Sandgerði Rauður bjarminn frá eldgosinu í Geldingadölum sést oft frá Sandgerði og Hvalsneskirkju.
Sandgerði Rauður bjarminn frá eldgosinu í Geldingadölum sést oft frá Sandgerði og Hvalsneskirkju. — Morgunblaðið/Reynir Sveinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úr bæjarlífinu Reynir Sveinsson Sandgerði Það hefur ekki farið framhjá neinum á Suðurnesjum að eldgos er hafið. Við sem búum á Ameríkuflekanum erum talin vera örugg, hvað sem á dynur.

Úr bæjarlífinu

Reynir Sveinsson

Sandgerði

Það hefur ekki farið framhjá neinum á Suðurnesjum að eldgos er hafið. Við sem búum á Ameríkuflekanum erum talin vera örugg, hvað sem á dynur. Við sjáum oft fallegan rauðan bjarma á himni en það veit enginn hvað þetta stendur lengi yfir. Sennilega á þetta eftir að auka komu ferðamanna um Reykjanesskagann í sumar.

Aðalskipulag Suðurnesjabæjar er nú í vinnslu fyrir hið sameinaða bæjarfélag. Nýlega var haldinn kynningarfundur um væntanlegt skipulag en Covid-19 sá til þess að fundinum var streymt. Fyrirspurnir voru á rafrænu formi en þetta var fyrsti kynningarfundur um aðalskipulagið.

Skerjahverfi, 1. áfangi að nýju íbúðahverfi, mun rísa á næstunni. Hverfið er ofan við íþróttasvæði við Stafnesveg en áætlaður kostnaður er um 130 milljónir króna. Búið er að leggja vatns- og skolplagnir að svæðinu en áætlað er að byggðar verði um 400 íbúðir í hinu nýja hverfi þegar það verður fullbyggt.

Kraftur er í húsbyggingum þessa dagana í Suðurnesjabæ. Alls eru 60 íbúðir í byggingu og nú er svo komið að fáar lóðir eru lausar í Sandgerði. Hins vegar eru þónokkrar lóðir lausar í Garði. Þá má nefna að húsum hefur fjölgað í Nátthaga, sem er við Golfvöllinn að Kirkjubóli, mitt á milli Sandgerðis og Garðs.

Sandgerðisviti , sem er mjög sjáanlegt kennileiti í Sandgerði, er í dag ekki mikið augnayndi, enda er búið að hengja allskonar búnað frá ýmsum sjónvarps- og útvarpsstöðvum utan á vitann. Alls eru nú um 10 endurvarpar og loftnet á öllum hliðum hans. Mörgum bæjarbúum finnst þetta ekki fallegt og svo er kominn tími á að mála vitann.

Hólmfríður Árnadóttir, sem hefur verið skólastjóri Sandgerðisskóla í um tvö ár, tók þátt í prófkjöri Vinstri grænna í Suðurkjördæmi nýverið. Hún stefndi á 1. sætið og vann það glæsilega, enda er hún skelegg kona. Væntanlega er hún fyrsti þingmaður í langan tíma sem kemur frá Sandgerði. Ástæða er til að óska Hólmfríði til hamingju með sigurinn.

Göngu- og hjólastígur , sem lagður var á milli Sandgerðis og Garðs, hefur slegið í gegn. Stígurinn er mikið notaður, enda malbikaður og vel upplýstur. Nú þarf bara að vinna að því að leggja samsvarandi stíg til Keflavíkur. Svo eru sumir sem vilja samskonar stíg frá Keflavík og út í Garð.