Um helgina fjölgaði þeim sem greindust með Covid og spurður hvort von væri á hertum aðgerðum svaraði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, að hann væri með hönd á byssunni en ekki búinn að draga hana upp.

Um helgina fjölgaði þeim sem greindust með Covid og spurður hvort von væri á hertum aðgerðum svaraði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, að hann væri með hönd á byssunni en ekki búinn að draga hana upp. Helgi Ingólfsson orti á Boðnarmiði:

Um kúrekanna byggð og ból

beitt skal pestin hörku' á ný.

Er aðalstrætið signir sól

sériff tekur gikkinn í.

Síðan bætti Helgi við:

Ef helst sú pörupilta vá

pestin verður fljót inn,

og skrambi miklu skiptir þá

að skjóta sig ekki' í fótinn.

„Vorbrigði“ segir Ólafur Stefánsson og yrkir:

Það var um páska að pikkað fannst mér og barið,

í prýðisveðri, rólegt var skýjafarið.

Svo rauk hann upp, rétt svo að næmi ég svarið:

hér ráfaði vorið um garða, – búið og

farið.

Indriða á Fjalli þykir vora seint:

Ekki gengur allt í haginn.

Alveg komið nóg.

Sumarmála miðjan daginn

mokar niður snjó.

Guðmundur Arnfinnsson yrkir og kallar „Sjálfstæðingur“:

Bjartur var baráttuglaður

og blés á allt samvinnuþvaður,

ei studdist við staf

og standandi svaf,

enda sannur sjálfstæðismaður.

Það var í fréttum RÚV að héraðsdómur Reykjaness hefði gert ræktanda að afhenda viðskiptavini sínum hund sem hann var með í pössun. Halldór Guðlaugsson orti:

Ákaft skelfur aftur grund

er það núna vegna þess

að konur berjast hart um hund

í Héraðsdómi Reykjaness.

Friðrik Steingrímsson gefur holl ráð:

Ýmsra líf er ansi hart

oft þó hrjái saklaus pest,

þegar skitu verður vart

vinsamlegast farð'í test.

Áætlanir um að stofna „ofurdeild“ knattspyrnuliða hafa vakið sterk viðbrögð. Kristján H. Theódórsson tekur djúpt í árinni:

Auraglýja og græðgin hörð,

gjörðum þeirra ræður.

„Ofurdeild“ um alla jörð,

aðeins nokkrar hræður.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is