Guðfinna fæddist í Reykjavík 2. nóvember 1930. Foreldrar hennar voru hjónin Sigríður Ólafsdóttir verkakona, f. 1895, d. 1986, frá Gesthúsum á Álftanesi og Jens P. Hallgrímsson sjómaður, f. 1896, d. 1979, frá Keflavík, sem bæði voru kennd við húsið Vog í Skerjafirði, sem þau byggðu 1930.

Guðfinna var yngsta barn þeirra en eldri bræður hennar voru dr. Ólafur Jensson, læknir og blóðbankastjóri, f. 1924, d. 1996, Ketill Jensson, söngvari og fiskmatsmaður, f. 1925, d. 1994, og Guðbjörn Jensson skipstjóri, f. 1927, d. 1981.

Eiginmaður Guðfinnu var Hjalti Ágústsson vörubílstjóri, f. 1919, d. 1993. Þau byggðu hús við Bauganes í Skerjafirði og bjuggu þar í 40 ár. Börn þeirra eru Ágúst Vilhelm, f. 1949, d. 1998, síðast búsettur á Nýja-Sjálandi, kvæntur Catherine Schaumkell, Sigríður, f. 1956, maður hennar er Hörður Jóhannesson, Ágústa, f. 1958, Sólveig, f. 1962, maður hennar er Sverrir Arngrímsson, og María, f. 1963, maður hennar er Óskar Finnsson. Barnabörnin eru þrettán og langömmubörnin eru orðin tólf.

Guðfinna starfaði utan heimilis, lengst af á Þjóðminjasafninu og hjá Domus Medica, og var virk í margvíslegu tómstunda- og félagsstarfi.

Undanfarin tvö ár bjó Guðfinna á Hrafnistu í Hafnarfirði en heilsu hennar fór hrakandi á sama tíma og hún lést þar að kvöldi 31. mars sl.

Útför hennar hefur þegar farið fram.

Elsku mamma kvaddi 31. mars sl. Það var gott að hún fékk hvíldina, samt alltaf sárt að kveðja.

Við þessi tímamót lítur maður til baka og rifjar upp það helsta sem tengdi okkur mömmu saman. Fyrstu minningar sem koma upp í hugann er þegar ég fór með henni að skúra á Þjóðminjasafninu og í Domus Medica. Það var spennandi að fylgja mömmu eftir við skúringavinnuna en ég man að ég var alltaf hrædd við sjómanninn sem var í einu horninu á sjóminjasafninu á fyrstu hæð safnsins.

Ég er númer fjögur í röðinni í systkinahópnum og var mjög spennt fyrir því að byrja að fara í skóla eins og þau. Með aðdáun fylgdist ég með Siggu og Gústu fara í skólann og fór síðan að herma eftir þeim að sögn mömmu. Þá fór ég út á stoppistöð með „plat“-skólatösku þar sem fimman stoppaði og gerði eins og þær, beið eftir strætó en fór að sjálfsögðu ekkert í strætóinn. Síðan kom ég heim og sagði mömmu að nú væri ég að fara í leikfimi eins og systur mínar. Mamma tók þátt í leiknum með mér og hafði gaman af. Þetta rifjuðum við oft upp og hlógum saman. Það endaði þannig að mamma gafst upp og bað um að ég byrjaði ári undan í skóla enda fædd í mars. Það var látið eftir og ég hef ekki borið skaða af því.

Um árabil vorum við fjölskyldan að bera út Tímann og Þjóðviljann og fékk ég að selja afgangsblöðin í Shell-stöðinni í Skerjafirði. Þegar ég var í sölumennskunni þar fannst mér oft góð matarlykt berast úr mötuneytinu. Þar sem ég var ekki mikið fyrir fiskinn, sem var ansi oft í matinn heima, fannst mér tilvalið að vingast við matráðskonuna og hún fór að bjóða mér stundum í mat. Þá hafði ég þann háttinn á að ég hringdi í mömmu og sagði: „Mamma, hvað er í matinn?“ og ef hún svaraði: „Solla mín, það er fiskur.“ „Já, allt í lagi, þá ætla ég að borða á Shell.“ Mamma sagði ekkert við þessu, fannst þetta bara fyndið og lék oft fyrir mig þessi símtöl þegar við vorum að spjalla í seinni tíð.

