandi, lýsir bók dr. Gisellu Perl, Ég var læknir í Auschwitz, sem glugga inn í hjarta fanganna sem þar dvöldust.

Avraham Feldman, rabbíni gyðingasamfélagsins á Íslandi, lýsir bók dr. Gisellu Perl, Ég var læknir í Auschwitz, sem glugga inn í hjarta fanganna sem þar dvöldust. Feldman, sem er fyrsti starfandi rabbíninn á Íslandi, segir að helförin megi ekki gleymast og sjaldan eða aldrei hafi verið mikilvægara að fræða fólk og upplýsa um hryllinginn sem þar átti sér stað. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Avraham Feldman, rabbíni gyðingasamfélagsins á Íslandi, býður okkur Kristni Magnússyni ljósmyndara glaðlega góðan daginn þegar við sækjum hann heim en skiptir að því búnu yfir í móðurmál sitt, enskuna, en hann er frá New York. „Ég hef átt mjög annríkt frá því ég flutti hingað en núna er ég loksins byrjaður að taka íslenskunámið föstum tökum og ætla mér að ná góðu valdi á tungumálinu ykkar,“ útskýrir Feldman um leið og hann vísar okkur til stofu. Biðst um leið afsökunar á fáeinum barnaleikföngum sem liggja á gólfinu en hann á fjórar ungar dætur ásamt eiginkonu sinni, Mushky; þá elstu fædda 2016. Það er svo sannarlega ekkert að afsaka, leikföngin ljá stofunni bara aukið líf og hlýju. „Já, hér er alla jafna líf og fjör á daginn, eins og þið getið ímyndað ykkur,“ segir Feldman brosandi en mæðgurnar eru að heiman meðan samtal okkar fer fram.

Tilefni heimsóknarinnar er útgáfa bókarinnar Ég var læknir í Auschwitz eftir Gisellu Perl í íslenskri þýðingu Ara Blöndal Eggertssonar. Útgefandi er Hringaná og Avraham Feldman rabbíni ritar formála. Dr. Gisella Perl var ungverskur gyðingur sem var ekki bara fangi heldur starfaði hún einnig sem læknir í alræmdustu útrýmingarbúðum nasista í seinni heimsstyrjöldinni. Eiginmaður hennar og sonur létust í haldi nasista en þeim hjónum tókst að leyna dóttur sinni hjá fólki sem ekki var gyðingar meðan á stríðinu stóð. Perl tók við fyrirmælum beint frá hinum alræmda dr. Josef Mengele og var látin stunda lækningar án allra nauðsynlegra tækja, lyfja og hreinlætis. Orð hennar, útsjónarsemi og manngæska björguðu lífi þúsunda kvenna, svo sem fram kemur á bókarkápu. Perl bjó síðar og starfaði í Bandaríkjunum en lést í Ísrael árið 1988, 81 árs að aldri.

Mannvonska og grimmd

Sjálfur hef ég lesið talsvert um helförina, Auschwitz og aðrar útrýmingarbúðir nasista, komið á söfn erlendis og séð leiknar kvikmyndir og heimildarmyndir um efnið en Ég var læknir í Auschwitz er með því átakanlegasta af því öllu; það er óhætt að fullyrða. Lýsingarnar á mannvonskunni og grimmdinni sem viðgekkst í búðunum eru yfirgengilegar og eins upplýsandi og grafískur og lesturinn er þá er hann um leið gríðarlega erfiður. Maður er sem lamaður að honum loknum. Það er engin leið að setja sig í aðstæður þessa fólks.

Perl skrifaði bókina skömmu eftir þessa hræðilegu lífsreynslu en hún kom fyrst út á ensku árið 1948.

