Baksvið
Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Síðasta vetrardag, miðvikudaginn 21. apríl, verður þess minnst með ýmsu móti að slétt hálf öld er frá því Íslendingar fengu fyrstu íslensku handritin afhent frá Dönum. Svo skemmtilega vill til að 21. apríl árið 1971 bar einnig upp á síðasta vetrardag. Þessi tímamót urðu í kjölfar áralangra umleitana af hálfu Íslendinga, en lausn handritamálsins hafi að margra mati verið lokaáfangi sjálfstæðisbaráttunnar. „Handritin og fornsögurnar eru menningararfur Íslendinga og lögðu Íslendingar ríka áherslu á að fá handritin heim eftir lýðveldistöku. Lausn handritamálsins var stórmerkileg í alþjóðlegu tilliti,“ segir Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í Íslenskum fræðum við Háskóla Íslands.
Hátíð fyrir börnin og hús í byggingu
Klukkan 10 að morgni 21. apríl verður efnt til hátíðar fyrir grunnskólabörn, með sérstakri skírskotun til Konungsbókar eddukvæða og e ddukvæðanna , og verður dagskránni frá Hörpu streymt beint í alla skóla landsins og einnig á RÚV . Síðar sama dag verður lagður hornsteinn að Húsi íslenskunnar við Suðurgötu í Reykjavík, sem fullgert verður árið 2023. Í húsinu verður sett upp nútímaleg handritasýning, auk starfsemi Árnastofnunar og íslenskudeildar Háskóla Íslands. Sama dag kemur einnig út sagan Bál tímans eftir Arndísi Þórarinsdóttur, sem segir spennandi sögu Möðruvallabókar og er ætluð lesendum á öllum aldri.Þótt Ísland hafi orðið frjálst og fullvalda ríki 1. desember 1918 og lýðveldi verið stofnað 17. júní 1944 litu margir svo á að sjálfstæði lands og þjóðar væri ekki að fullu endurheimt nema með afhendingu handritanna sem geymdu menningararf þjóðarinnar. Farið var með handritin úr landi á 17. öld í safn Danakonungs og raunar einnig til Svíakonungs, en síðan hóf Árni Magnússon (1663-1730) skipulega söfnun handrita um allt land og flutti handritin til Kaupmannahafnar þar sem hann bjó og starfaði. Markmiðið var að rannsaka efni handritanna og gefa þau út og miðla. Árni ánafnaði Kaupmannahafnarháskóla handritasafn sitt við andlát sitt og og því litu Danir á handritin sem sína eign rétt eins og Íslendingar gerðu líka.
Íslendingar tóku formlega upp kröfuna við lýðveldistöku og náðist loks samkomulag við Dani árið 1961 um afhendingu um helmings handrita úr safni Árna Magnússonar og um 140 handrita úr Konungsbókhlöðu. Áfram var þó deilt um málið, meðal annars á hinum pólitíska vettvangi í Danmörku og í tvígang fyrir dómstólum. Endanleg niðurstaða fyrir dómstólum fékkst loks í marsmánuði 1971 og strax í mánuðinum þar á eftir komu fyrstu tvö handritin til Íslands; Konungsbók eddukvæða og Flateyjarbók, rit sem höfðu verið varðveitt í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn frá seinni hluta sautjándu aldar.
„Mér finnst áhugavert að bera saman baráttu Íslendinga á áratugunum eftir lýðveldistöku, svo að segja samtímis, fyrir endurheimt handritanna og svo fyrir fullum yfirráðum yfir fiskimiðunum umhverfis landið. Í báðum málum liggja auðlindir okkar til grundvallar og ákvörðunarréttur okkar yfir þeim. Bæði málin leystust síðan upp úr 1970,“ segir Guðrún.
