[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eyjólfur Kristjánsson fæddist 17. apríl 1961 Reykjavík og ólst upp í Vogahverfinu. Hann æfði handbolta og fótbolta með Þrótti upp í 3. flokk. „Ég fór þá að stunda meira skíði, var öll sumur uppi í Kerlingarfjöllum að kenna á skíðum.

Eyjólfur Kristjánsson fæddist 17. apríl 1961 Reykjavík og ólst upp í Vogahverfinu. Hann æfði handbolta og fótbolta með Þrótti upp í 3. flokk. „Ég fór þá að stunda meira skíði, var öll sumur uppi í Kerlingarfjöllum að kenna á skíðum. Ég hætti í handboltanum bara út af tónlistinni.“

Eyjólfur lauk barna- og grunnskólaprófi frá Vogaskóla 1977, stundaði nám í Menntaskólanum í Reykjavík í fjóra vetur og gekk einnig í Tónlistarskóla FÍH og stundaði nám í klassískum píanóleik hjá Jakobínu Axelsdóttur 1982-1985 og lauk þar 3. stigs prófum.

Eyjólfur var skíðakennari við Skíðaskólann í Kerlingarfjöllum árin 1978-1991 með hléum þó vegna tónlistarstarfa sinna.

Eyjólfur hefur verið atvinnutónlistarmaður frá árinu 1984, en ferilinn hóf hann í Vestmannaeyjum ásamt hljómsveit sinni Hálft í hvoru. „Það var svona í kringum 1980 sem ég áttaði mig á því að tónlistin gæti hugsanlega orðið ævistarfið. Ég fór þá að spila meira opinberlega og árið 1984 vorum við í Hálft í hvoru ráðnir á bjórlíkiskrá og spiluðum þar mikið og á fínum launum. Árið eftir flyt ég að heiman, og var þá búinn að búa hjá pabba og mömmu í 24 ár.“

Gegnum tíðina hefur Eyjólfur leikið með ýmsum hljómsveitum. Með hljómsveitinni Hálft í hvoru hefur hann sent frá sér tvær plötur og með hljómsveitinni Bítlavinafélaginu sex plötur. Eyjólfur hefur einnig sent frá sér sjö sólóplötur á ferlinum, eina plötu ásamt Bergþóri Pálssyni óperusöngvara og tvær plötur ásamt Stefáni Hilmarssyni. Eyjólfur hefur sungið inn á ótal aðrar plötur og geisladiska, átt fjölmörg vinsæl jólalög sem enn eru leikin í útvarpi, tekið þátt í vinsælum tónlistarsýningum á Broadway í Mjódd, Hótel Íslandi, Hótel Sögu og í Sjallanum á Akureyri.

Eyjólfur hefur verið í fremstu röð dægurlagasöngvara og -höfunda um árabil. Hann hefur átt lög í efstu sætum vinsældalista og unnið tónlistarkeppnir hér heima svo sem Söngvakeppni Sjónvarpsins og Landslagið. Lög eftir hann hafa verið gefin út í Sviss, Austurríki, Þýskalandi, Danmörku, Svíþjóð og Suður-Afríku.

Eyjólfur hefur komið fram víða einn með gítarinn og einnig hefur hann átt í farsælu samstarfi við félaga sinn Stefán Hilmarsson (Stebbi og Eyfi) og saman fóru þeir til Rómar 1991 fyrir Íslands hönd og tóku þátt í Eurovisionkeppninni með lag og texta Eyjólfs „Draumur um Nínu“, sem hefur fest sig í sessi sem eitt allra vinsælasta dægurlag Íslandssögunnar.

Árið 2018 fór Eyjólfur til Luton á Englandi og nam þar tannhvíttunarfræði og hefur starfað sem slíkur á meðferðarstofunni „Heilsu og útliti“, sem eiginkona hans rekur.

Eyjólfur stundar ennþá skíðamennsku. „Ég reyni að fara til Ítalíu eða Austurríkis á hverju ári, en ég stunda golfið ennþá meira. Ég er búinn að vera í því frá 2001 og spila ágætlega mikið af golfi á hverju sumri og reyni yfirleitt að fara til Kaliforníu á haustin til að spila golf.

Eyjólfur verður með sextugsafmælistónleika á veitingastaðnum Sjálandi í Garðabæ, síðasta vetrardag, 21. apríl. „Þetta verða dinnertónleikar, ég verð með gítarinn og Þórir Úlfarsson verður með mér á píanó. Við ætlum að taka helstu Eyfalögin gegnum tíðina og spjalla á léttu nótunum við tónleika- og matargesti.“

Fjölskylda

Eiginkona Eyjólfs er Gunnleif Sandra Lárusdóttir, f. 9.11. 1973, sem rekur og á meðferðarstofuna „Heilsu og útlit“ í Kópavogi. Þau eru búsett í Kópavogi. Foreldrar hennar eru hjónin Lárus Lárusson, f. 7.6. 1944, vinnuvélstjóri og Stefanía Agnes Tryggvadóttir, f. 3.9. 1946, húsmóðir. Þau eru búsett í Garðabæ.

Dóttir Eyjólfs og Gunnleifar Söndru er Guðný, förðunarfræðingur, f. 12.9. 1999. Dóttir Gunnleifar Söndru og uppeldisdóttir Eyjólfs er Stefanía Agnes Þórisdóttir lögfræðingur, f. 1.6. 1995.

Systkini Eyjólfs eru Björg, f. 9.8. 1946, búsett í Reykjavík, Hrafnhildur, f. 17.4. 1948, búsett í Reykjavík, Helga, f. 1.9. 1952, búsett í Maryland, Bandaríkjunum; Hans, f. 17.2. 1956, búsettur á Álftanesi og Kristján, f. 17.2. 1956, búsettur í Mosfellsbæ.

Foreldrar Eyjólfs voru Kristján Björn Þorvaldsson, stórkaupmaður í Reykjavík, f. 30.5. 1921, d. 11.8. 2003 og Guðný Eyjólfsdóttir húsmóðir, f. 27.10. 1925, d. 4.8. 1992.