Mömmu fannst gaman að skapa og hún var smekkleg og hafði næmt auga fyrir litum og efnum. Hún málaði postulín og saumaði á okkur systurnar falleg föt. Það var líka heppilegt að við systurnar erum fæddar á sjö árum og fötin gátu gengið á milli. Ég hef svo oft hugsað um það hvernig hún fór að þessu en ég held að mamma hafi upplifað það sem einhvers konar núvitund eins og það er kallað í dag. Mála postulínið, sauma í saumavélinni, baka og fleira.

Við mamma bjuggum nálægt hvor annarri í Salahverfinu í mörg ár og það var ómetanlegur stuðningur að hafa hana nálægt mér og börnunum mínum þegar þau voru að alast upp þar. Mamma var mjög ánægð í Hlynsölum þar sem hún bjó sér fallegt og notalegt heimili og var dugleg að sækja Salalaugina.

Mamma var sjálfstæð og dugleg kona, það var ekki alltaf auðvelt hjá henni, en ég er þakklát fyrir það sem hún kenndi mér. Hún átti ekki auðvelt með að tjá sig á einlægan hátt, en það var alltaf jafn gaman að sýna henni það sem ég var búin að prjóna því hún kunni að meta það enda hún og móðir hennar miklar handverkskonur. Elsku mamma, ég mun sakna þín. Þín

Sólveig (Solla).

Með þakklæti en sorg í hjarta kveð ég hana mömmu. Ég veit að hún er fegin því að fá hvíldina. Hún hafði rætt það við mig og okkur systurnar nokkuð oft undir það síðasta. Mamma var dugnaðarkona og hörkutól, hún vann mikið alla tíð og féll aldrei verk úr hendi. Henni fannst gaman að vinna og kvartaði aldrei yfir því. Hún var dugleg að stunda sund og það var hennar líkamsrækt alla tíð, þar hafði hún líka skemmtilegan félagsskap. Hún hafði mjög gaman af því að mála postulín og þegar allir voru sofnaðir þá fékk hún næði, settist niður og fór að mála. Í máluninni fann hún ró og naut þess mjög. Hún skilur eftir sig marga fallega muni sem við, stelpurnar hennar, eigum nú til minningar. Hún var ekki bara dugleg húsmóðir heldur tók hún t.d. fullan þátt í að mála húsið og hún gat verið „hættuleg“ með pensilinn og með afgangsmálningu því þá var allt málað. Einu sinni málaði hún skjólborðin á vörubílnum hans pabba án þess að ræða það frekar og hún málaði þau blá. Pabbi fór svo inn á stöð og vinnufélagarnir fóru að spyrja hann út í þetta og gerðu smá grín en hann tók ekkert eftir þessu, enda var hann litblindur. Mamma naut þess að ferðast til útlanda og sjá eitthvað nýtt. Ég spurði hana nýlega hvað hefði nú verið skemmtilegast hjá henni síðustu 30 árin, þá var hún fljót að svara: „Þegar ég fór að ferðast“ og minntist sérstaklega á ferð til Flórens með starfsfólki Þjóðminjasafnsins sem hún var svo lánsöm að fá að taka þátt í. Hún fór líka í margar ferðir með Orlofsnefnd húsmæðra, bæði innanlands og erlendis. Stundum dreif hún sig bara ein í ferðir og ekki vantaði kjarkinn í hana. Við mamma vorum góðar vinkonur og við fórum saman í nokkrar utanlandsferðir, meðal annars að heimsækja Guðfinnu mína. Henni fannst það mjög skemmtilegt. Við brölluðum margt saman í þeim ferðum.

Hún var ekki alltaf ánægð með hvað við þvældum henni mikið en svo gátum við flissað yfir því saman, enda aldrei langt í hláturinn hjá mömmu. Hún var kát að eðlisfari og mikill húmoristi. Við systurnar fórum líka í nokkrar skemmtilegar utanlandsferðir með mömmu og eigum góðar minningar frá þeim. Ég gæti sagt margar sögur af mömmu en ein mjög minnisstæð er þegar hún kom með mér í Tískuverslunina Adam að skoða hermannajakka, sem mig langaði til að eignast, því ég hafði mátt velja mér flík í staðinn fyrir fermingarkápu. Hún las svo yfir starfsmanni verslunarinnar hvað væri verið að selja unglingum svona flíkur og hermannajakkann fékk ég ekki. Ég skammaðist mín svo hroðalega að við fórum ekki í sama strætó heim og ekki saman í bæinn í nokkur ár eftir þetta. Þegar ég réð mig í vist í Búðardal var hún dugleg að senda mér pakka og það var alltaf jafnspennandi að fara á pósthúsið og sækja pakkann frá henni. Hún var hugulsöm, bóngóð og vildi allt fyrir okkur gera. Hún var stolt af fólkinu sínu, okkur stelpunum og bræðrum sínum sem hún leit mikið upp til. Það var alltaf kært á milli þeirra systkinanna enda einstaklega góðir bræður.