„Þetta er mjög fræg bók,“ svarar Feldman, spurður hvort hann hafi þekkt til verksins áður. „Ég las hana fyrst fyrir mörgum árum en las hana aftur núna eftir að ég var beðinn að rita formálann við þessa þýðingu. Ég vildi hafa efnið ferskt í minninu. Það er alveg rétt hjá þér, þessi bók er mjög erfið aflestrar, en um leið ákaflega góð, mikilvæg og kraftmikil. Hér er helförinni og lífinu í Auschwitz lýst frá fyrstu hendi og við upplifum fórnarlömbin sem manneskjur en ekki sem tölfræði; sex milljónir gyðinga týndu lífi í útrýmingarbúðum nasista og þar fram eftir götunum. Við tengjum við fólkið sem hermt er af og grimmileg örlög þess. Gisella Perl var manneskja, eins og aðrir sem voru þarna í haldi, og það hefur djúpstæð áhrif á mann að kynnast persónulegri reynslu hennar af vistinni og þessari martröð. Ég var læknir í Auschwitz er gluggi inn í hjarta og huga fólks sem átti sínar vonir og drauma, alveg eins og við hin, en var svipt frelsinu og í mörgum tilvikum lífinu með þessum viðurstyggilega hætti.“

Feldman ber lof á Hringaná fyrir að ráðast í útgáfuna; ánægjulegt sé að bókin sé komin út á íslensku. „Það skiptir svo miklu máli að fræða fólk um helförina. Aldrei aftur! erum við vön að segja en til að koma í veg fyrir að nokkuð þessu líkt eigi sér aftur stað er grundvallaratriði að fólk viti hvað gerðist í helförinni og hvernig siðblinda og grimmd yfirtóku heilt samfélag. Hver einasti einstaklingur sem reyndi helförina á eigin skinni skiptir máli og á skilið virðingu okkar. Grimmdin og illskan eru ímyndunarafli okkar nánast framandi og þess vegna skipta bækur sem þessi svo miklu máli enda gerir hún mjög sannfærandi grein fyrir aðstæðum og hryllingnum sem aumingja fólkið mátti búa við.“

Mikilvægt að fræða fólk

76 ár eru nú liðin frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar og því meiri sem fjarlægðin verður þeim mun mikilvægara að halda fræðslunni áfram, að dómi Feldmans. „Þeim fækkar stöðugt sem upplifðu helförina enda langt um liðið og nú er það hlutverk okkar, næstu kynslóða, að halda þessari sögu að heiminum – annars er hætta á því að hún gleymist. Eins erfitt og það er þá þurfum við að minna okkur reglulega á helförina, að þessi hryllingur hafi í raun og veru átt sér stað, og fræða þá sem þekkja ekki eins vel til og við sjálf.“

Feldman hefur skilning á því að fólk í samtímanum eigi erfitt með að tengja við hrylling helfararinnar; ekki síst þegar skoðað er úr hverju hann er sprottinn. „Þýskaland var þróað samfélag á fjórða áratug seinustu aldar; leiðandi á sviði vísinda, menningar, lista og svo framvegis. Þarna réðu engir villimenn ríkjum; alltént litu þeir ekki þannig út. Eigi að síður voru þessir upplýstu menn þess umkomnir að fremja svona hræðilega glæpi. Hvernig má það vera? Það sýnir okkur, svo ekki verður um villst, að enginn er fullkominn og auðvelt er að verða hált á svellinu. Gleymum því heldur ekki að helförin átti sér ekki stað á einni nóttu; aðdragandinn var langur og strangur og það tók tíma að gera gyðinga að „djöflum“ og „ófreskjum“ með því að innleiða og viðhalda ákveðinni orðræðu sem sáði eitri meðal þýsku þjóðarinnar.“

Hann gerir stutt hlé á máli sínu.

„Við erum öll sköpuð jöfn og af sama guðinum. Enginn er öðrum æðri, allir hafa sama rétt í þessum heimi. Hinn frægi rabbíni Maimonides, sem var uppi á tólftu öld, sagði að hver og einn væri heill heimur, ekki bara einstaklingur, og þeir sem bjarga annarri manneskju bjarga um leið öllum heiminum og niðjum þeirra í framtíðinni. Þetta er góð speki að tileinka sér og fara eftir.“

Stefnt að árlegum viðburði

Svo merkilega vill til að við hittumst einmitt á sérstökum minningardegi um helförina á Íslandi en hann var fyrst haldinn á síðasta ári. Að deginum standa gyðingasamfélagið á Íslandi, pólska, þýska og bandaríska sendiráðið. „Við höfum öll unnið að þessu saman en því miður verðum við að láta okkur nægja að streyma frá athöfninni vegna kórónuveirufaraldursins. Við munum bæta okkur það upp á næsta ári en stefnt er að því að gera þennan dag að árlegum viðburði. Tilgangurinn er að deila upplýsingum og fræða.“

