Hallveig Fróðadóttir fæddist í Reykjavík 1. júlí 1963. Hún lést á líknardeild Landspítalans 13. apríl 2021. Foreldrar hennar eru Hólmfríður Kofoed-Hansen og Fróði Björnsson (d. 27. febrúar 1995). Systkini hennar eru Ragna Fróðadóttir, f. 30. sept. 1964, Björn Fróðason, f. 13. maí 1966 og Hólmfríður Fróðadóttir, f. 26. febrúar 1975.

Hallveig ólst upp í Mosfellsbæ fram á unglingsaldur og bjó síðar í Reykjavík.

Eftir stúdentspróf hóf hún störf á Rannsóknarstofnun landbúnaðarins í Keldnaholti og vann þar við margvísleg störf. Næsti viðkomustaður var Bændasamtök Íslands en þar starfaði hún í meira en 25 ár og gegndi m.a. lykilhlutverki í skýrsluhaldi hrossaræktar. WorldFengur, upprunaættbók íslenska hestsins, átti hug hennar allan og átti hún stóran þátt í uppbyggingu gagna og þróun kerfisins. Í upphafi árs 2020 færðist tölvudeild Bændasamtaka Íslands yfir til Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins. Þrátt fyrir veikindi sín síðustu tvö árin var Hallveig alltaf til staðar á hliðarlínunni eins mikið og hún mögulega gat.

Hestamennska heillaði hana frá unga aldri og stundaði hún hana af kappi.

Útför Hallveigar fer fram í Kópavogskirkju í dag, 17. apríl 2021, kl. 15. Útförinni verður streymt.

Það var mikil tilhlökkun á Dyngjuvegi 2 þegar von var á Hallveigu systurdóttur minni sumarið 1963. Hún var fyrsta barnabarn foreldra okkar.

Fríða og Fróði bjuggu í næsta nágrenni við okkur og þær mæðgur voru tíðir gestir á Dyngjuveginum. Þar var fylgst af aðdáun með hverju skrefi í þroska hennar. Við vorum eðlilega á því að hún væri sérstaklega vel heppnað eintak.

Ég var á góðum aldri og nýttist vel sem barnapía og hafði gaman af því.

Hallveig var snemma sjálfstæð og dugleg og fékk undanþágu til að koma á gæsluvöllinn í hverfinu þegar hún var 18 mánaða. Annars þurftu börn að vera tveggja ára til að komast þangað.

Þegar kom að skólagöngu átti hún auðvelt með nám og við fylgdumst áfram stolt með.

Hún kynntist ung hestamennsku og heillaðist af þeim lífsstíl. Þegar hún fór út á vinnumarkaðinn varð hún svo heppin að fá starf tengt áhugamáli sínu. Hestarnir og starfið í kringum þá voru hennar líf og yndi og hún eignaðist marga góða vini í hestamennskunni.

Í starfi sínu átti hún stóran þátt í þróun hugbúnaðar, WorldFengur, sem geymir margvíslegar upplýsingar um íslenska hesta. Hún var tengiliður við þá aðila sem skrá upplýsingar um íslenska hesta hvar sem er í heiminum.

Á seinni árum hafa barnabörnin af Dyngjuveginum hist reglulega og þar var Hallveig hrókur alls fagnaðar. Þau voru svo ánægð með hvað þau náðu vel saman þótt 28 ár væru á milli Hallveigar og Elíasar sem er yngstur. Þegar þau hittust síðastliðið sumar lét Hallveig sig ekki vanta þótt hún hefði ekki úthald til að vera lengi. Undanfarin ár hafa reynt mikið á Hallveigu og þá kom í ljós hve sterkur einstaklingur hún var. Hún tók hlutskipti sínu af æðruleysi, var bjartsýn og gafst ekki upp fyrr en í fulla hnefana.

Hallveig fékk góða umönnun hjá mömmu sinni og systkinum en þegar hún gat ekki verið heima hjá sér þá flutti hún til mömmu sinnar í lengri eða skemmri tíma. Síðustu mánuðina var hún alfarið hjá mömmu sinni sem sinnti henni af alúð.