Áfram veginn í vagninum ek ég

inn í vaxandi kvöldskuggaþröng.

Ökubjöllunnar blíðróma kliður

hægur blandast við ekilsins söng.

Nú er söngurinn hljóður og horfinn,

aðeins hljómar frá bjöllunnar klið.

Allt er hljótt yfir langferða leiðum

þess er leitar að óminni og frið.

(Freysteinn Gunnarsson)

Minning þín lifir, elsku mamma.

Ágústa.

Guðfinna Jensdóttir var falleg kona, glöð og jákvæð, drífandi og stundum stjórnsöm, létt í lund, með beittan húmor blandaðan kaldhæðni, allt til enda. Hún var ekki grimm en gerði þá sjálfsögðu kröfu að fólk stæði með sjálfu sér, skárra væri það nú, og stæði í lappirnar. Hún kom eins fram við alla og var ófeimin.

Ég var ungur þegar ég fór að venja komur mínar í Bauganesið. Allt í einu átti ég kærustu, – en þá fylgdi tengdamamma með. Við piltarnir úr Smáíbúðahverfinu höfðum ekki tekið það með í reikninginn enda ekki vanir að hugsa lengra en til næstu helgar. Það var ekkert að óttast í mínu tilviki. Ég komst fljótt að sannri merkingu orðsins og það var fyrir tilstilli Guðfinnu, allt með jákvæðum formerkjum. Hún dekraði við mig frá fyrsta degi og var hvetjandi og jákvæð þegar baslið okkar Siggu hófst fyrir alvöru.

Guðfinna var ekki göldrótt en hafði sambönd. Hún þekkti fólk alls staðar. Hún hafði frumkvæði að því að láta hluti gerast. Hún var oftast á bak við tjöldin og skildi aldrei eftir nein fingraför. Hvaða leyniþjónusta sem er gæti notað slíkan starfsmann. Hún hvorki skaraði eld að eigin köku né aðhafðist í þágu eigin hagsmuna. Hún var að hjálpa og vildi fólki vel. Það leið t.d. ekki langur tími þar til laus var íbúð sem við Sigga gátum fengið. Sigga var komin með vinnu fyrir tilstilli hennar og þegar mig vantaði sumarvinnu hittist svo á að Bubbi bróðir hennar þekkti til á góðum stað, – og ég var ráðinn. Ekkert af þessu vissi ég fyrr en löngu síðar. Það gat reyndar gerst að hún færi fram úr sér og fengi athugasemdir fyrir óbeðinn erindisrekstur. Það truflaði hana ekki, hún hélt sínu striki, kannski rétt fyrst með ósannfærandi lítillæti sem kom fram í orðunum: „Án þess að mér komi það við ...“

Guðfinna Jensdóttir hafði gjarnan mörg járn í eldinum og óumbeðin sinnti hún fjölda þjónustuverkefna samhliða húsmóðurstarfinu og vinnu utan heimilis. Þiggjendur þeirrar þjónustu voru aldraðir foreldar hennar, fjölskyldan öll, vinir og kunningjar, jafnvel nágrannar. Nú heitir þetta allt eitthvað og sumt er kennt í skólum, jafnvel á háskólastigi; leikskólakennsla, heimahjúkrun, viðburðastjórnun, leigumiðlun, atvinnumiðlun, öldrunarþjónusta. Hún hafði góð tök á öllu þessu en krafðist aldrei endurgjalds. Þessi snaggaralega og sívinnandi kona dró saman seglin síðustu árin og þegar æviárin urðu níutíu varð eitthvað undan að láta. Síðustu mánuðirnir voru ekki spennandi, sjón og heyrn farin og fingurnir krepptir og máttvana. Hún var búin að fá nóg og var sátt við að fara. En hún var enn að hugsa um velferð fjölskyldunnar og gaf ordrur fram á síðasta dag.

Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst henni og fengið að vera henni samferða og eiga hana að vinkonu og trúnaðarvini. Hún var drifin áfram af kærleikanum einum saman og tók gjarnan á sig þá skyldu sem ber umbunina í sjálfri sér. Hún lét verkin tala og þoldi ekkert væl. Nú er hún komin á betri staðinn, en ég er alls ekki viss um að hún hafi bankað áður en hún gekk inn.