Sjálfur hefur Feldman ekki fundið fyrir andúð í garð gyðinga frá því hann flutti hingað fyrir þremur árum. „Íslendingar hafa tekið mér og fjölskyldu minni opnum örmum og við erum lánsöm að búa í svona opnu og fordómalausu samfélagi. Það verða alltaf til einhverjir bjánar og auðvitað hefur maður orðið var við fáein veggspjöld eða -krot þar sem örlar á gyðingahatri en aðalatriðið er hvernig brugðist er við slíku og lögreglan lítur þannig lagað greinilega alvarlegum augum, eins og samfélagið allt.“

Hann gleðst einnig yfir frumvarpi um bann við afneitun helfararinnar sem lagt var fram á Alþingi í byrjun þessa árs. „Hver sá sem opinberlega afneitar, gróflega gerir lítið úr, eða reynir að réttlæta eða samþykkja þjóðarmorð sem framin voru á vegum þýska nasistaflokksins í síðari heimsstyrjöldinni skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum,“ segir meðal annars í frumvarpinu.

„Ég fagna þessari viðleitni enda mikilvægt að kæfa tilraunir til að gera lítið úr helförinni strax í fæðingu; það á ekki að líðast að einstaklingar eða hópar nuddi sér utan í nasismann. Við verðum að læra af reynslunni,“ segir Feldman.

Afi hans var í Auschwitz

Sjálfur hefur hann beina tengingu við helförina en bæði afi hans og afabróðir lifðu af vistina í Auschwitz. Þeir voru frá litlum bæ í nágrenni Kraká. „Afi minn dó um miðjan sjöunda áratuginn, þannig að ég kynntist honum aldrei, en afabróður minn þekkti ég vel. Hann lést fyrir um áratug. Þeir tilheyrðu stórri fjölskyldu frá Póllandi og voru þeir einu úr henni sem lifðu helförina af. Afabróðir minn sagði okkur sögu sína og ég deildi henni einmitt á minningardeginum um helförina í fyrra. Hún er mögnuð en hann var í nokkrum útrýmingarbúðum og endaði í Auschwitz. Þetta er saga um grimm örlög en um leið þrautseigju og auðvitað upp að vissu marki heppni. Oftar en ekki réð kylfa kasti, hverjir fengu að lifa og hverjir voru myrtir. Það hefur heilmikla þýðingu fyrir mig að afi minn og afabróðir hafi verið í Auschwitz og gerir þessa atburði bara enn þá raunverulegri.“

Fyrir um áratug fór Feldman í heimsókn til Póllands og kom meðal annars í Auschwitz og fleiri útrýmingarbúðir – sem hafði að vonum djúpstæð áhrif á hann. „Litlu sem engu hefur verið breytt í Auschwitz sem gerir heimsóknina þangað gríðarlega erfiða. Það er í senn raunverulegt og óraunverulegt að koma þangað. Það skipti öllu máli fyrir mig að heimsækja búðirnar enda eru þær hluti af minni sögu. Núna er þetta ekki lengur kvikmynd eða bók fyrir mér – heldur blákaldur veruleiki. Ég hvet alla sem hafa tök á því til að heimsækja Auschwitz þegar heimsfaraldurinn er afstaðinn! Það dýpkar skilninginn á helförinni til muna.“

Sjálfur hef ég ekki komið til Auschwitz en tvö af börnunum mínum hafa gert það; fóru þangað þegar þau voru við nám í Verzlunarskóla Íslands á sínum tíma en liður í námskeiði um helförina var einmitt vettvangsleiðangur til Póllands – og er sjálfsagt enn. Feldman rekur upp stór augu þegar ég greini honum frá þessu. „Jahérna, það er lofsvert framtak hjá þessum skóla. Þarna fær fólk tækifæri til að kynnast þessu í návígi strax á unglingsaldri. Það er gríðarlega mikilvægt og hlýtur að móta sýn þeirra á þessa atburði um alla ævi.“