Að leiðarlokum langar mig að kveðja Hallveigu með lokaerindi ljóðs sem Sveinn Bjarman orti í minningu Hólmfríðar Jónsdóttur, langömmu Hallveigar.

Vertu nú sæl!

Vinir og frændur

klökkir kveðja.

Nei! Kom þú sæl!

Því góð minning

geymast skal

vori vígð

í vitund þeirra.

Björg Kofoed-Hansen.

„Vinir eru blóm í garði lífsins“ stendur einhvers staðar. Við erum jú öll hluti af náttúrunni. Hallveig, eða Veiga, var blóm í mínum garði, eða öllu heldur tré. Það var sumarið 1980, við vorum vinkonurnar í moldvörpuvinnu í Laugardalnum þegar ró okkar var skyndilega rofin. Einhver uppskrúfuð stelpa úr Árbænum komin af flugstjórum og uppfinningamönnum dirfðist að fullyrða að þetta væri leiðinleg vinna, gat bara sjálf verið leiðinleg. En hún hætti ekki að banka á vinkonudyrnar, hafði pata af því að ég væri sami hrosshausinn og hún og hringdi á hverju kvöldi. „Einhver Hallveig hringdi,“ sagði mamma. En ef ég var heima var talað um hesta í marga klukkutíma, hún var nebblega ekkert uppskrúfuð og þaðan af síður leiðinleg heldur eldklár og húmorísk og vel inni í öllu sem viðkom hrossum. Það var því oft kominn svipur á foreldrana þegar síminn losnaði eftir marga klukkutíma, ekki til farsímar þá. Fyrr en varði var ég orðin heimagangur í Árbænum, styttra í hesthúsið en af Smáragötunni, hreiðraði um mig á gólfinu hjá Veigu, hlustaði á þungarokk og malið í henni þegar ég var að sofna. Það var ristað brauð og kakó þegar við komum heim skítkaldar úr hesthúsinu seint og síðar meir og spagettí úr Mikka Mús-bókinni um helgar. Við leigðum saman hesthús nokkrar vinkonur og Veiga fór að rækta, átti orðið leirljósan graðhest, Dag, enginn af tegundinni homo sapiens nægjanlega spennandi til undaneldis þó margir væru þeir til í tuskið. Svo Veiga ræktaði bara hross, hafði kjarkinn til að standa ein og óháð, eitthvað sem margar konur þrá en treysta sér ekki til. Hún átti líka Heklu og alveg óvart var allt í einu komið folald. Við vissum aldrei hvort það var „alveg óvart“, fáum víst aldrei að vita það. Svo fæddist Lynja í hesthúsinu okkar Hilmars í Kópavoginum, líka „alveg óvart“ og ræktunin hennar hélt áfram hjá okkur eftir að við fluttum í sveitina. Upp úr stóð, að öllum öðrum ólöstuðum, eðalgæðingurinn Pardus, einstakur hestur þar sem saman fór flugrúmur gæðingur og pollrólegur traustur barnahestur. Börnin mín elskuðu hann og mörg börn fengu að njóta hans hér í sveitinni. Hann læknaði kjarkleysi fólks og gaf mörgum ljúfar stundir því Veiga var ónísk á að lána hann. Hún vann til verðlauna á honum á mótum og Fanney dóttir mín keppti á honum einnig, hafði hann til umráða á sumrin, ekki há í loftinu. Árin liðu og reiðgyðjufélagið Skessessurnar varð til. Þar varð Veiga fljótlega fullgildur félagi með sína einstöku skipulagsgáfu sem okkur hinum er ekki öllum gefin, nauðsynlegur eignleiki þegar heill hópur kvenna á öllum aldri flandrar á hestum upp um fjöll og firnindi. Haustið 2018 fór Veiga að kenna sér meins í mjöðminni sem síðar kom í ljós að var beinkrabbi. Hún barðist eins og ljón við þennan vágest og var ótrúlega hress þrátt fyrir erfiða baráttu. Nú hefur hún fengið frið. Það var stutt á milli þeirra „hjónanna“ Pardusar og hennar. Nú eru þau saman á ný ásamt öðrum sem njóta sín áhyggjulaus í „blómabrekkunni“.

Stefanía Sigríður Geirsdóttir (Stebba vinkona!).

