Viðbrögð formanns VR við niðurstöðu Seðlabankans eru mikil vonbrigði

Formaður VR brást illa við niðurstöðu athugunar fjármálaeftirlits Seðlabankans á stjórnarháttum hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Formaðurinn segist ekki vita hvað fjármálaeftirlit Seðlabankans sé að fara og segir að auki, sem er enn verra, að athugasemdir þess hafi „enga þýðingu fyrir stjórn VR“. Þetta virðist „einhver tilmæli til stjórnar lífeyrissjóðsins varðandi vinnubrögð við ákvarðanatöku“.

Formaður VR gerir líklega ráð fyrir að fólk muni ekki tæpt ár aftur í tímann og hafi þess vegna gleymt afskiptum stjórnar VR af ákvörðun Lífeyrissjóðs verzlunarmanna um það hvort taka skyldi þátt í útboði Icelandair í fyrra.

Seðlabankinn segir í niðurstöðu sinni að í september í fyrra hafi hann hafið athugun á stjórnarháttum lífeyrissjóðsins og hæfi einstakra stjórnarmanna. Farið hafi verið yfir „ákvörðunarferli stjórnar sjóðsins vegna útboðsins“ og fundað með stjórnarmönnum um málið. Niðurstaðan sé sú „ að stjórn lífeyrissjóðsins hafi ekki gætt að því að meta hæfi einstakra stjórnarmanna við undirbúning og ákvörðun um hvort sjóðurinn tæki þátt í hlutafjárútboði Icelandair Group hf.“ Þá hafi upplýsingagjöf til Seðlabankans vegna athugunarinnar verið ábótavant. Seðlabankinn muni „fylgjast með því að nauðsynlegar úrbætur verði gerðar“.

Athugun Seðlabankans er í samræmi við lög um lífeyrissjóði og eftirlit með þeim en augljóst er að Seðlabankinn gerir ekki slíkar athugasemdir við starfshætti lífeyrissjóðs að ástæðulausu og má vænta þess að hann fylgi því eftir að úrbætur verði gerðar, enda er kveðið á um það í lögum.

Stjórn VR gekk mjög gróflega fram í fyrra og beindi þeim tilmælum til stjórnarmanna sinna í sjóðnum að „sniðganga eða greiða atkvæði gegn þátttöku í væntanlegu hlutafjárútboði Icelandair“. Þetta er sérstaklega alvarlegt þar sem VR er treyst fyrir fjórum af átta stjórnarmönnum í sjóðnum og getur því hindrað þátttöku í fjárfestingum, eins og kom á daginn. Afstaða stjórnar VR hafði ekkert með fjárfestinguna að gera, en snerist um kjarabaráttu. Það er algerlega óheimilt og þarf ekki að leita lengra en í samþykktir Lífeyrissjóðs verzlunarmanna til að sjá það, en þar segir um hlutverk sjóðsins: „Hlutverk sjóðsins er að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri eftir þeim reglum, sem hér fara á eftir.“

Hlutverk lífeyrissjóðsins er að sjálfsögðu ekki að styðja kjarabaráttu, hvað þá pólitíska baráttu, formanns VR, en því miður bendir allt til að sjóðnum hafi einmitt verið beitt í þeim tilgangi, að þessu sinni í það minnsta. Í því sambandi breytir litlu þó að stjórn VR hafi, eftir harða gagnrýni félaga í VR og sjóðsfélaga, dregið yfirlýsingu sína um afskipti af fjárfestingarákvörðun sjóðsins til baka. Afskiptin höfðu þegar farið fram og áhrif þeirra komu skýrt fram við afgreiðslu stjórnar lífeyrissjóðsins á tillögunni um fjárfestinguna í Icelandair.

Formaður Eflingar reyndi, líkt og félagi hennar í VR, að hafa áhrif á fjárfestingu lífeyrissjóðsins þar sem verkalýðsfélagið á fulltrúa í stjórn. Munurinn er þó sá að Efling á aðeins tvo fulltrúa af átta í stjórn Gildis og var því ekki í aðstöðu til að stöðva fjárfestinguna. Niðurstaðan var sú að Gildi tók þátt í útboðinu, ólíkt Lífeyrissjóði verzlunarmanna.

Vissulega er það ekki svo að sérhverjum lífeyrissjóði hafi borið skylda til að kaupa hlutabréf í útboði Icelandair. Sú fjárfesting, líkt og aðrar, var áhættusöm og þeim sem ákvarðanir taka um fjárfestingar lífeyrissjóða bar að meta hana á þeirri forsendu hvort hún teldist til hagsbóta fyrir þá sem taka munu lífeyri úr sjóðnum eða ekki.

Niðurstaða athugunar Seðlabankans staðfestir að full ástæða er til að hafa efasemdir um að rétt hafi verið staðið að ákvörðun Lífeyrissjóðs verzlunarmanna um afstöðu til fjárfestingar í Icelandair. Viðbrögð formanns VR, sem enn á helming fulltrúa í stjórn lífeyrissjóðsins, við niðurstöðunni eru í senn vonbrigði og mikið áhyggjuefni fyrir félaga í VR og sjóðsfélaga í lífeyrissjóðnum. Þær eru til marks um að hugur fylgdi ekki máli þegar tilmælin til stjórnarmannanna voru dregin til baka og þær gefa Seðlabankanum fullt tilefni til að fylgja niðurstöðu sinni fast eftir.