Mikill innblástur

Á ferðalagi sínu um Pólland hitti Feldman að máli fólk sem lifað hafði helförina af og segir ómetanlegt að hlusta á sögur frá fyrstu hendi. Hann hélt dagbók yfir heimsókn sína og minnist sérstaklega eins roskins manns, Samuels Willenbergs, sem tók þátt í uppreisninni frægu í Treblinka, sem voru aðrar stærstu útrýmingarbúðir nasista á eftir Auschwitz. „Fangarnir áttu ekki mikla möguleika og aðeins 67 þeirra lifðu af. Það var ótrúleg upplifun að hitta einn þeirra að máli, fá þetta beint í æð, ef svo má segja, og Samuel var mér mikill innblástur. Aðeins ári síðar barst mér sú sorgar-fregn að hann væri allur.“

Feldman kveðst nota hvert tækifæri sem gefst til að bjóða fram þjónustu sína, ekki síst á fundum með íslenskum ráðamönnum og áhrifafólki í samfélaginu. „Ég ligg aldrei á mínu liði; er reiðubúinn að fræða og upplýsa, sé þess óskað. Ekki bara um söguna og helförina, heldur bara gyðingdóminn almennt, enda er ég fyrsti rabbíninn sem hér starfar. Þessu hefur verið vel tekið og ég hef til dæmis heimsótt háskóla landsins og haldið fyrirlestra. Til þess er ég hingað kominn, til að fræða og eiga samtal við íslensku þjóðina. Alla sem hafa áhuga, gyðinga og aðra.“

Gyðingar á Íslandi eru ekki margir en fer fjölgandi. Feldman segir heimildir fyrir því að gyðingar hafi fyrst sest hér að á sautjándu öld en lítið gyðingasamfélag hafi tekið að byggjast upp um aldamótin 1900. Við það hafi svo smám saman bæst, ekki síst á síðustu árum, með auknum straumi innflytjenda frá Austur-Evrópu til landsins. „Viðmót íslenskra stjórnvalda skipti miklu máli þegar við hjónin komum hingað en þau eru boðin og búin að greiða götu gyðingdómsins og fyrr í þessum mánuði barst formleg viðurkenning á gyðingasamfélaginu hér. Það var sögulegt skref og nú þurfum við bara að fá okkur kennitölu.“

Allir eru velkomnir

– Veistu hversu margir gyðingar búa á Íslandi?

„Nei, ekki nákvæmlega, en ég er alltaf að hitta fleiri og fleiri. Ég myndi halda að þeir væru ekki færri en 500 og mögulega fleiri, allt að 700 til 800. Allir eru þeir velkomnir í gyðingasamfélagið, óháð því hvaðan þeir koma eða hversu vel þeir eru að sér um trúarbrögðin. Það er ekkert skilyrði að vera vel lesinn og trúrækinn. Við tökum vel á móti öllum.“

Hann segir þetta fólk koma víða að; sumir séu fæddir og uppaldir á Íslandi en aðrir hafi flust hingað frá Evrópu, Suður-Ameríku, Bandaríkjunum, Ísrael og víðar. „Sum eigum við kannski ekki mikið sameiginlegt og erum ekki sammála um allt en við sameinumst í trú okkar. Í því er fegurðin fólgin.“

– En hvers vegna komuð þið til Íslands, af öllum löndum?

„Það er nú það,“ segir Feldman og brosir. „Hefðirðu sagt mér fyrir átta árum að ég ætti eftir að setjast að á Íslandi hefði ég líklega hlegið að þér; á þeim tíma vissi ég minna en ekkert um landið. Þegar ég kynntist konunni minni árið 2014 jókst hins vegar áhugi minn mikið á Norðurlöndunum en hún er sænsk; fædd og uppalin í Gautaborg. Við höfum farið víða; bjuggum til dæmis um skeið í Berlín, þar sem við tókum þátt í háskólaprógrammi sem sett var á laggirnar til að skapa stúdentum ný og spennandi tækifæri. Við fundum að þetta átti vel við okkur og þess vegna vildum við koma á stað, þar sem við gætum skipt máli. Ísland svaraði því kalli en hér er ekkert samkomuhús og hér hafði aldrei starfað rabbíni. Við komum hingað fyrst í heimsókn í desember 2017 og féllum kylliflöt fyrir landi og þjóð. Þrátt fyrir myrkrið og kuldann sáum við strax hversu fallegt landið er; það er til dæmis ekkert mál að njóta náttúrunnar hérna í borginni. Síðan er fólkið bara svo elskulegt, gestrisið og afslappað. Við vorum ekki í vafa um að þetta væri rétti staðurinn fyrir okkur og fluttum hingað í maí 2018.“

