„Það var mikið um að vera við einn aðalinnganginn í stórhýsi utanríkisráðuneytisins um hálf fjögur leytið í dag. – Kennedy forseti hafði boðað til blaðamannafundar kl. 4 og fréttamenn blaða, útvarps- og sjónvarpsstöðva drifu að.“
Þannig komst heimildarmaður Morgunblaðsins í Washington, Haraldur J. Hamar, að orði í blaðinu 18. apríl 1961.
„Slíkir dagar eru alltaf stórir hjá fréttamönnum hér í borg, sérstaklega upp á síðkastið, eftir að Kennedy tók við forsetaembættinu. Það orð fór af Eisenhower, að fundir hans með blaðamönnum hefðu stundum verið leiðinlegir. Kennedy hefur hins vegar haft lag á því að gera fundina mjög spennandi,“ sagði Haraldur.
Hann hermdi af fundinum í ítarlegu máli og hafði þetta um framgöngu forsetans að segja: „Það var furðulegt að sjá og heyra hversu fljótt og vel forsetinn svaraði oft spurningunum. Hann hikaði aldrei, allan tímann. Hann var mjög fljótmæltur, sagði margt með fáum orðum. Og jafnvel þegar spurt var um atburði, sem gerzt höfðu fyrir fáeinum klukkustundum – þá svaraði hann eins og hann hefði æft sig á svarinu í hálfan mánuð.
Kennedy var alvarlegur á svip allan tímann, honum stökk ekki bros á vör enda þótt sum svara hans vektu kátínu og hlátur meðal áheyrenda. Hann fitlaði stöku sinnum við jakkahnappana, stóð annars hreyfingarlaus þær 30 mínútur, sem fundurinn stóð.“