Þúsundir handrita og fornbréfa varðveittar á Íslandi
Fræg urðu og eru orð Helge Larsen menntamálaráðherra Dana sem hinn sögulega vordag 1971 afhenti Gylfa Þ. Gíslasyni, íslenskum starfsbróður sínum, handritin og sagði: „ Vær så god, Flatøbogen .“ Komið var með fleiri handrit á næstu árum en gengið var frá lokasamningum vegna málsins árið 1986. Síðasta sending handrita kom svo til Íslands ellefu árum síðar. Í vörslu Árnastofnunar í Reykjavík eru nú alls 1.666 handrit og um 7.360 fornbréf úr Árnasafni auk 141 handrits úr Konungsbókhlöðu. Handrit sem hingað komu þurftu að vera skrifuð á Íslandi og fjalla um íslensk málefni. Í Kaupmannahöfn urðu eftir um 1.350 handrit í Árnasafni, þar af eru 700 íslensk, auk fjölda handrita í Konungsbókhlöðu. Einnig má finna íslensk handrit í Svíþjóð, Bretlandi, Bandaríkjunum og víðar.Minni heimsins eru hluti af daglegu lífi fólksins í landinu
Handritin sem Íslendingar fengu eru í eldtraustum járnklefa í Árnagarði við Suðurgötu í Reykjavík. Á bak við þykkar dyr eru háar hillur og kjörgripir í hverri þeirra. Í Árnastofnun vinna svo fræðimenn að margvíslegum rannsóknum á fornum textum, sem sumir eru til í mörgum handritum. Stöðugt er unnið að nýjum útgáfum sagna og kveðskapar, og eftir þessu efni eru gerðar kvikmyndir, tölvuleikir og annað stafrænt efni. „Við finnum fyrir miklum áhuga á handritunum og efni þeirra. Hingað í Árnastofnun koma kvikmyndgerðarmenn víðsvegar að úr heiminum til að mynda handritin vegna kvikmyndagerðar og sjónvarpsþátta. Stöðugt er unnið að nýjum þýðingum Íslendingasagna á erlend tungumál, sem er grundvöllur miðlunar á menningararfinum til annarra þjóða,“ segir Guðrún Nordal og bætir við:„Skírskotað var sérstaklega til þessa öfluga þýðingastarfs þegar safn Árna Magnússonar á Íslandi og í Danmörku var sett á lista UNESCO yfir Minni heimsins, eða Memory of the world , sem geymir skráðan menningararf. Þá er þessi arfur hluti af daglegu lífi fólksins í landinu, eins og við finnum svo vel. Þannig líður tæpast sá dagur að ekki berist símtöl eða bréf frá almenningi, fólk sem reifar og ræðir efni sagna eða kvæða, hefur meiningar um efnið, kemur með tilgátur og hefur skýringar á ýmsum álitaefnum.“
Hugsað til framtíðar
Handrit í hálfa öld – hver er staðan nú? Því svarar Guðrún Nordal: „Á þessum tímamótum höfum við lagt áherslu á að hugsa til framtíðar og að kynna handritin fyrir yngri kynslóðinni. Við höfum lengi kappkostað að kynna handritin, efni þeirra og sjálfa bókagerðina, fyrir skólafólki og haft safnkennara í fullu starfi í 25 ár sem hefur unnið algjört brautyðjandastarf. En okkur langaði að nota þessi stóru tímamót til að gera enn meira. Verkefnið Handritin til barnanna, sem stofnunin hefur haldið úti allt síðasta ár og var styrkt sérstaklega af Barnamenningarsjóði, tengist þeirri stefnu.“Hátíðin í Hörpu nk. miðvikudag verður hápunkturinn á þessu sérstaka kynningarátaki og segir Guðrún Nordal ánægjulegt að skólabörn um allt land geti notið hennar samtímis. Sama dag verða kynnt verkefni sem hljóta viðurkenningu í handritasamkeppni sem efnt var til meðal grunnskólabarna.
Sameina krafta og efla miðlunarstarf
„Við höfum fengið jákvæð viðbrögð við þessu átaki, og finnum hve mikilvægt er að ná til skólabarna. Því er við hæfi að hornsteinn að Húsi íslenskunnar verði einmitt lagður á þessu degi því einmitt þar verður hægt að sameina krafta og efla miðlunarstarfið og taka vel á móti öllum þeim sem vilja koma og kynnast þeirri ótrúlegu auðlegð sem býr í handritunum og auðvitað öðrum söfnum sem Árnastofnun geymir,“ segir Guðrún. sbs@mbl.is