Hver væri ekki til í að skella sér til Kaupmannahafnar í vor? Passið bara að vegabréfið sé gilt!
Hver væri ekki til í að skella sér til Kaupmannahafnar í vor? Passið bara að vegabréfið sé gilt! — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er ekki alltaf tekið út með sældinni að ferðast til útlanda, eins og Íslendingur nokkur komst að raun um þegar hann vann ferð til Kaupmannahafnar í happdrætti árið 1951. Ágætt er að rifja sögu hans upp nú á tímum ferðatakmarkana. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Sy nd væri að segja að loftbrú hafi verið milli Íslands og helstu ferðamannastaða þessa heims undanfarið ár en faraldur kórónuveirunnar hefur tekið utanlandsferðir af okkur flestum, eins og svo margt annað. Sjálfsagt eru margir orðnir langeygir eftir næstu ferð en hafa ber þó í huga að utanlandsferðir eru ekki alltaf dans á rósum, eins og Íslendingur nokkur fékk að reyna fyrir réttum sjötíu árum. Hermt var af hremmingum hans í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni: Maðurinn, sem vann í happdrættinu.

Frásögn blaðsins hófst á þessum orðum en það var enginn annar en Víkverji sálugi sem hélt um penna í þættinum Úr daglega lífinu:

„Þeir, sem öfunda þá lukkunnar pamfilusa, sem unnið hafa utanlandsferð í happdrætti, hefðu átt að líta framan í dauðþreyttan og heldur lágkúrulegan heppnismann, sem vann ferð fram og til baka til Kaupmannahafnar í happdrætti fyrir skömmu.“

Þá tók hinn „lágkúrulegi heppnismaður“ sjálfur til máls: „Jeg held, að ef jeg hefði vitað hvað beið mín, þá hefði jeg ekki tekið við vinningnum,“ sagði hann er hann drattaðist upp í flugvélina einn morguninn. „Önnur eins hlaup hefi jeg aldrei vitað fyrir það eitt, að hafa unnið í happdrætti.“

Og svo kom sagan á meðan verið var að hita upp vélina.

Stráheilt en ónýtt vegabrjef

Fyrst var að útvega sér nokkurra króna virði í gjaldeyri, fyrir dvölinni milli ferða, því minna en viku gat karlanginn varla verið úr því farið var á annað borð. Við erfiðleikum í sambandi við það hafði hann búist og þeir létu heldur ekki standa á sér. En látum það vera.

„Þá var það vegabrjefið. Fyrir nokkrum árum fór jeg túr á togara til Englands og fjekk mjer þá vegabrjef – passa. – Það plagg var ekki gefið, frekar en annað ef mig minnir rjett. En nú fjekk jeg að vita, að það væri orðið ónýtt.“

Ekki var það vegna þess, að illa hefði verið farið með bókina, að hún var talin einskis virði. Ljósmyndin var í besta lagi, skýr og ómáð með öllu. Einn eða tveir stimplar voru á einni blaðsíðu af einum 16, sem ætlaðar eru fyrir svoleiðis. „Þessi vegabrjefsbók hefði dugað mjer þótt jeg yrði níræður, ef vel hefði verið með hana farið,“ sagði ferðalangur.

En það var ekki til neins að deila um það, bókin var ónýt – of gömul og ef okkar maður ætlaði út fyrir landsteinana, þá varð hann að kaupa nýja vegabréfsbók og leggjast undir nýjar mælingar, ákvörðun á augnalit, leit að fæðingarblettum á skrokknum eða gömlum örum – og svo náttúrlega að borga, því ekki var hægt að fá neitt fyrir hina bókina, þótt ekki sæist á henni blettur.

Tortryggni yfirvaldanna

Ekki nóg með það. „Þeir hafa víst haldið mig einhvern óþokka, þeir dánumenn, sem fylgjast með ferðalögum íslenskra þegna úr landinu,“ hélt sögumaður áfram. „Sennilega búist við að jeg myndi hlaupa frá konu og krökkum, húsræflinum og bílskrjóðnum, því þeir heimtuðu að jeg borgaði alla mína skatta til ríkis og bæjar út í hönd, áður en jeg færi af landinu. – Þeir vildu ekki eiga neitt á hættu með svona kóna, sem vinna ferð fram og til baka til Kaupmannahafnar í happdrætti. Síðan varð jeg að hlaupa milli bæjarskrifstofu, og tollskrifstofunnar og þaðan á lögreglustöðina. Hjer er jeg eins og þú sjerð – og hvílík sjón.“

Þannig var saga þessa lánsmanns, sem vann ferðalag til útlanda í happdrætti árið 1951. „Hún er sögð hjer,“ sagði Víkverji, „ekki til að vara menn við að vinna stóra vinninga í happdrætti, heldur til að benda þeim á, sem eru í þann veginn að leggja út í buskann, að það getur verið fyrir-hafnarminnst að horfa til baka og komast að sömu niðurstöðu og Gunnar forðum, að fögur sje hlíðin, því allir Íslendingar sem fara utan þurfa að ganga í gegnum sömu eldskírnina og sá, sem vann í happdrættinu.“

Óþarflega stór vegabréf

Til skýringar á því, sem sagt er í sögunni um vegabréfin, sem verða ónýt þótt þau séu heil, lét Víkverji þess getið, að einu sinni voru gefin út vegabréf til fimm ára, en nú yfirleitt ekki nema til þriggja. „Það þýðir, að þeir menn, sem fara á þriggja ára fresti, eða lengri til útlanda, þurfa að fá sjer ný vegabrjef í hvert sinn. Engum hefur dottið í hug sú sjálfsagða sparnaðarráðstöfun, að nóg væri að framlengja passana með einfaldri uppáskrift.“

Nei, það væri alltof einfalt.