Það er alltaf erfitt að sætta sig við það þegar fólk í blóma lífsins er hrifið burt úr þessum heimi. Það á við nú, þegar Hallveig Fróðadóttir hefur kvatt okkur eftir erfitt sjúkdómsstríð, sem hún tókst á við af óbilandi bjartsýni, allt fram undir það síðasta.

Leiðir okkar Hallveigar lágu saman um árabil hjá Bændasamtökum Íslands. Þar var hún í essinu sínu, sameinaði starfið við sitt helsta áhugamál, hestamennsku og hrossarækt.

Hallveig vann við skýrsluhald í hrossarækt og annaðist frágang og útgáfu skjala sem krafist er fyrir útflutning hrossa. Þar reyndi sérstaklega á nákvæmni, samviskusemi og þjónustulund; erindi útflytjenda bárust stundum með litlum fyrirvara, og því var við brugðið hvað Hallveig brást vel við og lagði á sig til að afgreiða öll slík erindi í tíma. Á þessum vettvangi eignaðist hún marga vini sem sakna hennar nú sárt. Hún var afbragðsstarfskraftur.

Á þessum tíma var þróað hjá Bændasamtökunum skýrsluhaldsforrit fyrir hross, World-Fengur, sem þjónar hlutverki ættbókar fyrir íslenska hestinn um heim allan og er talið einstakt í sinni röð. Hallveig var mjög áhugasöm um þessa þróun og tók virkan þátt í að kenna á kerfið og kynna það jafnt innlendum sem erlendum notendum, bæði á hestamótum og me ð heimsóknum til Íslandshestafélaga (FEIF) í nágrannalöndum okkar. Alls staðar fór sama orð af starfi hennar sem einkenndist af brennandi áhuga, lipurð og léttri lund. Hún var hvarvetna vel kynnt.

Þannig æxluðust mál að allt frá 2007 höfum við Hallveig, ásamt fleira góðu fólki, deilt hesthúsi í Víðidal. Hallveig átti frumkvæðið og gerði okkur hinum þetta léttara með því að hún sá að verulegu leyti um alla hirðingu allt þar til heilsan brást. Þarna kynntist ég Hallveigu á nýjan hátt, og ekki voru þau kynni lakari. Hestar voru líf hennar og yndi og öll umgengni hennar við þá í samræmi við það. Hún var vakin og sofin yfir velferð þeirra og taldi ekkert eftir sér í þeim efnum.

Svo var Hallveig líka góður félagi, glaðleg og umhyggjusöm, alltaf tilbúin að létta undir með manni ef þurfti. Við ornum okkur nú við margar góðar minningar um samverustundir í hesthúsinu, útreiðartúra og ekki síst árlegan „lokatúr“ sem endaði með grillveislu, þar sem allir lögðu eitthvað til í fljótandi eða föstu formi. Þá var glatt á hjalla, mikið spjallað og sungið og Hallveig naut sín vel.

Hallveig var ekki hávaðasöm manneskja eða mikið fyrir að trana sér fram. Hún var hógvær í allri framgöngu en föst fyrir ef á reyndi. Hún var umtalsfróm, og ég minnist þess varla að hún hallaði orði að nokkrum manni, nema ef illa meðferð dýra bar á góma, þá gat hún tekið sterkt til orða. Það var hegðun sem hún þoldi ekki og fór ekki leynt með. Hún var sannur dýravinur.

Við hesthúsfélagar Hallveigar, Anna Guðný og Guðmundur, Anna Rún og Orri, Addi og Björg og Lilja, minnumst hennar með virðingu og þökk. Við sendum fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur.

Sigurgeir Þorgeirsson.

Ég skildi að orð er á Íslandi til

um allt sem er hugsað á jörðu.

(Einar Benediktsson)

Samt skortir mig þetta eina orð yfir tengsl okkar Veigu.

Hún var hvorki frænka mín né foreldri og ekki bara vinur. Hún var allt í senn og eftir stendur því líklega orðið; lífsförunautur.

Veiga átti marga lífsförunauta. Hún var ein fárra sem þurfti ekki að stofna til hefðbundinnar kjarnafjölskyldu til að lifa umvafin ást og virðingu. Raunar lágu ótal hjartaþræðir úr öllum heimshornum til Veigu – sem sló mitt í þeim vef af sinni einskæru ró, trygglyndi og staðfestu.

