Ásta Dóra „Það er einhver sérstakur píanóheimur sem opnast þegar ég er stödd í tónlistinni.“
Ásta Dóra „Það er einhver sérstakur píanóheimur sem opnast þegar ég er stödd í tónlistinni.“ — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Kristín Heiða Kristinsdóttir khk@mbl.is Píanónám á tímum Covid getur verið snúið, sérstaklega hjá þeim sem stunda námið í fleiri en einu landi. Síðastliðið ár hefur verið viðburðaríkt hjá Ástu Dóru Finnsdóttur, 14 ára stelpu sem nemur píanóleik bæði á Íslandi og í Noregi. Margir viðburðir og tækifæri hafa farið forgörðum, en Ásta Dóra hefur tekið þátt í píanókeppnum víða um heim í gegnum netið með eftirtektarverðum árangri.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Píanónám á tímum Covid getur verið snúið, sérstaklega hjá þeim sem stunda námið í fleiri en einu landi. Síðastliðið ár hefur verið viðburðaríkt hjá Ástu Dóru Finnsdóttur, 14 ára stelpu sem nemur píanóleik bæði á Íslandi og í Noregi. Margir viðburðir og tækifæri hafa farið forgörðum, en Ásta Dóra hefur tekið þátt í píanókeppnum víða um heim í gegnum netið með eftirtektarverðum árangri.

Frá því Covid skall á þá hefur kennslan hér heima hjá Peter Máté við Menntaskóla í tónlist að mestu farið fram í raunheimum, en kennslan hjá rússneska kennaranum mínum við Barratt Due í Osló, henni Marinu Pliassova, hefur farið fram í netheimum. Fyrir Covid hafði ég farið þangað í hverjum mánuði til að sækja tíma,“ segir Ásta Dóra Finnsdóttir, 14 ára stelpa sem þrátt fyrir ungan aldur hefur náð mjög langt í píanóleik. Hún hóf tónlistarnám aðeins fjögurra ára og hefur unnið til fjölda verðlauna í píanókeppnum hérlendis sem erlendis. Hún hefur einnig tekið þátt í og verið boðið að spila á hátíðum og viðburðum í Finnlandi, Danmörku, Grikklandi, Belgíu, Noregi og á Íslandi.

„Mér finnst fínt að þurfa ekki að vakna á nóttunni einu sinni í mánuði til að fara til Noregs í tíma hjá Marinu. Mér finnst líka auðveldara að taka þátt í keppnum á netinu, því þá er ég ekki að stíga fram á svið og spila fyrir framan fólk, heldur sendi ég inn myndband af mér að leika verk á píanóið. Ein keppnin fór reyndar fram í beinu streymi,“ segir Ásta Dóra og tekur fram að hún hlakki til að fara aftur út til Marinu þó henni finnist frábært að fá pásu frá mánaðarlegum ferðalögum til Noregs. „Ég hef haft meiri tíma til að vera með vinum og fjölskyldu hér heima, og ég missi líka minna úr skólanum.“

Æfir sig á píanóið í fjóra tíma á dag

Covid-árið hefur líka verið sérstakt hjá Ástu Dóru því hún hefur tekið þátt í ellefu keppnum á netinu og unnið sex sinnum fyrstu verðlaun í þeim. Einu sinni fékk hún önnur verðlaun, tvisvar þriðju verðlaun og einnig landaði hún Grand Prix-verðlaunum og fékk sérstök verðlaun fyrir bestan leik á verki frá rómantíska tímabilinu. Keppnir þessar fóru fram um víða veröld, í Frakklandi, Rússlandi, Sviss, Póllandi, Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Spáni, Kanada, Ungverjalandi, Singapúr og Úkraínu. Núna stendur yfir afar virt og erfið keppni í Rússlandi sem heitir Vladimir Krainev Moscow International Piano Competition og er Ásta Dóra meðal þátttakenda. Það var mikill áfangi að verða valin í undanúrslit keppninnar og hún er mjög spennt að komast að því hverjir komast í úrslitaumferðina.

