Loftslagsmál Frá leiðtogafundinum sem um 40 manns tóku þátt í.
Loftslagsmál Frá leiðtogafundinum sem um 40 manns tóku þátt í. — AFP
„Kostnaður vegna aðgerðaleysis hækkar og hækkar. Bandaríkin bíða ekki lengur. Við einsetjum okkur að taka í taumana,“ sagði Joe Biden Bandaríkjaforseti er hann setti leiðtogafund um loftslagsmál sem fram fór sem fjarfundur á netinu.

„Kostnaður vegna aðgerðaleysis hækkar og hækkar. Bandaríkin bíða ekki lengur. Við einsetjum okkur að taka í taumana,“ sagði Joe Biden Bandaríkjaforseti er hann setti leiðtogafund um loftslagsmál sem fram fór sem fjarfundur á netinu.

Um 40 leiðtogar munu koma við sögu en samkvæmt áætlunum sem Biden kynnti munu Bandaríkjamenn tæplega helminga losun skaðlegra lofttegunda fram til 2030.

Biden sagði að glíman við loftslagsbreytingar væri mikilvægt tækifæri til að skapa ný störf og draga þar með úr atvinnuleysi. „Með því að finna þessu fólki atvinnu er það markmið Bandaríkjanna að minnka gróðurhúsaloft um helming fyrir lok áratugarins,“ sagði Biden.

Markmið hans er að gera Bandaríkin að nýju forysturíki í loftslagsmálum að loknum valdatíma Donalds Trumps sem forseta en hann dró Bandaríkin út úr loftslagssamningunum 2015 sem kenndir eru við París. Var það fyrsta embættisverk Bidens að fá aðild að því aftur.

„Þessi áratugur er afgerandi. Þau skref sem við stígum nú og í Glasgow munu skila jörðinni árangri. Tækifærið er alveg sérstakt,“ sagði Biden. Næsti loftslagsfundur SÞ fer fram í Glasgow í Skotlandi síðar í ár.

Leiðtogar hvattir áfram

Fyrir leiðtogafundinn höfðu leiðtogar heims verið hvattir til að sýna meiri metnað, ekki síst ríki sem þótt hafa drollað í loftslagsmálunum. Meðal fundarmanna á hinum tveggja daga netfundi eru leiðtogar Kína, Bretlands, Indlands, Kanada, Frakklands, Þýskalands, Suður-Afríku, Bangladesh, Indónesíu og Rússlands. agas@mbl.is