Miðinn gilti aðra leiðina

Hafi hann ekki verið handviss fyrir um dýrð Íslands þá gerði eldgosið á Reykjanesi alltént útslagið en hann fór og skoðaði það á dögunum. „Þvílíkt og annað eins náttúruundur og það bara steinsnar frá höfuðborginni. Að koma þarna sló mig enn frekar; Ísland er afar sérstakur staður og við óskaplega lánsöm að búa hér.“

– Þannig að þið eruð sest hér að?

„Já, þetta er ekki tímabundið verkefni í okkar huga. Miðinn gilti bara aðra leiðina. Ísland er heimili okkar og verður áfram eins lengi og hér verður gyðingasamfélag og við höfum eitthvað fram að færa. Tvær yngri dætur okkar eru fæddar á Íslandi og þær sem eru farnar að tala hafa mun betra vald á íslenskunni en ég. Konan mín líka en hún hafði ákveðið forskot, þar sem móðurmál hennar er skylt íslensku. Þess utan er hún mikil tungumálamanneskja og talar mörg tungumál.“

Sjálfur talar hann hebresku og biblíulega hebresku, auk jiddísku, sem algeng er meðal gyðinga í Austur-Evrópu.

Meðan hann var að læra til rabbína var Feldman svo lánsamur að ferðast víða, svo sem til Suður-Ameríku, Evrópu og Ástralíu, og segir það eiga þátt í að móta lífssýn sína. „Því víðar sem ég kom sannfærðist ég betur um að ég ætlaði að helga líf mitt gyðingdómnum og þjónustu við hann.“

Ekki hitt fjölskylduna lengi

Feldman er borinn og barnfæddur í New York, Brooklyn nánar tiltekið, fyrir þá sem eru kunnugir staðháttum. Föðurafi hans var, sem fyrr segir, pólskur og föðuramman rússnesk. Hún er enn á lífi og býr í Ísrael. Móðurfólkið hans er „mjög bandarískt“, eins og hann orðar það, en kom upphaflega frá Rússlandi. „Það er langt síðan en bæði amma og afi fæddust í Bandaríkjunum.“

Faðir hans er rithöfundur sem fjallar mikið um gyðingdóminn í sínum skrifum og vann um tíma fyrir einn kunnasta rabbína og trúarleiðtoga gyðinga á tuttugustu öldinni, Menachem M. Schneerson.

Foreldrar hans hafa í þrígang heimsótt Feldman til Íslands, sem er vel af sér vikið í ljósi þess að hann hefur aðeins búið hér í þrjú ár og þar af hefur landið verið svo gott sem lokað í meira en heilt ár vegna heimsfaraldursins. „Það segir sig sjálft að þau eru mjög hrifin af Íslandi,“ segir Feldman brosandi.

Nú hefur hann þó ekki hitt þau í rúmt ár; skrapp í tvo daga til New York í febrúar í fyrra vegna fráfalls móðurömmu sinnar. „Örfáum dögum síðar lögðust öll ferðalög af. Það hefur verið ótrúlega gott að vera á Íslandi meðan á þessum ósköpum hefur staðið enda höfum við þrátt fyrir allt farið betur út úr faraldrinum en flestar aðrar þjóðir. Fyrir það skulum við vera þakklát. Nokkrir úr minni fjölskyldu hafa fengið kórónuveirusjúkdóminn, þeirra á meðal móðir mín, en sem betur fer hafa allir náð sér. Ég þekki samt fólk sem hefur látist og fólk sem hefur misst ástvini sína. En sem betur fer erum við farin að greina ljósið við enda ganganna með almennari bólusetningu og vonandi verður þess ekki langt að bíða að við getum notið lífsins til fulls á ný. Og mér segir svo hugur að hversdagslegustu hlutir, eins og við skilgreindum þá áður, eigi eftir að gleðja okkur sem aldrei fyrr.“

Mæltu manna heilastur, Feldman rabbíni. Mæltu manna heilastur.

