Kristianstad Sveindís Jane Jónsdóttir byrjar mótið undir talsverðri pressu því Svíar búast við miklu af henni á fyrsta tímabilinu í atvinnumennsku.
Kristianstad Sveindís Jane Jónsdóttir byrjar mótið undir talsverðri pressu því Svíar búast við miklu af henni á fyrsta tímabilinu í atvinnumennsku. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Svíþjóð Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Tíu íslenskar knattspyrnukonur leika í sænsku úrvalsdeildinni um þessar mundir en þar hefst keppnistímabilið í dag.

Svíþjóð

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Tíu íslenskar knattspyrnukonur leika í sænsku úrvalsdeildinni um þessar mundir en þar hefst keppnistímabilið í dag. Með þessu er mesti fjöldi íslenskra leikmanna í deildinni jafnaður en árið 2012 léku einnig tíu Íslendingar í deildinni.

Hafa ber í huga að metið getur fallið síðar á tímabilinu ef fleiri íslenskir leikmenn bætast í hópinn í „sumarglugganum“.

Eflaust á þátttaka Íslands í lokakeppni EM á Englandi á næsta ári sinn þátt í þessari fjölgun en þetta sama gerðist þegar Ísland lék í fyrsta skipti á EM í Finnlandi árið 2009. Þá fjölgaði leikmönnum í sænsku deildinni mjög og níu íslenskar landsliðskonur spiluðu það ár með sænskum liðum.

Næsti toppur kom 2012 eins og áður var getið, árið fyrir lokakeppni EM í Svíþjóð þar sem Ísland komst í átta liða úrslit.

Nú hefur íslenskum leikmönnum í deildinni fjölgað um helming á milli ára, úr fimm í tíu. Sex munu leika í fyrsta sinn í deildinni og koma þær allar frá íslenskum liðum, og þá verður Sif Atladóttir með Kristianstad á ný en hún var í barneignarfríi á síðasta ári.

13 og 11 hjá Elísabet og Sif

Þetta er ellefta tímabil Sifjar í röðum Kristianstad en hún slær þó ekki þjálfaranum við því Elísabet Gunnarsdóttir er að hefja sitt þrettánda tímabil sem þjálfari liðsins.

Kristianstad náði sínum besta árangri frá upphafi í fyrra, hafnaði í þriðja sæti og leikur fyrir vikið í 1. umferð Meistaradeildarinnar í fyrsta skipti síðsumars. Elísabet var valin þjálfari ársins í deildinni í lok síðasta tímabils en uppbygging hennar á liðinu hefur vakið verðskuldaða athygli og viðurkenningu í Svíþjóð.

Kristianstad fékk Sveindísi Jane Jónsdóttur frá Keflavík, auk þess að Sif er komin aftur í hópinn með alla sína reynslu. Mikið er fjallað um Sveindísi í Svíþjóð í aðdraganda mótsins og flestir fjölmiðlar spá því að hún setji virkilega mark sitt á liðið og deildina. Þessi 19 ára gamla stúlka byrjar því atvinnuferilinn undir talsverðri pressu.

Kristianstad missti Svövu Rós Guðmundsdóttur til Bordeaux en hún hefur verið drjúg í sóknarleik liðsins undanfarin tvö ár. Liðinu er spáð toppbaráttu og svipuðu sæti og á síðasta tímabili.

Missir ekki af mínútu

Glódís Perla Viggósdóttir hefur leikið hverja einustu mínútu með Rosengård í deildinni síðan hún kom til liðsins sumarið 2017 og hefur fest sig í sessi sem einn af bestu varnarmönnum deildarinnar. Glódís hefur unnið meistaratitilinn einu sinni og sænska bikarinn einu sinni með Málmeyjarliðinu sem verður í baráttu um titilinn í ár ásamt því að spila eins og alltaf í Meistaradeildinni. Þar féll liðið út í átta liða úrslitum á dögunum gegn Bayern München.