Hörður Jóhannesson.

Guðfinna Jensdóttir var ekki bara amma mín heldur ein af mínum nánustu vinkonum. Afi minn, Hjalti Ágústsson, lést þegar ég var tveggja ára og því man ég ekki eftir þeim tíma þegar amma og afi voru eitt. Systkini mín hafa ætíð talað fallega um tímann sem þau áttu með ömmu og afa í Skerjó og ekki laust við að ég hafi verið afbrýðisöm að missa af þeim tíma. Ég man fyrst eftir ömmu þar sem hún bjó á Kaplaskjólsveginum, það er mér minnisstætt hvað allt var fínt hjá ömmu. Hún var fyrirmyndarhúsfreyja og höfðingi heim að sækja. Til að byrja með var samband okkar ömmu fremur venjulegt, þetta týpíska samband milli ömmu og ömmustelpu, ég fór samferða foreldrum mínum í reglulegar heimsóknir, dekruð á jólum og afmælum og ég tók henni eflaust sem sjálfsögðum hlut sem átti síðar eftir að breytast. Á táningsárum vann ég við umönnun eldri borgara og varði ég miklum tíma með áhugaverðu fólki á aldur við ömmu mína. Ég fann hversu gaman ég hafði af því að kynnast því, sem fékk mig til þess að hugsa af hverju ég nýtti ekki tímann til þess að kynnast ömmu minni betur. Á þessum árum fór ég að heimsækja ömmu Finnu á eigin forsendum. Ég sótti í félagsskap hennar og hún sóttist eftir mínum. Þegar ég fékk loks bílpróf fóru hlutirnir að gerast hjá okkur ömmu. Við áttum vikuleg stefnumót, stundum oftar og brölluðum ýmislegt saman, allt milli himins og jarðar. Okkar helsta áhugamál var að kíkja í IKEA sem varð til þess að vinir mínir sumir þekktu hana undir nafninu „amma Ikea“. Fljótlega eftir að ég fékk bílpróf hætti amma að keyra og seldi mér bílinn sinn, gylltan Ford Focus innfluttan frá Bandaríkjunum, eðalvagn í hennar augum. Það kom sér afar vel fyrir ömmu að ég tæki við bílnum og bílnúmerinu þar sem hún hafði geymt bláa miðann sem veitti henni leyfi til þess að leggja í stæði fyrir hreyfihamlaða og var vön að taka hann með sér í þau skipti sem við fórum saman á bílnum. Amma var algjör uppreisnarseggur, hún gerði það sem henni sýndist og fannst það ekkert tiltökumál. Gott dæmi er þegar við fórum í fyrstu Ikea-ferðina og amma fékk sér smørrebrød og hvítvín, sem átti eftir að verða hennar fasta pöntun, og þegar við komum að kassanum bað afgreiðslustúlkan ömmu vinsamlegast um að skrúfa tappann af og skilja hann eftir því það væri bannað að taka flöskur með sér út af veitingastaðnum. Ég hafði aldrei séð ömmu eins hlessa og ég get sagt ykkur að þetta kom aldrei fyrir aftur. Eftir þetta var amma alltaf með aukatappa í veskinu. Hún bað okkur barnabörnin eitt sinn að skila náttkjól sem hún hafði fengið í jólagjöf, hún var ekki ánægð með hann, hafði prófað að sofa í honum og sett hann í þvottavél. Hún var ekki viss úr hvaða búð hann var en bað okkur að reyna að skila honum bara einhvers staðar. Já, svona var amma. Ég hef lengi kviðið þeim degi er ég myndi þurfa að kveðja ömmu í hinsta skipti en í sannleika sagt er ég meira þakklát en sár. Ég er þakklát fyrir allan þann tíma sem við fengum saman, þakklát fyrir það að hún hafi leitað til mín og ég getað verið til staðar fyrir hana. Ég er þakklát fyrir Spánarferðina sem hún bauð mér í, það er minning sem ég mun varðveita í hjartanu um ókomna tíð. Takk fyrir allt, elsku amma, ég sakna þín og við sjáumst vonandi síðar.

Selma Harðardóttir.

Þegar ég var barn þá var ég mikið heima hjá ömmu og afa í Skerjó. Það var mikill samgangur á milli fjölskyldu minnar, systranna og fjölskyldna þeirra. Oftar en ekki fylltist húsið þeirra ömmu og afa um helgar.

