Á Varmá Landsliðskonurnar Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, Þórey Rósa Stefánsdóttir, Birna Berg Haraldsdóttir og Eva Björk Davíðsdóttir hita upp fyrir æfingu í Mosfellsbænum í vikunni.
Á Varmá Landsliðskonurnar Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, Þórey Rósa Stefánsdóttir, Birna Berg Haraldsdóttir og Eva Björk Davíðsdóttir hita upp fyrir æfingu í Mosfellsbænum í vikunni. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
HM 2021 Kristján Jónsson kris@mbl.is Kvennalandsliðið í handknattleik mætir Slóveníu í Ljubljana í dag. Er það fyrri leikur liðanna í umspili um laust sæti í lokakeppni HM sem fram fer á Spáni í desember.

HM 2021

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Kvennalandsliðið í handknattleik mætir Slóveníu í Ljubljana í dag. Er það fyrri leikur liðanna í umspili um laust sæti í lokakeppni HM sem fram fer á Spáni í desember. Örvhenta skyttan Birna Berg Haraldsdóttir er hóflega bjartsýn fyrir leikina gegn Slóveníu. Birna segir lið Slóveníu vera gott og hafa bætt sig mjög á undanförnum árum. Á hinn bóginn hefði Ísland getað lent á móti enn erfiðari andstæðingum í umspilinu að hennar mati og niðurstaðan sé því ágæt.

„Þetta er mjög spennandi enda er orðið langt síðan við fórum síðast á HM. Möguleikarnir eru bara góðir því við hefðum getað dregist á móti andstæðingum sem eru miklu betri en við á þessum tímapunkti. Við eigum alla vega möguleika gegn Slóveníu en það verður mikilvægt að komast vel frá fyrri leiknum. Við viljum ekki vera í slæmri stöðu fyrir síðari leikinn hér heima. Við höfum æft vel og erum vel undirbúnar. Ég er mjög spennt en get viðurkennt að ég er orðin svolítið óþreyjufull að bíða,“ sagði Birna en landsliðið hefur fengið töluverðan tíma til að æfa fyrir leikina og kom þá nánast í beinu framhaldi af leikjunum þremur í forkeppni HM sem spilaðir voru í Norður-Makedóníu.

„Ég er mjög fegin að við skyldum fá þessa undanþágu [frá sóttvarnareglum] til að æfa saman. Ef landsliðið hefði ekki verið saman, og við hefðum undirbúið okkur nánast hver í sínu horni í æfingum án snertingar, þá væri verkefnið mun erfiðara. Okkur hefur tekist að nýta tímann vel bæði hvað varðar æfingar og fundi.“

Ryðgaðar í tapleiknum

Í forkeppninni í Norður-Makedóníu tapaði Ísland fyrir gestgjöfunum en vann örugga sigra gegn Grikklandi og Litháen. Birna Berg sagði liðið hafa verið ryðgað í fyrsta leik en stígandi hafi verið í leik liðsins þegar á leið.

„Mér fannst vera stígandi í þessu. Síðustu tveir leikirnir voru fínir. Þótt mótstaðan væri ekki mikil þá héldum við alltaf áfram og náðum að gefa í. Á móti slakari liðum er hættan sú að falla niður á þeirra plan en við gerðum það ekki. Spilamennskan var stöðug í þeim leikjum.

Á móti Makedóníu vorum við fínar í 45 mínútur. Ég er handviss um að við hefðum unnið þær makedónsku ef við hefðum mætt þeim í öðrum eða þriðja leik því við vorum svolítið ryðgaðar á móti þeim í fyrsta leiknum. En mér fannst gott að afgreiða hina tvo leikina vel.“

Þekkir andstæðingana

Birna Berg hefur leikið víða erlendis í atvinnumennskunni. Í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Þýskalandi. Hefur hún spilað á móti mörgum leikmönnum slóvenska liðsins?

