Starf Haldnir voru 512 viðburðir í Hörpu 2020 en 1.303 árið 2019.
Starf Haldnir voru 512 viðburðir í Hörpu 2020 en 1.303 árið 2019. — Morgunblaðið/Hari
Tæplega 200 milljóna króna tap varð af rekstri samstæðu Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf. á árinu 2020. Í tilkynningu segir að tapið sé rakið til víðtækra áhrifa sem kórónuveirufaraldurinn hafði á reksturinn, m.a.

Tæplega 200 milljóna króna tap varð af rekstri samstæðu Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf. á árinu 2020.

Í tilkynningu segir að tapið sé rakið til víðtækra áhrifa sem kórónuveirufaraldurinn hafði á reksturinn, m.a. með langvarandi lokunum og tekjufalli.

Tekjur Hörpu lækkuðu um 56% milli ára og námu 537 milljónum króna samanborið við tæpar 1.210 milljónir árið 2019. Rekstrarframlag frá eigendum; íslenska ríkinu og Reykjavíkurborg, nam í upphafi árs 450 milljónum króna auk viðbótarframlags vegna áðurnefndra áhrifa sem var 278 milljónir, samkvæmt tilkynningunni. Alls námu því tekjur samstæðunnar 1.245 milljónum króna sem er 414,6 milljóna króna lækkun frá fyrra ári. „Gripið var til afgerandi aðgerða til að mæta þessari stöðu og mikill árangur hefur náðst varðandi lækkun á rekstrarkostnaði sem lækkaði um tæp 30% eða um 473 milljónir króna. Eigið fé nam 10.975,9 milljónum í árslok 2020,“ segir í tilkynningunni.

Stóðu sig vel

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, formaður stjórnar Hörpu, segir í tilkynningunni að niðurstaðan beri þess glöggt merki að stjórnendur og starfsmenn Hörpu hafi staðið sig vel í krefjandi aðstæðum síðustu misseri þegar algjör forsendubrestur varð í rekstrinum. „Beita þurfti öllum leiðum til að lækka kostnað samhliða því sem ný tækni og nýjar áherslur voru innleiddar í viðburðahaldi. Það hefur sömuleiðis verið ánægjulegt að finna fyrir miklum stuðningi og skilningi eigenda hússins á þessum erfiðu tímum,“ segir Ingibjörg.