Ég á sérstaklega góða minningu frá Skerjó þegar ég var á aldrinum 12-14 ára en þá heimsótti ég þau oft og gisti. Venjan var sú að ég tók strætisvagn númer 5 frá Sunnutorgi og sat sultuslök í vagninum alla leið á endastöð en húsið þeirra ömmu og afa var fáeina metra frá.

Þar sem þessar næturheimsóknir mínar voru alltaf um helgar var viljandi vakað lengi fram eftir vegna þess að amma og afi voru með Stöð 2 sem þá var ekki á mínu heimili.

Þegar kvölddagskráin hófst vorum við afi búin að koma okkur fyrir hvort í sínum leðurstólnum og amma lá undir teppi í sófanum, öll tilbúin í sjónvarpsgláp kvöldsins enda hvorki meira né minna en þrjár kvikmyndir fram undan. En elsku amma var varla lögst niður þegar hún byrjaði að dotta yfir fyrstu kvikmyndinni. Á milli þess sem hún dottaði og vakti yfir kvikmyndunum vildi hún ólm alltaf rifja upp söguþráðinn því hún vildi alls ekki missa af neinu.

Söguþræðirnir voru nokkrum sinnum rifjaðir upp en þegar hún fór fram á upprifjun á kvikmynd sem var löngu búin og við afi langt komin með þá þriðju þá fannst henni vera kominn tími á að fara inn í rúm.

Það var svo notaleg stund að horfa á sjónvarpið með afa fram yfir miðnætti, stundum langt fram á nótt og með ömmu hrjótandi í sófanum.

Eftir nokkurra klukkustunda svefn var ég alltaf vakin klukkan sjö því þá fórum við öll saman í Vesturbæjarlaugina þar sem þau voru fastagestir alla morgna. Ég man enn í dag hvað mér leið alltaf vel að vakna snemma, staulast út í bíl, en þá áttu þau bláan Ford Escort, verandi mjög syfjuð en samt svo tilbúin í heita pottinn með gamla fólkinu. Þegar við komum heim var best í heimi fyrir unglinginn mig að skríða aftur upp í rúm og sofa til hádegis.

Þessar minningar eru mér ómetanlegar og dýrmætar þótt mjög langt sé um liðið.

Ég heimsótti ömmu á sunnudeginum fyrir andlát hennar en ég átti ekki von á því að sú heimsókn yrði mín síðasta. Þegar ég stóð í dyragættinni nýbúin að kyssa hana á ennið þakkaði hún mér fyrir komuna og sagði við mig:

Þú ert góð stelpa.

Elsku amma Finna, takk fyrir samfylgdina og takk fyrir að vera amma mín.

Þitt barnabarn,

Lára Harðardóttir.

Amma Finna, það veitir mér hlýju bara að skrifa nafnið þitt eitt og sér. Cocoa Puffs, Bold and the Beautiful, íslenskar pönnukökur og spila Ólsen-ólsen langt fram á nótt er eitthvað sem kemur strax upp í hugann. Þú varst naglinn sem vaknaði klukkan sex á morgnana til að draga mig, barnið, í Salalaugina í Kópavogi þegar ég var í pössun.

Fyndið var þegar nágranni hafði kvartað í bréfi undan því hvað þú kveiktir snemma á útvarpinu og hafðir það hátt stillt. Svo seinna meir þegar ég var með læti þá fórum við að hlæja og töluðum um það að við ættum von á nýju kvörtunarbréfi frá grannanum.

Húmorinn var það sem einkenndi þig. Öllu var snúið upp í grín, bæði góðu og slæmu. Stundum upplifði maður sig hreinlega vera á uppistandssýningu þegar maður umgekkst þig, svo fyndin varstu og var ég alltaf spennt að segja einhverjum frá því fyndna sem amma mín hefði sagt um daginn.

Ég mun sakna þín og finna fyrir tómleika að hafa þig ekki hér. Húmorinn sem þú kenndir mér og þú sjálf sem manneskja verður þó alltaf í hjarta mér.

Hvíldu í friði, elsku amma Finna.

Signý Ósk Sigurðardóttir.

Fyrrverandi tengdamóðir mín, móðir barnsmóður minnar og fyrrverandi eiginkonu, Sólveigar Hjaltadóttur, er látin eftir erfið veikindi.