Koman til Auschwitz

Við ferðuðumst í átta sólarhringa, daga og nætur, í átt að óþekktum áfangastað. Lögregluþjónninn sem fylgdi okkur að landamærunum talaði um stórt, almennt gettó þar sem við yrðum látin vinna. En þegar við sáum í gegnum rimlana á læstum vagninum okkar að SS (Stormsveitirnar) tók við lestinni við landamærin vissum við að við ættum enga von. Frá þeirri stundu fengum við engan mat og ekkert vatn. Litlu börnin grétu af hungri og kulda og gamla fólkið veinaði á hjálp, sumir brjáluðust, börn fæddust á skítugu gólfinu, einhverjir dóu og lík þeirra héldu áfram ferð sinni með okkur... Öðru hverju komu fangarar okkar inn í vagninn í endurtekinni leit að verðmætum eða bara til að berja okkur og þagga niður í raunalegum röddum með hrottalegum hótunum.

Svo komum við á áfangastað. Við störðum veiklulegum augum á nafn staðarins: AUSCHWITZ. Þegar SS-verðirnir opnuðu dyrnar á vagninum og skipuðu okkur út hljóp ég til foreldra minna, faðmaði þau og bað þau að fyrirgefa mér ef ég hefði einhvern tíma sært þau hjartasári. „Þú varst alltaf besta barn sem nokkrir foreldar geta eignast,“ hughreystu þau mig. Systur mínar og bræður föðmuðu mig þegjandi. Eiginmaður minn dró mig að sér. „Farðu vel með þig...“ hvíslaði hann. „Farðu vel með heita, veglynda hjartað þitt...“ Sonur minn bara horfði á mig með stóru, bláu augunum. „Mamma...“ sögðu augun. „Mamma...“

Enginn þeirra sem komust lifandi úr þýskum útrýmingarbúðum mun nokkru sinni gleyma þeirri mynd sem tók á móti okkur í Auschwitz. Svartur reykurinn frá líkbrennsluofnunum hékk yfir búðunum eins og stór, svört ský. Hvassar, rauðar eldtungur sleiktu himininn og klígjuvaldandi fnykur af brennandi holdi fyllti loftið. Flokkur SS-manna með byssur, svipur og kylfur í höndum sá um að flokka okkur í sundur. Menn frá konum sínum, foreldra frá börnum sínum, gamla frá ungum. Þeir sem streittust á móti voru barðir, í þá sparkað og dregnir í burt. Eftir nokkrar mínútur stóðum við í aðskildum hópum, næstum meðvitundarlaus af sársauka, ofþreytu og óbærilegu áfallinu við að missa ástvini okkar.

Nú tók læknir búðanna, ásamt litlum hópi SS-liða, við stjórn þessa helvíska leiks. Með því að veifa hendi sendi hann sum okkar til vinstri, önnur til hægri. Eftir smástund rann upp fyrir mér hvað þetta þýddi. Af hverri lestarfylli af föngum, tíu til tólf þúsund í einu, valdi hann úr um þrjú þúsund íbúa í búðirnar sínar. Með hina, þá sem fóru „til vinstri“, var farið í líkbrennsluna til móts við hræðilegan dauðdaga í brennandi logunum sem aldrei slokknuðu. Þeim var troðið inn í trukka merkta Rauða krossinum, til undarlegrar háðungar mannlegri reisn, og ekið á brott. Allt sem við sáum af þeim síðar voru fötin þeirra í geymslum fangabúðanna.

Seinna átti ég eftir að komast að öllu um þetta skepnulega framferði. Farið var með fólkið í lítil timburhús, það látið afklæðast og því fengið lítið sápustykki og handklæði og sagt að standa undir sturtunni. Fólkið tvísté af eftirvæntingu og þráði þessa örfáu vatnsdropa til að geta þrifið skítuga, örmagna líkama sína eftir langa ferðadaga og að geta vætt uppþornuð, brennandi kok. En í stað vatns kom þungt, kæfandi gas út um stútana. Innan sjö eða átta mínútna voru sumir kafnaðir, aðrir misstu bara meðvitund og var hent í lifandi í logana. Öskrin, kokhljóðin og kæfingarhljóðin sem hljómuðu frá þessum timburhúsum munu ávallt óma í eyrum mínum.