„Já ég hef nú sennilega spilað á móti þeim flestum. Auk þess kannast maður við nöfnin þar sem maður horfir á handbolta endalaust. Í slóvenska liðinu eru leikmenn sem spila í Meistaradeildinni og maður hefur séð þær þar. Þær þekkja kannski okkur minna,“ sagði Birna en nokkrar þeirra slóvensku eru komnar í undanúrslit í Meistaradeildinni með sínum félagsliðum. Eru því í hæsta gæðaflokki í íþróttinni.

„Framundan hjá þeim er að spila í úrslitahelginni í Meistaradeildinni. Vonandi reyna þær þá að hlífa sér eitthvað í þessum leikjum á móti okkur. En við ætlum að berjast í 120 mínútur og sýna hvað í okkur býr. Slóvenía er gott lið og er vaxandi. Þær hafa sýnt á undanförnum árum að þær eru á uppleið. Við mættum þeim fyrir nokkrum árum og gerðum jafntefli en eftir það hafa þær tekið miklum framförum og stimplað sig vel inn á Evrópu- og heimsmeistaramótin,“ sagði Birna Berg Haraldsdóttir ennfremur í samtali við Morgunblaðið á landsliðsæfingu í Mosfellsbæ í vikunni.

Góður aðbúnaður í Slóveníu

Mbl.is náði sambandi við Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóra HSÍ, í gær, en hann er fararstjóri í Ljubljana. Íslenska liðið skilaði sér á hótelið eftir miðnætti aðfaranótt föstudagsins eftir tímafrekt ferðalag eins og gert hafði verið ráð fyrir.

„Ferðalagið gekk mjög vel og það er ekki yfir neinu að kvarta. Við erum með frábæran aðbúnað á Grand-hóteli og okkur skortir ekki neitt. Þetta er samt sem áður mikil fjarvera fyrir leikmenn, bæði frá vinnu og sínum fjölskyldum, og ég er virkilega þakklátur leikmönnunum að gefa kost á sér í þetta verkefni og taka þátt í þessu með okkur. Vonandi tekst okkur að uppskera eftir því,“ sagði Róbert meðal annars í samtali við Bjarna Helgason en lengra viðtal við hann er að finna á mbl.is/sport frá því í gær.

Leiðin í lokakeppni HM 2021

Heimsmeistaramót kvenna í handknattleik fer fram á Spáni dagana 2. til 19. desember á þessu ári. Þar leika 32 þjóðir og hafa sex Evrópuþjóðir tryggt sér keppnisrétt.

Það eru gestgjafar Spánar, heimsmeistarar Hollands og svo Króatía, Danmörk, Frakkland og Noregur sem fara beint á HM sem bestu liðin á Evrópumótinu 2020.

Evrópa fær tíu sæti til viðbótar og mun því eiga helming þátttökuþjóða í lokakeppninni. Um þessi tíu sæti leika tuttugu þjóðir í umspilinu þessa dagana. Í gær léku Ítalía – Ungverjaland, Austurríki – Pólland, Tyrkland – Rússland og Svartfjallaland – Hvíta-Rússland fyrri leiki sína. Í dag mætast síðan Tékkland – Sviss, Slóvenía – Ísland, Slóvakía – Serbía, Úkraína – Svíþjóð, Rúmenía – Norður-Makedónía og Portúgal – Þýskaland.

Seinni leikirnir í umspilinu fara fram dagana 18. til 21. apríl. Ísland og Slóvenía leika síðasta leikinn á Ásvöllum á miðvikudagskvöldið kemur, 21. apríl, klukkan 19.45.

Síðan eiga eftir að bætast við sex lið frá Asíu, fjögur frá Afríku, þrjú frá Suður- og Mið-Ameríku og eitt frá Norður-Ameríku og Karíbahafi. Þá getur Eyjaálfa fengið eitt sæti, eftir gengi liða þaðan í undankeppninni í Asíu, en síðan getur IHF úthlutað einu eða tveimur síðustu sætunum til þjóða sem hafa ekki tryggt sér keppnisrétt.