Ótrúleg staða hjá Häcken

Þó Rosengård þyki ávallt sigurstranglegt eru sumir sem spá því að Häcken, sem lék í D-deildinni í fyrra, verði sænskur meistari í ár. Félagið tók yfir keppnisleyfi meistaraliðsins Kopparbergs/Gautaborg í desember og er í fyrsta sinn með lið í efstu deild. Häcken fékk marga leikmenn meistaraliðsins í arf, enda þótt sumar hafi horfið á braut, og hefur verið öflugt í vorleikjunum. Diljá Ýr Zomers kom til liðs við Häcken frá Val eftir áramótin og stígur sín fyrstu skref í atvinnumennsku með liðinu.

Þá mun Häcken taka sæti Kopparbergs/Gautaborgar í Meistaradeild Evrópu og hefur þar keppni í 2. umferð, eins og Rosengård. Ótrúleg staða hjá félagi sem var í lok síðasta tímabils með allt önnur og lágstemmdari markmið fyrir árið 2021.

Fimm íslensk í fallbaráttunni?

Reiknað er með því að hin fimm Íslendingaliðin í deildinni raði sér í fimm neðstu sætin og berjist því fyrir lífi sínu á komandi keppnistímabili. Aðeins eitt lið fellur þó í ár vegna fjölgunar liða fyrir 2022.

Växjö, sem er talið líklegast þeirra til að halda velli, endaði í sjötta sæti í fyrra og fékk til sín Akureyringinn Andreu Mist Pálsdóttur í vetur en hún lék með FH á síðasta tímabili og kynntist aðeins atvinnumennsku á Ítalíu síðasta vetur. Það var þó stutt stopp hjá Andreu vegna útbreiðslu kórónuveirunnar á Ítalíu.

Örebro, sem endaði í sjöunda sæti í fyrra, er komið með tvo íslenska leikmenn. Berglind Rós Ágústsdóttir , fyrirliði Fylkis síðustu árin, er komin til félagsins, sem og landsliðsmarkvörðurinn ungi og efnilegi Cecilía Rán Rúnarsdóttir , sem einnig kemur frá Árbæjarliðinu.

Piteå varð mjög óvænt sænskur meistari árið 2018 en hefur síðan gefið eftir og endaði í áttunda sæti í fyrra. Liðinu er spáð erfiðri fallbaráttu í ár. Landsliðskonan unga Hlín Eiríksdóttir er komin til Piteå frá Val og gæti sett mark sitt á sóknarleik liðsins.

Djurgården hefur haldið sér naumlega í deildinni undanfarin ár og margir spá Stokkhólmsliðinu falli að þessu sinni. Miðvörðurinn Guðrún Arnardóttir leikur sitt þriðja tímabil með liðinu en markvörðurinn Guðbjörg Gunnarsdóttir fór hinsvegar til Arna-Björnar í Noregi í vetur.

Óvænt ef AIK heldur velli

AIK frá Stokkhólmi er nýliði í deildinni eftir að hafa unnið B-deildina á síðasta ári. Liðið er ungt og reynslulítið og Hallbera Guðný Gísladóttir var fengin frá Val til að styrkja það í baráttunni. Hún hefur áður leikið þrjú tímabil í þessari deild með Piteå og Djurgården. Ef Hallbera og samherjar hennar halda sæti sínu mun það koma verulega á óvart.

Linköping, Vittsjö, Eskilstuna og nýliðar Hammarby eru þau fjögur lið sem ekki eru með íslenska leikmenn í sínum röðum. Þeim er öllum spáð lygnum sjó um miðja deild. Anna Rakel Pétursdóttir lék með Linköping 2019 en féll síðan með nýliðum Uppsala á síðasta ár og er komin í raðir Vals.

* Erla Steina Arnardóttir , sem lék lengi með Kristianstad, er leikjahæst íslenskra kvenna í sænsku úrvalsdeildinni með 171 landsleik.

* Sif Atladóttir kemur næst með 163 leiki og getur því slegið met Erlu í ár. Guðbjörg Gunnarsdóttir er með 152 leiki og Glódís Perla Viggósdóttir er fjórða með 130 leiki.

* Margrét Lára Viðarsdóttir er markahæst Íslendinga í deildinni með 51 mark en Ásthildur Helgadóttir skoraði 46 mörk og Sara Björk Gunnarsdóttir 34.