Sjaldgæft Jonny Evans, annar frá hægri, skoraði sitt fyrsta mark í vetur.
Sjaldgæft Jonny Evans, annar frá hægri, skoraði sitt fyrsta mark í vetur. — AFP
Leicester nældi í langþráð og mikilvæg þrjú stig í baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð er liðið lagði West Brom að velli, 3:0, í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.

Leicester nældi í langþráð og mikilvæg þrjú stig í baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð er liðið lagði West Brom að velli, 3:0, í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi. Leicester er í þriðja sæti, nú með fjögurra stiga forystu á Chelsea og West Ham í fjórða og fimmta sæti. Sex umferðir eru eftir af deildinni.

Leicester tryggði sér sinn fyrsta úrslitaleik í enska bikarnum síðan 1969 um síðustu helgi er liðið vann sigur á Southampton í undanúrslitunum á Wembley en þar áður voru lærisveinar Brendans Rodgers búnir að tapa tveimur deildarleikjum í röð. Þau töp, gegn Manchester City og West Ham, hafa eflaust minnt stuðningsmenn Leicester á hvað gerðist á síðustu leiktíð en þá missti liðið af Meistaradeildarsæti í lokaumferðinni eftir að hafa verið meðal efstu liða allan veturinn. Jamie Vardy og félagar sýndu þó í gær að þeir ætla að forðast endurtekningu á slíku í sumar. Vardy kom heimamönnum yfir snemma leiks og mörk frá Jonny Evans og Kelechi Iheanacho innsigluðu svo öruggan sigur gegn lánlausu liði West Brom sem er að öllum líkindum á leiðinni niður.

West Brom var reyndar búið að vinna tvo í röð, gegn Chelsea og Southampton, fyrir leikinn í gærkvöldi. Þrátt fyrir það er liðið í 19. sæti, átta stigum frá Burnley og öruggu sæti þegar aðeins sex umferðir eru eftir. Sam Allardyce og hans menn þurfa á litlu kraftaverki að halda í þeim leikjum sem eftir eru.