Litlu börnin, ljóshærð eða dökkhærð, sem komu alls staðar að úr Evrópu, fóru ekki með mæðrum sínum í gasklefana. Farið var með þau burt, grátandi og öskrandi með örvæntingu í augunum, þau voru afklædd, hent ofan í opnar grafir, eldfimum vökva hellt yfir þau og þau brennd lifandi. Hundruð þúsunda lítilla barna, falleg sem ófríð, rík sem fátæk, prúð sem óþekk, heilbrigð sem sjúk, bláeyg, pólsk börn, dökkhærðir, litlir Ungverjar, kringluleit, hollensk smábörn, litlir, alvörugefnir, franskir drengir sem stúlkur, öll dóu þau til að fullnægja sadískum hvötum þessara óberma.

Við sem fyrir einskæra heppni vorum sendar „til hægri“ mynduðum röð og vorum reknar í átt að búðunum. Vegkanturinn var varðaður rotnandi líkum til að sýna okkur örlög þeirra sem reyndu að flýja úr röðinni. Við komum að stórri timburbyggingu og var sagt að fara inn.

En allt í einu sundraðist röðin, óbærileg spenna braust út og hryllingurinn, sársaukinn, sorgin og einmanaleikinn breyttu konunum í öskrandi, örvæntingarfullar og móðursjúkar verur. Þær neituðu að fara inn í húsið sem var með áletrunina Sótthreinsun ámálaða með stórum stöfum. Í kjölfarið klufu byssukúlur loftið, svipur smullu og kylfur skullu með kæfandi hljóðum og skildu eftir brotin bein og opnar höfuðkúpur – en ringulreiðin rénaði ekki.

„Hvar er læknirinn?“ æpti einn af SS-mönnunum. Ég gaf mig fram. Hann lét mig standa uppi á borði og ég fékk mína fyrstu skipun í fangabúðalífi mínu.

„Segðu þessum skepnum að halda kjafti eða ég læt skjóta þær allar!“

„Hlustið á mig...“ hrópaði ég á þær. „Ekki óttast! Þetta er bara sótthreinsunarmiðstöð, það kemur ekkert fyrir ykkur hér. Síðan verðum við látnar vinna, við verðum allar saman, vinkonur, systur með sömu örlög. Ég er læknirinn ykkar... Ég verð með ykkur alltaf, ég mun annast ykkur, vernda ykkur... Vinsamlegast róið ykkur niður.“

Orð mín höfðu tilætluð áhrif. Konurnar trúðu mér, þær þögnuðu og fóru inn í húsið ein af annarri. Undir stjórn SS-manna og -kvenna sáu aðrir fangar um sótthreinsunina. Við vorum afklæddar þarna fyrir framan hlæjandi SS-verði sem létu í ljós aðdáun sína á fallegum líkömum með því að slá þá með svipum sínum. Allt, sem hefði getað minnt okkur á líf okkar fram að þessu, var tekið frá okkur.

Þegar við komum út úr húsinu þekktum við hver aðra ekki lengur. Í stað örþreyttu, píndu kvennanna sem þó áttu snefil eftir af sjálfsvirðingu þegar við gengum inn um dyrnar vorum við orðnar að hryggilegum hópi grátandi trúða, sorglegri skrúðgöngu, marserandi til síðustu hátíðarinnar: dauðans...

Mér var farið að standa á sama. Eftir hughreystandi ræðu mína yfir móðursjúku konunum gleypti ég þessi fjörutíu sentigrömm af morfíni sem ég hafði falið í örsmáu glasi. Ég fann til kaldhæðins yfirlætis þegar ég rétti höfuð mitt að skærunum og ég brosti undir ískaldri sturtunni... Ég sveif sem á vængjum, vegna áhrifa morfínsins, inn um dyr Auschwitz í þeirri vissu að ég væri á leið til æðstu alsælu óminnisins.

Úr bókinni Ég var læknir í Auschwitz eftir Gisellu Perl. Ari Blöndal Eggertsson þýddi.