Steinþór Kristjánsson fæddist 18. janúar 1931 í Geirakoti, Sandvíkurhreppi. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Fossheimum á Selfossi 13. apríl 2021.

Foreldrar hans voru Guðmunda Þóra Stefánsdóttir, húsfreyja í Geirakoti, f. 1.1. 1901, d. 5.12. 1995, og Kristján Þórður Sveinsson, bóndi í Geirakoti, f. 5.9. 1891, d. 2.8. 1990.

Systkini Steinþórs eru: Sveinn, f. 17.4. 1925, d. 21.10. 2015, maki Aðalheiður Edilonsdóttir, f. 26.9. 1933; Katrín, f. 14.5. 1926, maki Gudmund Aagestad, f. 7.6. 1928, d. 13.10. 2017; Stefán, f. 27.4. 1927, d. 22.5. 1970, maki Anna Borg, f. 20.10. 1933, d. 11.11. 2018; Sigrún, f. 24.1. 1929, maki Gunnar Marel Kristmundsson, f. 5.11. 1933; Ólafur, f. 26.2. 1949, maki María Ingibjörg Hauksdóttir, f. 16.5. 1953.

Steinþór ólst upp í Geirakoti og byggði síðan hús við Fossheiði 3 á Selfossi og bjó þar allt þar til hann flutti á hjúkrunarheimilið Fossheima á Selfossi árið 2014. Hann vann öll venjuleg sveitastörf og var á vertíð fyrst á Stokkseyri og síðar í Njarðvíkum og Þorlákshöfn. Eftir það eignaðist hann vörubíl og vann sjálfstætt sem vörubílstjóri alla starfsævina. Steinþór hafði einlægan áhuga á tónlist, söng í kórum og sótti tónleika og söngskemmtanir þegar færi gafst. Starfsfólki Fossheima á Selfossi eru færðar sérstakar þakkir fyrir einstaka umönnun og hlýju í hans garð.

Útför hans fer fram frá Selfosskirkju í dag, 23. apríl 2021, klukkan 13.30. Streymt verður á vef Selfosskirkju:

https://www.selfosskirkja.is

Streymishlekk má nálgast á: https://www.mbl.is/andlat/

Það má segja að staða mín í systkinahópnum sé nokkuð sérstök. Fimm eldri systkinin fæddust í þéttri röð, elsti bróðirinn Sveinn er fæddur 1925, síðan hin nánast árlega og Steinþór rak lestina 1931. Síðan liðu 18 ár þar til ég örverpið leit dagsins ljós. Þegar Steini bróðir fæddist voru foreldrar okkar nýfluttir ofan úr Gnúpverjahreppi og byrjuð búskap í Geirakoti sem þá var leigujörð. Húsakynni þættu ekki beysin nú á dögum, ekkert rafmagn, enginn sími og vatn sótt í brunn. Þetta var það Ísland sem Steini fæddist inn í.

Þegar ég komst á legg var þetta svo gjörbreytt. Komið var nýtt íbúðarhús og myndarlegur bústofn og Steini bróðir fyrir löngu útskrifaður úr barnaskólanum á Selfossi. Hann fékk snemma áhuga á vélum og þegar faðir okkar keypti dráttarvél var strákurinn auðvitað látinn vinna á honum og fór á milli bæja með herfi og plóg og braut land til ræktunar fyrir bændur. Steini fór ungur til sjós, fyrst á Stokkseyri og síðan hjá frændfólki okkar í Njarðvíkum.

Fljótlega upp úr þessu keypti Steini sér sinn fyrsta vörubíl. Hann festi sig í sessi í bransanum og kom sér upp nýrri og stærri bílum. Þegar ég fékk þá hugmynd tvítugur að aldri að byrja búskap í Geirakoti og byggja upp útihús, tók Steini það að sér óbeðinn að gerast byggingarstjóri enda gerði hann sér grein fyrir því að ég væri vart marktækur sökum æsku að redda því sem með þyrfti eða að ég yfirhöfuð hefði verksvit, nýkominn úr skóla.

