Lending Í frumvarpinu eru m.a. lagðar til verulegar breytingar á skipan stjórnunar og eftirlits á sviði flugmála frá gildandi lögum.
Lending Í frumvarpinu eru m.a. lagðar til verulegar breytingar á skipan stjórnunar og eftirlits á sviði flugmála frá gildandi lögum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Fjölmargar athugasemdir og þung gagnrýni kemur fram í umsögn Isavia ohf. við frumvarp samgönguráðherra til nýrra laga um loftferðir, sem lagt hefur verið fram á Alþingi.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Fjölmargar athugasemdir og þung gagnrýni kemur fram í umsögn Isavia ohf. við frumvarp samgönguráðherra til nýrra laga um loftferðir, sem lagt hefur verið fram á Alþingi. „Eins og frumvarpið lítur út er vegið verulega að hagsmunum félagins og dótturfélaga þess. Breytingar sem af því leiða munu jafnframt hafa neikvæð áhrif á notendur og samkeppnishæfni Keflavíkurflugvallar sérstaklega. Að mati félagsins er frumvarpið ekki nægjanlega þroskað og kallar á að það verði tekið til nýrrar skoðunar og yfirferð með hagaðilum,“ segir í umsögn Karls Alvarssonar, yfirlögfræðings Isavia.

Í ítarlegri umfjöllun er sjónum ekki síst beint að tillögum um niðurfellingu lögveðs vegna notendagjalda flugvalla- og flugleiðsögu og breytinga sem lagt er til að gerðar verði á gildandi ákvæðum um stöðvunarheimild loftfara á flugvöllum þar til gjöld eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu, en Isavia telur breytingarnar skaða hagsmuni sína og flugrekenda verulega.

Frumvarpið er viðamikið, alls 276 greinar og 273 blaðsíður að lengd með greinargerð og skýringum. Lagðar eru til veigamiklar breytingar frá gildandi lögum og innleiddar EES-gerðir og skuldbindingar alþjóðasamninga í flugmálum.

„Arfavitlaus hugmynd“

Isavia gerir alvarlegar athugasemdir við fyrirætlanir um að fella niður lögveð vegna gjalda flugvalla og flugleiðsögu og um skilyrði afskráningar loftfars. Núverandi ákvæði hafi verið í lögum í 60 ár en 2002 var skerpt á því svo það tók til annarrar starfsemi eiganda eða umráðanda loftfars vegna þeirra breytinga á rekstri flugfélaga að þau áttu í fæstum tilvikum loftfarið sem notað var í rekstrinum heldur leigðu það og áttu í sumum tilvikum ekki eina einustu vél. Þannig urðu til stór leigufélög loftfara, flest staðsett víðs fjarri, sem hafi getað þvegið hendur sínar af skuldbindingum flugrekanda ef í óefni fór. Margoft hafi reynt á beitingu þessa ákvæðis vegna ógreiddra gjalda eða vanskila. Nú sé í frumvarpinu kynnt kyrrsetningarheimild þar sem rekstraraðili flugvallar, flugleiðsöguþjónustu og Samgöngustofa geta lagt fram beiðni um kyrrsetningu loftfars til sýslumanns uns lögmælt gjöld eru greidd eða trygging sett. Nálgunin sé hins vegar algerlega ófullnægjandi og ónothæf. Er það sögð „arfavitlaus hugmynd að leita þurfi til sýslumanns um kyrrsetningu enda verður loftfarið farið áður en sýslumaður svarar símanum“. Með þessu sé rekstraraðila flugvallar gert ókleift að tryggja greiðslu gjalda t.d. vegna loftfara sem hafa hér stundarviðkomu. „Loftfar er mjög hreyfanleg eign og flugrekandi eða leigusali mun ekki haga ákvörðunum sínum í takt við opnunartíma á skrifstofu sýslumanns þegar um vanskil er að ræða. Sömu sögu er að segja um flugstjóra loftfars sem ekki hefur greitt gjald vegna notendagjaldskrár, hann mun ekki bíða eftir því að skrifstofa sýslumanns verði opnuð á mánudagsmorgni eða að röðin komi að rekstraraðila flugvallar í símanum hjá sýslumanni. Hann verður floginn í burtu og kemur aldrei aftur eða ef hann kemur aftur þá þarf að hefja ferlið upp á nýtt og snúa sér aftur til sýslumanns og þá verður loftfarið aftur farið þegar skrifstofa sýslumanns er opnuð,“ segir meðal annars í umsögn Isavia.

Meiri áhætta í rekstri

Í gagnrýni Isavia á áformin um að fella niður stöðvunarheimild gildandi laga segir að í staðinn eigi að koma „ónýt kyrrsetningarheimild“. Jafnframt verði lögveð vegna gjalda fellt út. Þetta muni leiða til þess að stórauknar líkur verði á því að ekki takist að innheimta gjöld notenda. Þetta leiði til meiri áhættu í rekstri og taka þurfi tillit til þess í áhættuálagi á notendagjöld. Jafnframt muni töpuð notendagjöld leggjast á þá notendur sem fyrir eru. „Ljóst er að nái þessi áform fram að ganga mun það leiða til umtalsverðs tjóns fyrir félagið og þá notendur Keflavíkurflugvallar sem leggja sig fram við að standa skil á greiðslum notendagjalda.“ Gerðar eru athugasemdir við bólginn frumvarpstexta sem sé ætlað að fanga öll tilvik sem geti fallið undir lögin og að loftferðalögum sé breytt í eina stóra reglugerð.