[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Velta á fasteignamarkaði á síðasta ári á landinu öllu nam 670 milljörðum króna og má ætla, sé miðað við að söluþóknun nemi að meðaltali 1,5%, að þóknanir til fasteignasala vegna umsvifanna nemi rúmum 10,5 milljörðum króna á árinu. Þóknun getur þó verið breytileg milli fasteignasala og prósentutalan eingöngu sett fram sem viðmið.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Velta á fasteignamarkaði á síðasta ári á landinu öllu nam 670 milljörðum króna og má ætla, sé miðað við að söluþóknun nemi að meðaltali 1,5%, að þóknanir til fasteignasala vegna umsvifanna nemi rúmum 10,5 milljörðum króna á árinu. Þóknun getur þó verið breytileg milli fasteignasala og prósentutalan eingöngu sett fram sem viðmið.

Veltan jókst um 20% milli ára, en hún var 560 milljarðar árið 2019.

Samkvæmt upplýsingum á vef Þjóðskrár Íslands þá seldust 13.964 eignir á landinu öllu árið 2020 samanborið við 12.208 eignir árið á undan. Það er rúmlega 14% aukning í fjölda. Til samanburðar má geta þess að á milli áranna 2018 og 2019 stóð fjöldinn nánast í stað og aðeins munar fáeinum eignum. 12.195 eignir seldust árið 2018.

Ef horft er til einstakra bæja og landsvæða tók fasteignasala töluverðan kipp á Akureyri og í Reykjavík í fyrra. Í Reykjavík seldust 5.039 eignir samanborið við 4.175 árið 2019, sem er 21% aukning milli ára. Athygli vekur að árin 2018 og 2019 seldist nærri því sami fjöldi eigna í borginni, en aðeins munar einni eign milli áranna.

935 eignir seldust í Akureyrarbæ árið 2020. Árið á undan nam salan í bænum 706 eignum. Aukningin er rúmlega 32%. Í Fjarðabyggð á Austurlandi dróst sala fasteigna saman um 9% milli ára. 144 eignir seldust í fyrra en árið 2019 seldust 158 eignir.

Í Ísafjarðarbæ varð aukning í fasteignasölu á tímabilinu. 132 eignir seldust þar í fyrra en árið á undan seldust 123 eignir. Áhugavert er að sjá að mikill kippur varð í fasteignasölu í bænum milli áranna 2018 og 2019 eða 34% aukning.

Í Garðabæ seldist í fyrra 741 eign en árið á undan seldust í bænum 594 eignir, sem er 25% aukning á milli ára. Í Kópavogi var líka mikil sala. 1.375 eignir seldust í bænum, en aftur á móti varð samdráttur á milli ára. 1.405 eignir seldust árið á undan, sem er 2% samdráttur.

Hagfelldur markaður

Kjartan Hallgeirsson, formaður Félags fasteignasala, segir í samtali við Morgunblaðið að markaðurinn hafi verið hagfelldur á síðasta ári út af lágu vaxtastigi og góðri kaupgetu í samfélaginu. „Það var mikið framboð í upphafi faraldursins, en það er búið að ganga töluvert á það. Það er nokkurt framboð í kortunum, en í mörgum tilvikum eru kannski 1-2 ár í afhendingu nýrra íbúða.“

Hann segir að í faraldrinum hafi bankar opnað meira á lánveitingar. „Við fengum inn nýjar kynslóðir sem höfðu ekki verið áður á markaðnum, bæði ungt fólk og aðila sem verið höfðu á leigumarkaði. Hópurinn stækkaði, sem bjó til meiri pressu á markaðinn. Þetta sveiflast því töluvert vegna ytri ástæðna. Ef Seðlabankinn hækkar vexti aftur gæti stór hluti hópsins dottið út.“

Verðþrýstingur út á land

Hvað áhrif á landsbyggðina varðar segir Kjartan að þegar verðþrýstingur myndast á höfuðborgarsvæðinu valdi það verðþrýstingi á nágrannasveitarfélögin. „Fólk fer þá að horfa í kringum sig, til dæmis á Selfoss eða Akranes. Það gerist alltaf þegar framboð minnkar á höfuðborgarsvæðinu, þá njóta nágrannasveitarfélögin góðs af því.“