Kórastarf var líf og yndi bróður míns. Ég komst að því að ávallt var vænlegt til að létta lund Steina þegar þungbær ellin sótti á að rifja upp ferð hans til Ísraels með Kirkjukór Keflavíkur. Þegar Steini komst á eftirlaunaaldur seldi hann vörubílinn og önnur atvinnutæki. Hann átti að baki farsælan feril á þjóðvegum landsins sem má kallast blessun því eknir kílómetrar eru örugglega taldir í miljónum. Steini var ekki fjölskyldumaður og bjó einn í húsi sínu við Fossheiði á Selfossi. Hann átti stóran frændgarð og minnast systkinabörnin hans sem frændans sem oft gaf veglegar og óvæntar gjafir. Sérstakt samband varð snemma milli Steina og systurdóttur hans Guðmundu. Stelpan var snemma frökk í tilsvörum og framgöngu og þróaðist það með tímanum í að frænka varð sérfræðingur í að eiga samskipti við Steina á léttum og góðum nótum. Þegar Steini missti heilsuna fyrir rúmum 10 árum var það Guðmunda sem studdi hann best og veitti honum fylgd gegnum heilbrigðiskerfið sem er umhverfi sem er einhleypum körlum sem sjaldan hafa kennt sér meins frekar framandi. Síðustu árin var Steini á hjúkrunarheimilinu Fossheimum. Þar var hann í góðum og öruggum höndum starfsliðsins sem af fagmennsku gengur til þeirra vandasömu verka að gera vistmönnum dvölina sem besta. Þegar ég leit inn til Steina á Fossheima undanfarin ár dáðist ég ævinlega að því hvað þessar starfsstúlkur komu fram við bróður minn af mikilli ástúð, natni og léttleika. Hafið innilegar þakkir fyrir.

Meira á www.mbl.is/andlat

Ólafur Kristjánsson.

Steini í Geirakoti er látinn, níræður að aldri. Hann var farinn að bíða eftir kallinu, því hann sagði við mig eitt sinn: Drottinn vill mig ekki. Steini fæddist í Geirakoti og stundaði þar almenna sveitavinnu á yngri árum. Hann reri nokkrar vertíðir frá Þorlákshöfn. Eftir að faðir hans keypti öflugan traktor, International W4, vann hann að jarðabótum víða um sveitir. Snemma keypti hann sér vörubíl og varð það hans ævistarf að gera út vinnuvélar og vörubíla.

Hann var mjög tónelskur og söng með ýmsum kórum á Selfossi. Hann hafði sínar skoðanir á hlutunum og var ekki alltaf sammála félögum sínum í kórastarfinu.

Þegar Steini var ungur maður keypti hann sér útvarpsgrammófón. Plötur með klassískri tónlist og óperum, auk nýju stu íslensku tónlistarinnar. Hann hvatti okkur krakkana til að hlusta á þessa tónlist. Og lagði þar með sitt á vogarskálarnar í uppeldi okkar.

Það var oft kátt í kotinu, t.d. þegar þeir bræður Steini og Stebbi komu úr siglingu með Gullfossi. Allir fengu gjafir og stór mackintoshdós stóð á stofuborðinu. Þá voru sko jólin. Já, það eru svo margar góðar minningar frá þessum tíma.

Þegar ég var 18 ára bað Steini mig að keyra sig og nokkra félaga sína á ball á Hótel Sögu, Bændahöllinni. Þegar þangað var komið var biðröð langt út á götu svo bændasynirnir komust ekki inn. Og þótti súrt í broti. Það var ákveðið að fara eitthvað annað, en það var sama hvert farið var; alls staðar var fullt út úr dyrum. Þá lagði Steini til að gera bara gott úr hlutunum, fara aftur austur fyrir fjall og fannst þetta hafa verið hinn ágætasti bíltúr.

Hann ferðaðist mikið bæði innanlands og utan. Má segja að hann hafi lifað lífinu lifandi.

Blessuð sé minning Steina frænda.

Stefán Sigurjónsson.

Mig langar að minnast Steinþórs Kristjánssonar en ég var svo heppin að fá Steina frænda í líf mitt þegar ég var um 7 ára eða þegar mamma og Óli stjúpi minn fóru að rugla saman reytum. Mér fannst alltaf einhver ævintýraljómi yfir Steina þegar ég var að alast upp. Hann bjó einn í flottu húsi sem í var arinstæði, hann átti mjög flottan silfurlitaðan Benz sem var flottasti bíll sem ég hafi séð. Svo átti hann vörubíl og pælator og fór til Kanaríeyja á hverju ári sem mér þótti mjög merkilegt á þeim tíma. Það var alltaf gaman þegar Steini kom heim úr slíkum ferðum því oftast kom einhver glaðningur með handa okkur systrum í Geirakoti. Lengi átti ég blævæng sem Steini gaf mér eftir eina Kanaríferðina sem ilmaði dásamlega og var í miklu uppáhaldi.

Steini var mikill kóramaður og söng í mörgum kórum. Ég man að mér þótti alltaf mjög gaman að fara á tónleika þegar Steini var að syngja og líklega á Steini stóran þátt í því hvað ég hef haft gaman af því að hlusta á kórsöng frá því ég var krakki. Það fór þó lítið fyrir kóráhuganum þegar ég var um 16 ára, en þá bauðst Steini eitt sinn til að keyra mig og vinkonu mína til Þorlákshafnar þar sem við vorum á leið á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Á leiðinni fengum við að njóta einhvers stórkostlegs kórs sem Steini spilaði á hæsta styrk alla leiðina. Ég er viss um að honum hefur fundist hann mjög fyndinn þarna með gelgjurnar í bílnum en okkur þótti þessi ferð mjög löng og höfðum ekki gaman af þessu tónlistarvali Steina. En þegar ég fór sjálf að syngja með Jórukórnum á Selfossi áttum við oft skemmtilegt spjall um kóra og var hann mjög áhugasamur um lagaval kórsins og kom alltaf á tónleika á meðan ég var í kórnum.

