[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Atli Vigfússon Laxamýri „Ég var lítill þegar afi fór að bjóða mér með á dorg og mér finnst mjög gaman að fara og veiða. Það er ákveðin ró í því að sitja úti á ísnum þegar gott er veður og njóta náttúrunnar.

Sviðsljós

Atli Vigfússon

Laxamýri

„Ég var lítill þegar afi fór að bjóða mér með á dorg og mér finnst mjög gaman að fara og veiða. Það er ákveðin ró í því að sitja úti á ísnum þegar gott er veður og njóta náttúrunnar.“

Þetta segir Sigtryggur Andri Vagnson frá Hriflu í Þingeyjarsveit en hann fór nokkrum sinnum í vetur á Vestmannsvatn ásamt fleirum og stundum var aflinn nokkuð góður.

„Það er auðvitað alltaf skemmtilegra að verða var en það er ekki alltaf sem veiðist. Mest fékk ég fimm silunga en annars svona einn til tvo. Þá fór ég líka að dorga á Ljósavatni en nú er ísinn að gefa eftir svo veiðitímabilið er að verða búið,“ segir Sigtryggur og bætir við að það þurfi ákveðna þolinmæði í þetta en það sé bara gaman.

Eldaður sama daginn

Silungurinn sem hann veiðir er notaður á heimilinu og oftast er hann eldaður sama daginn til þess að hann sé alveg nýr. Hann er grillaður, soðinn eða steiktur en einstaka sinnum flakaður og frystur til þess að geyma til betri tíma.

Sigtryggur segist eingöngu nota hvítmaðk til beitu en maðkinn fær hann hjá dorgfélaga sínum, Atla Sigurðssyni á Ingjaldsstöðum, sem kann að leggja í maðkaveitu. Hann notar margt lífrænt sem fellur til og má þar m.a. nefna silungsslóg, sláturúrgang og margt fleira.

Fallegar bleikjur

Að sögn reyndra veiðimanna sem stundað hafa dorgveiði á Vestmannsvatni í áratugi hefur oft verið meiri veiði á dorginu en í vetur. Það var á þeim tíma sem vatnið var ofsetið og þá var silungurinn smærri. Í fyrravetur var ekki hægt að stunda veiði á vatninu í gegnum ís vegna mikillar ótíðar sem stóð í marga mánuði og aldrei gaf á dorg.

Í vetur brá hins vegar til betri tíðar og nú fyrri partinn í apríl var kuldatíð, ekki miklar úrkomur og oft mikið frost, sem varð til þess að ísinn hélst lengur en búast hefði mátt við. Einn bóndi fór nú í vikunni og fékk fimm fallegar bleikjur sem hann sagði að hefðu verið feitar. Gott jafnvægi er í vatninu og silungurinn hefur stækkað með árunum.

Þakklátur afa sínum

Á dorginu á Vestmannsvatni eru oft að veiðast nokkur hundruð silungar og sagt er að silungurinn sé bestur á bragðið þegar farið er beint heim og hann settur í pottinn spriklandi af dorginu. Ekki sé til betri silungur en það. Sumir segja að best sé að geyma soðið og úr því má seinna búa til silungssúpu með sveskjum og rúsínum og sjóða hausana í súpunni. Þannig kemur gott bragð af beinum og brjóski.

Dorgveiði er stunduð á mörgum vötnum í Suður-Þingeyjarsýslu og má þar nefna Ísólfsvatn, Kringluvatn, Mývatn, Langavatn, Sandvatn og fleiri vötn fyrir utan Ljósavatn og Vestmannsvatn.

Sigtryggur í Hriflu kann vel að meta þetta vinsæla vetrarsport og er þakklátur afa sínum og nafna fyrir að hafa tekið sig með, snáðann, og þannig fékk hann áhugann á þessari ánægjulegu útivist.

Tilheyrir nokkrum jörðum

Vestmannsvatn er stöðuvatn á mörkum Aðaldals og Reykjadals í S-Þing. Það er fremur grunnt og er 2,38 ferkílómetrar að flatarmáli. Það er gott veiðivatn með víðivöxnum hólmum og á bökkum þess eru staraflögur nema að austan. Þar er allbrött hlíð sem nefnist Vatnshlíð og er skógi vaxin. Þar er mikil berjaspretta.

Í Vestmannsvatn fellur Reykjadalsá en afrennsli þess er Eyvindarlækur sem fellur í Laxá í Aðaldal. Vestmannsvatn tilheyrir nokkrum jörðum og má þar nefna Fagranes, Fagraneskot, Helgastaði, Hólkot, Höskuldsstaði og Pálmholt.