Hæst rís þakklæti mitt fyrir gjafmildi hennar og örlæti. Fyrir hvernig hún deildi með mér hinum einstaka gæðingi Pardusi, studdi mig á keppnisvellinum og gladdist yfir (hófstilltum) sigrum okkar. En við glöddumst ekki síður þegar illa gekk! Þá hlógum við saman að því hvernig Pardus útfærði keppnislistir sínar með því að skammta eitt kúkasparð í einu svo birgðirnar entust tryggilega heila sýningu. Ætli það sé ekki skilgreiningin á sönnum vini þegar upp er staðið; sá sem stendur við hlið þér í sigri jafnt sem ósigri.

Líf Veigu einkenndist af þessari sönnu vináttu. Megi lífshlaup hennar verða okkur sem eftir sitjum hvatning til að styrkja og rækta vinasambönd milli landa og heimsálfa, milli tegunda – og nú síðast – á milli heima. Því þótt líkami hennar sofi þá mun sál hennar vaka og vera til staðar – rétt eins og hún hefur alltaf verið.

Þannig sé ég kímni augna hennar liðast í bylgjandi faxi. Heyri hlátur hennar í ómandi hófadyn. Finn hægláta nærveru hennar – í silkimjúkum flipa.

Og þegar mín stund rennur upp veit ég að Veiga mun bíða við blómabrekkufót með jarpan hest við hlið sér. En þangað til – megi líkami hennar hvíla í friði – megi sál hennar þeysa um í eilífu sumri.

Síðustu jól færði ég henni ljóð um jarpa ljósið okkar Pardus – síðustu þrjú erindin eiga jafn vel við nú og þá:

Með umhyggju og alúð sýndir,

– öllum – þína traustu lund.

Knapa óteljandi krýndir

konunga um litla stund.

Mitt brotna hjarta brjósti stynur,

breysk er sú er lifir hálf.

Nú ætíð krefjast kæri vinur,

að kórónuna bæri sjálf.

En skörung átti konan skarpa,

skynug rétti tauminn blíð.

Og þannig lifir ljósið jarpa

í landsins hjörtum alla tíð.

Nú lifa þau ljósin – saman tvö – í lands og heimsins hjörtum alla tíð.

Fanney Hrund

Hilmarsdóttir.

Hallveig Fróðadóttir, aðalskrásetjari WF, er látin.

Okkar elskulega Hallveig lést eftir harða baráttu við krabbamein. Hún skilur eftir sig stórt skarð bæði í hópi okkar vinnufélaganna hjá WorldFeng & RML og hjá hestamönnum um allan heim. Það er erfitt að þurfa að kveðja hana núna og viljum við senda fjölskyldu hennar og vinum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Við minnumst Hallveigar sem góðs félaga sem gaman var að eyða stundum með utan vinnudags. Hún var brosmild, blíð og dugleg, vinnuforkur, samviskusöm, nákvæm og úrræðagóð. Það var alltaf hægt að treysta á Hallveigu. Hún átti stóran þátt í uppbyggingu gagna í WorldFeng, lykilpersóna í þróun kerfisins og aðaltengiliður Íslands við skrásetjara erlendis. Hestar og hestamennskan átti stóran þátt í lífi hennar og hún var mikill dýravinur sem ekkert aumt mátti sjá.

Blessuð sé minning hennar!

WorldFeng-teymið og Elsa Albertsdóttir.

HINSTA KVEÐJA
Hungursfit 22.-23. júní 2005:
Höldum nú frá Hungursfit
Hópur vaskra kvenna
Gyðjur, jóar, sólarglit
Göfug heilög þrenna
Elsku Veiga,
skarð þitt í okkar hópi verður aldrei fyllt.
Skessessurnar
(hestaferðahópur vaskra kvenna),
Bergþóra Jósepsdóttir, Edda Þórarinsdóttir, Fanney Hrund Hilmarsdóttir, Harpa J. Reynisdóttir, Kristín I. Pálsdóttir, Stefanía Geirsdóttir, Vera Roth, Þyri Sölva Bjargardóttir.