Stórfjölskyldan Í efstu röð: Hallgrímur Gunnarsson, Gunnar Pálsson, Gunnar Snorri Gunnarsson. Páll Gunnarsson, Kristinn Björnsson, Björn Hallgrímsson; Hallgrímur Geirsson, Finnur Geirsson, Geir Hallgrímsson og Kristín Geirsdóttir. Miðröð situr í stólum: Ingileif Bryndís Hallgrímsdóttir, Áslaug Benediktsson, Áslaug Björnsdóttir, Sjöfn Kristinsdóttir og Erna Finnsdóttir. Sitjandi á gólfinu frá vinstri : Áslaug Gunnarsdóttir, Emilía B. Björnsdóttir, Sjöfn Björnsdóttir og Áslaug Geirsdóttir. Myndin er tekin árið 1965.
Stórfjölskyldan Í efstu röð: Hallgrímur Gunnarsson, Gunnar Pálsson, Gunnar Snorri Gunnarsson. Páll Gunnarsson, Kristinn Björnsson, Björn Hallgrímsson; Hallgrímur Geirsson, Finnur Geirsson, Geir Hallgrímsson og Kristín Geirsdóttir. Miðröð situr í stólum: Ingileif Bryndís Hallgrímsdóttir, Áslaug Benediktsson, Áslaug Björnsdóttir, Sjöfn Kristinsdóttir og Erna Finnsdóttir. Sitjandi á gólfinu frá vinstri : Áslaug Gunnarsdóttir, Emilía B. Björnsdóttir, Sjöfn Björnsdóttir og Áslaug Geirsdóttir. Myndin er tekin árið 1965. — Ljósmyndir/Úr einkasafni
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björn Hallgrímsson, forstjóri og stjórnarformaður H. Benediktssonar, hefði orðið 100 ára í dag, 17. apríl. Hann lést 20. september árið 2005, 84 ára að aldri. Björn fæddist í Thorvaldsensstræti 2 við Austurvöll.

Björn Hallgrímsson, forstjóri og stjórnarformaður H. Benediktssonar, hefði orðið 100 ára í dag, 17. apríl. Hann lést 20. september árið 2005, 84 ára að aldri.

Björn fæddist í Thorvaldsensstræti 2 við Austurvöll. Það hús lét Páll Melsted sagnfræðingur byggja árið 1878 undir Kvennaskólann, sem hann og kona hans, Þóra Melsted, stofnuðu fjórum árum fyrr. Eftir að Kvennaskólinn flutti suður á Fríkirkjuveg eignuðust foreldrar Björns húsið, Hallgrímur Benediktsson, stórkaupmaður, alþingismaður og bæjarfulltrúi í Reykjavík, og kona hans, Áslaug Zoëga húsfreyja.

Í þessu sögufræga húsi fæddust einnig systkini Björns; Ingileif stjórnarformaður, f. 1919, d. 2007, og Geir, forsætisráðherra, borgarstjóri og seðlabankastjóri, f. 1925, d. 1990.

Sjálfstæðisflokkurinn var síðan með starfsemi sína í húsinu um skeið. Þar hafa nokkrar kynslóðir Reykvíkinga dansað og húsið hefur gengið undir ýmsum heitum, svo sem Sjálfstæðishúsið, Sigtún og nú síðast NASA.

Hallgrímur var af fjölmennustu ráðherraætt landsins, Reykjahlíðarætt, en Áslaug, kona hans, var dóttir Geirs Zoëga rektors og Bryndísar Sigurðardóttur frá Flatey, af ætt Boga Benediktssonar, fræðimanns á Staðarfelli.

Lengi stjórnarformaður

Björn lauk prófi frá Verzlunarskóla Íslands 1939 og var við framhaldsnám og störf í Bandaríkjunum 1942-46. Hann var fulltrúi hjá H. Benediktssyni hf. 1946-52, forstjóri Ræsis hf. 1952-54 og forstjóri H. Benediktssonar hf. lengst af frá 1954. Auk þess var hann stjórnarformaður fyrirtækisins um árabil og sat í stjórn ýmissa annarra fyrirtækja sem stórfjölskylda hans hafði átt hluta í eða komið að, s.s. Nóa-Síríusar hf., Hreins hf., í stjórn Steypustöðvarinnar hf., Skeljungs og Ræsis hf. Þá átti hann sæti í stjórn Félags íslenskra stórkaupmanna og Verslunarráðs Íslands.

Í umfjöllun í Morgunblaðinu 29. nóvember 1991, á 80 ára afmæli H. Benediktssonar hf., sagði Björn af því tilefni: „Það hefur verið gæfa okkar fyrirtækis frá upphafi, að til þess hafa ráðist góðir og hæfir starfsmenn og gott samstarf og vinátta verið á meðal þeirra.“

Björn var mikill öndvegismaður, samviskusamur, heiðarlegur, glaðsinna og vingjarnlegur í viðmóti. Þessa eiginleika áttu þau systkinin öll sameiginlega; Ingileif, Geir og Björn.

Björn var einn af bakhjörlum Morgunblaðsins í áratugi en fjölskylda hans var í hópi aðaleigenda blaðsins.

„Björn hafði sig ekki mikið í frammi í því hlutverki, sinnti störfum sínum af þeirri hógværð, sem einkennir þetta fólk en það mátti finna nærveru hans,“ var m.a. skrifað um Björn Hallgrímsson í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 2. október 2005. Þar var einnig skrifað:

„Eitt sinn í árdaga hlutabréfavæðingar sátu tveir ritstjórar Morgunblaðsins á fundi með Birni Hallgrímssyni á skrifstofu hans við Suðurlandsbraut, þar sem H. Benediktsson hafði byggt stórhýsi á þeirra tíma mælikvarða ásamt Skeljungi. Ritstjórarnir höfðu orð á þessu við Björn, sem leit upp, brosti og rétti viðmælendum sínum eitt blað. Þeim varð ljóst, þegar þeir skoðuðu blaðið að á móti þeim sat maður, sem hafði haldið svo vel utan um eignir fjölskyldu sinnar, að þar var um að ræða stórveldi í íslenzku viðskiptalífi, sem lítið fór fyrir.“

Eiginkona Björns var Emilía Sjöfn Kristinsdóttir húsmóðir, f. 12. ágúst 1927, d. 26. október 2003, dóttir Kristins, kaupmanns í Geysi. Björn og Sjöfn eignuðust fjögur börn. Þau eru Áslaug, gift Gunnari Sch. Thorsteinssyni og eiga þau þrjú börn, Kristinn, d. 2015, kvæntur Sólveigu Pétursdóttur og eignuðust þau þrjú börn, Emilía Björg, sem gift var Sigfúsi Haraldssyni, og eiga þau þrjú börn, og Sjöfn, gift Sigurði Sigfússyni, og eiga þau fjögur börn.

Þeir feðgar, Björn og Kristinn, fv. forstjóri Skeljungs, áttu sama afmælisdag og hefði Kristinn því orðið 71 árs í dag.