„Meðal þeirra píanóleikara sem taka þátt í þessari keppni eru stór nöfn og þetta er alvörukeppni,“ segir Ásta Dóra sem tekur píanónámið föstum tökum, hún æfir sig í fjórar klukkustundir á degi hverjum. „Stundum langar mig að æfa og stundum ekki, en ég þarf að gera það, ef ég vil vera góð á píanó, og það vil ég. Svo þetta er ekkert mál.“

Með Spotify-spilara inni í höfðinu

Ásta segir að foreldrar hennar séu ekki tónlistarfólk en afi hennar hafi spilað á píanó.

„Ég var mjög lítil þegar ég heillaðist af honum að spila djass og ég á frændur og frænkur sem spila á hljóðfæri. Mér finnst gaman að vera hluti af tónlistarfjölskyldu,“ segir Ásta Dóra sem var aðeins þriggja ára þegar foreldrar hennar gáfu henni leikfangapíanó.

„Mér fannst það æðislegt og ég spilaði stanslaust á það. Foreldrar mínir gáfu mér í framhaldinu lítið rafmagnspíanó og svo fékk ég alvöru píanó þegar ég var fjögurra ára og búin að vera í fjóra mánuði í píanónámi,“ segir Ásta Dóra sem á margar góðar minningar frá því hún var lítil stelpa í tónlistarnámi.

„Þar kynntist ég fyrstu vinum mínum, Emmu, Austin og fleirum og ég á líka góðar minningar að tjaldabaki, til dæmis rétt áður en við Anais vinkona mín fórum á svið, þá æfðum við okkur á borðum sem voru þar, með ósýnileg nótnaborð. Ég hef líka eignast marga vini í útlöndum þegar ég hef tekið þátt í keppnum þar eða námskeiðum,“ segir Ásta Dóra sem man eftir sér lítilli í rólu í frímínútum í skólanum þar sem hún kallaði fram í huganum tónlist tónskáldsins César Franck.

„Ég lagði tónlistina hans á minnið, ég var með Spotify-spilara inni í höfðinu,“ segir Ásta Dóra og hlær. „Ég elska að semja lög, en ég elska líka að teikna og semja sögur. Þegar ég teikna þá hlusta ég á tónlist, það kveikir á sköpunarkraftinum í mér.“

Eins og í einhverjum fantasíuheimi

Þegar Ásta Dóra er spurð að því hvernig henni líði þegar hún spilar á píanóið, segir hún erfitt að útskýra það.

„Margir ímynda sér allskonar myndir þegar þeir eru að spila, en hjá mér eru það frekar tilfinningar en eitthvað sjónrænt. Stundum líður mér eins og ég sé í leik eða stödd í einhverjum fantasíuheimi. Það er einhver sérstakur píanóheimur sem opnast þegar ég er stödd í tónlistinni, og það er frábært. Stundum líður mér eins og ég sé stödd í njósnamynd. Þegar ég var tíu ára og spilaði í fyrsta sinn á tónleikum í Eldborg í Hörpu með hljómsveit, fannst mér það töfrum líkast.“ En er hún aldrei með sviðsskrekk?

„Jú, ég fæ alltaf hnút í magann og svitna í lófunum rétt áður en ég fer á sviðið, en um leið og ég sest við píanóið finn ég að ég er örugg og allt er kunnuglegt.“

Ásta Dóra segist ætla að halda áfram að gera sitt besta og hún vonast til að fá fleiri tækifæri til að spila með hljómsveit og taka þátt í keppnum.

„Framtíðin fer eftir því hvert tónlistin leiðir mig og hvaða tækifæri bjóðast,“ segir Ásta Dóra sem heldur upp á tónskáldið og píanistann Clöru Schumann.

„Ég elska hljómana í tónlistinni hennar, hún er snillingur. Ég hef spilað eitt verk eftir hana og ég ætla mér að spila meira af hennar verkum í framtíðinni.“

Ásta var níu ára þegar hún vakti heimsathygli fyrir færni sína í píanóleik þegar hún lék feilnótulaust og blaðlaust tyrkneskan mars eftir Mozart á almenningspíanói á lestarstöð í London. Daily Mail sýndi myndband af viðburðinum á netmiðili sínum og fjallaði um ungu íslensku stúlkuna sem sýndi þessa miklu snilli. Myndbandið vakti gríðarlega athygli á netinu og milljónir manna hafa horft á það. Hægt er að sjá það á youtubesíðu Ástu: youtube.com/user/feyoneteoh.