Guðfinna hefur ávallt verið mér kær, ekki einungis meðan á hjónabandi okkar Sólveigar stóð heldur einnig í þau tuttugu ár sem liðu eftir að leiðir okkar Sólvegar skildi.

Guðfinna var einstaklega skapgóð, skemmtileg og með sérlega ríkulegt skopskyn eins og hún á reyndar ættir til.

Það er til marks um það hversu samband okkar Guðfinnu var gott að nokkrum árum eftir að við Sólveig skildum prjónaði Guðfinna lopapeysu á son minn sem ég eignaðist með núverandi eiginkonu minni. Tók hún þeim syni mínum ávallt vel og lýsir það hennar jákvæða hugarfari í okkar garð.

Öll þau þrjátíu ár sem við Guðfinna þekktumst var það líka vaninn að ég færði henni vindlinga í hvert sinn sem ég kom frá útlöndum, með því gafst okkur tækifæri til að hittast þegar ég var að færa henni vindlingana. Þá var rætt saman, horft á veröldina og það sem hún hefur að geyma, oftar en ekki í glettnu ljósi.

Stundum fengum við okkur jafnvel líka Genever í kók saman... en þó bara í laumi og allt í hófi.

Guðfinna var elskuð af börnum okkar Sólveigar, Birkis Karls og Signýjar Óskar og kom hún töluvert að uppeldi þeirra. Að því munu þau alltaf búa.

Síðustu mánuði hef ég ekki haft tök á að heimsækja hana vegna heimsóknartakmarkana. En þeir sem gátu heimsótt hana tjáðu mér að skopskyni hennar hefði verið við brugðið fram á síðustu stundu. Kemur það ekki á óvart.

Ég þakka Guðfinnu fyrir samfylgdina, hún gaf mér dóttur sína Sólveigu sem gaf mér góða tíma og einstaklega vel gerð börn, barnabörn Guðfinnu. Takk fyrir það og allar skemmtilegu stundirnar okkar, mín kæra Guðfinna.

Sigurður Bragi

Guðmundsson.

Minningarnar eru óteljandi frá því að ég var lítil stelpa þegar amma og afi áttu heima í Skerjafirðinum. Það var alltaf spennandi að þvælast þarna um, stela rabarbara, hjálpa ömmu í þvottahúsinu þó svo að hún hafi kannski ekkert endilega verið svo hrifin af þeirri hjálp og fá svo pönnsur. Hún var snillingur í pönnsubakstri og bakaði fyrir öll tilefni. Það eru þessir litlu hlutir sem verða að hlýrri minningu eins og t.d. koddarnir og teppið sem hún var með í aftursætinu í bílnum sínum svo okkur yrði ekki kalt í bílnum. Það mátti aldrei neinum verða kalt og allt til síðasta dags spurði hún gjarnan hvort maður væri ekki örugglega með húfu eða trefil ef henni fannst kalt úti. Það er mér mjög minnisstætt þegar við Guffi frændi fengum að gista hjá henni þegar hún bjó á Kaplaskjólsvegi. Hún hefur eflaust verið komin með alveg nóg af okkur og sendi okkur út í búð að kaupa RC-Cola. Við vissum ekkert hvar búðin var, enda nýtt hverfi og ráfuðum um hverfið í dágóðan tíma áður en við fundum búðina. Ég hugsa að það hafi akkúrat verið planið hjá henni. Amma var hlý og við áttum sterkt og gott samband. Hún heimsótti mig nokkrum sinnum út þegar ég bjó erlendis og við vorum alltaf í góðu símasambandi. Hún elskaði að leita uppi góða „díla“ og það var gaman að fá hana til okkar þar sem ég, mamma og amma þræddum saman markaði og búðir og settumst svo niður í mat og drykk. Ég hlakkaði til að mynda aftur þetta samband við hana þegar ég flutti heim og leyfa dætrum mínum að kynnast henni betur, en þá var hún komin á Sunnuhlíð þar sem hlutirnir tóku aðeins að breytast. Við vorum samt duglegar að fara saman í IKEA en hún elskaði að borða þar og fá sér hvítvín með, henni fannst þetta snilldarkonsept. Ég er þakklát fyrir góðar stundir á þessu ári og hún hélt í húmorinn alveg fram á síðasta dag.

Guð geymi þig, elsku besta amma mín, og ég veit að þú ert á góðum stað þar sem þér líður betur og þið afi passið vel upp á hvort annað.

Þín

Guðfinna.