Börnin mín nutu þess líka að eiga Steina frænda að og þótti strákunum mínum mikið til hans koma og fannst alltaf mjög spennandi þegar Steini kom að moka snjó í sveitinni á veturna eða mætti á vorin með áburð á vörubílnum og voru þeir ávallt eins og gráir kettir í kringum hann og oft held ég að Steina hafi þótt nóg um.

Það er gott að ylja sér við minningar um Steina sem bæði gat verið sérvitur karl sem fór svo sannarlega sínar eigin leiðir en á sama tíma húmoristi og góður frændi sem þótti fátt betra en að eiga gott spjall við eldhúsborðið með góðan kaffibolla.

Takk fyrir samfylgdina í gegnum lífið og hvíldu í friði elsku frændi.

Sigurbjörg Harðardóttir.

Elsku Steini frændi.

Eitt sinn færðir þú mér þennan sálm og nú færi ég þér hann, með ósk um góða ferð.

Ég hef augu mín til fjallanna:

Hvaðan kemur mér hjálp?

Hjálp mín kemur frá Drottni,

skapara himins og jarðar.

Hann mun eigi láta fót þinn skriðna,

vörður þinn blundar ekki.

Nei, hann blundar ekki og sefur ekki,

hann, vörður Ísraels.

Drottinn er vörður þinn,

Drottinn skýlir þér,

hann er þér til hægri handar.

Um daga mun sólarhitinn eigi vinna þér mein,

né heldur tunglið um nætur.

Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu,

hann mun vernda sál þína.

Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu

héðan í frá og að eilífu.

(121. Davíðssálmur)

Guðmunda Þóra Björg Ólafsdóttir.

Látinn er á Selfossi Steinþór Kristjánsson vörubílstjóri. Flestir þekktu hann sem Steina í Geirkoti, svo sterkt var hann tengdur heimahögum sínum. Steini hefur verið nærri í lífi mínu allt frá fyrstu tíð því góð vinátta var milli hans og föður míns, sem lést á síðasta ári. Mér er ljúft að minnast góðs vinar með þessum minningarorðum.

Ungur fór ég að fylgja föður mínum í heimsóknir til Steina. Drakk í mig orð karlanna, skraf um vörubílaútgerð, vegagerð, karlakórssöng og vangaveltur um málefni líðandi stundar. Húsið á Fossheiði var ævintýraheimur. Í bílskúrnum voru olíutunnur, tól og tæki og í stofunni bunkar af grammófónplötum. Húsbóndinn sat makindalega í höfðingjastól sínum, sagði frá og kom einatt með innlegg þvert á strauminn. Talaði sér jafnvel þvert um hug til að fá fram ný sjónarmið. Þegar fjör fór að færast í umræðurnar brosti okkar maður. Tilganginum var náð. „Jamm, jahá,“ sagði Steini og brosti. Nærveran var hlý. Í um það bil áratug lögðust ég, faðir minn og Steini í landshornaflakk eina helgi á sumri hverju. Í einum leiðangri arkaði þríeykið frá Kóngsási á Gnúpverjaafrétti fram um heiðar og móa og stigið var þungt til jarðar. Við sáum vatnsúða stíga til himins sem vísaði leiðina fram að gljúfurbarmi Þjórsár þar sem Dynkur, hinn svipsterki foss, blasti við. Að koma á þann stað var einstök upplifun og var oft rifjað upp síðar. Einnig þegar við fórum um Jónsmessuleytið upp á Bolafjall við Djúp um miðja nótt til þess að fylgjast með sólarupprás í Íshafinu. Ég get líka nefnt leiðangur yfir Sprengisand og brölt í svartaþoku í eyðibyggð á Skálum á Langanesi. Allt voru þetta ferðir augnabliksins, sem nú eru mér orðnar dýrmætar minningar.

Draumar fólks eru oft sem endurspeglun af hugsunum þess og daglegu brasi. Þurfa ekki að tákna neitt sérstakt né hafa forspárgildi. Draumfarir geta þó oft verið bráðfyndnar. „Ég var í vegavinnu í alla nótt,“ sagði Steini einhverju sinni í sumarferð, þegar við höfðum legið við næturlangt í gangnamannaskála á reginfjöllum. Gamli vörubílstjórinn sem ók á X-1320 hafði víða farið, keyrt út malarhlöss hér og þar og sagði skemmtilega frá verkum sem sóttu að honum í vöku sem draumi.

Steinþór Kristjánsson hefur nú lagt upp í ferð á ókunnar slóðir. Ég þakka góða samfylgd og votta aðstandendum samhug. Hann Steini í Geirakoti var góður maður.

Sigurður Bogi Sævarsson.