Pálmar Björgvinsson er fæddur í Miðhúsum á Djúpavogi 29. júní 1949 og þar ólst hann upp í stórum systkinahópi. Pálmar lést á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut 3. apríl 2021.

Foreldrar hans voru Halldór Björgvin Ívarsson, f. 18. desember 1904, d. 7. desember 1988, og Þorgerður Pétursdóttir, f. 2. ágúst 1913, d. 3. júlí 1997.

Systkini Pálmars í réttri aldursröð eru:

Una Stefanía, f. 1931, d. 1995, Anna Margrét Björgvinsdóttir, f. 1933, d. 1951, Haukur Björgvinsson, f. 1935, Fjóla Björgvinsdóttir, f. 1937, d. 2017, Ragna Björgvinsdóttir, f. 1938, d. 2018, Berta Björgvinsdóttir, f. 1939, Ívar Björgvinsson, f. 1941, Björk Björgvinsdóttir, f. 1942, d. 2018, Pétur Björgvinsson, f. 1944, Stúlka Björgvinsdóttir, f. 1945, d. 1945, Hrafnhildur Björgvinsdóttir, f. 1947, Anna Margrét Björgvinsdóttir, f. 1951.

Þann 20. maí 1972 kvæntist Pálmar Sigrúnu G. Guðmundsdóttur, f. 1942, frá Stíflu í V-Landeyjum. Foreldrar hennar voru Guðlaug Ingvarsdóttir, f. 1923, d. 1979, frá Stíflu í V-Landeyjum, og Guðmundur Pétursson, f. 1917, d. 2002, frá Hellissandi.

Pálmar og Sigrún eignuðust þrjú börn: Pálmar Ægir, búsettur í Noregi, f. 1972, og er kvæntur Ingibjörgu Jónsdóttur, f. 1972. Börn þeirra eru Jóhann Fannar, f. 1991, barn Jóhanns er Eyþór Atli, f. 2011, Freydís Ösp, f. 1996, og Viktor Daði, f. 2002.

Sigrún Huld, búsett í Þorlákshöfn, f. 1975. Er hún gift Guðmundi Hjartarsyni, f. 1973, börn þeirra eru Eiður Smári, f. 1999, Auðunn Ari, f. 2007, og Eyrún Saldís, f. 2009.

Harpa Lind, f. 1979, d. 2019.

Fyrir átti Sigrún tvo drengi, Jón Magnússon, f. 1960, og Ingvar Oddgeir Magnússon, f. 1963.

Jón er kvæntur Kristínu Önnu Jónsdóttur, f. 1963. Börn þeirra eru Drengur, f. 1984, d. 1984, Anna, f. 1986, Hrefna, f. 1986, barn hennar Baldur, f. 2020, Magnús, f. 1988, börn hans eru Jón Karel, f. 2010, og Rúnar Elí, f. 2013.

Ingvar Oddgeir á þau Sunnu, f. 1981, barn hennar er Jón Guðni, f. 2017, Pétur Inga, f. 1986, Ernu Ósk, f. 1995, börn hennar eru Oliver Líndal, f. 2019, og Darri Líndal, f. 2020, og Helgu Rún, f. 1999.

Ólst Pálmar upp á Djúpavogi í Miðhúsum með foreldrum og systkinum, hann byrjaði ungur að stunda sjómennsku á Djúpavogi þar sem hann reri á bátum frá sínum heimabæ og einnig frá Hornafirði. Um tvítugt lá leið hans til Reykjavíkur.

Árið 1969 kynntist hann Sigrúnu og fóru þau fljótlega að búa saman í Skólagerði. Það var svo 20. maí árið 1972 sem þau gengu í hjónaband og árið 1972 eignuðust þau sitt fyrsta barn, Pálmar Ægi. Árið 1975 fæddist svo Sigrún Huld og árið 1976 keyptu þau sína fyrstu íbúð í Kjarrhólma 18. Harpa Lind fæddist síðan árið 1979 og lá svo leið fjölskyldunnar til Þorlákshafnar í maímánuði árið 1981 þegar þau keyptu í Eyjahrauni. Þá reri Pálmar á báti sem var í eigu Glettings sem var gerður út frá Þorlákshöfn. Það var fátt sem Pálmar gat ekki gert. Hann var listasmiður eins og sést vel á sumarbústað þeirra hjóna sem hann byggði sjálfur árið 1995 en hann er staðsettur í Grímsnesi. Útför hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Elsku hjartans pabbi minn.

Aldrei óraði mig fyrir að þú fengir ekki lengri tíma með okkur. Ég veit að sérhvern dag á ég eftir að hugsa til þín og ég veit líka að elsku Harpa Lind litla systan mín og þitt yngsta barn hefur tekið vel á móti þér.

Ég ætlaði heldur ekki í þetta verkefni sem okkur var falið núna að missa þig frá okkur, eftir mjög snarpa en erfiða baráttu í þínum veikindum, ég sagði við þig þegar við fórum suður til að hitta lækninn þinn fimmtudaginn 25. mars að þetta væri sko verkefni sem við ætluðum að tækla saman. En oftar en ekki ráða örlögin og varstu tekinn allt of fljótt frá okkur en elsku pabbi, það er svo margt sem ég er þakklát fyrir, mest fyrir að hafa átt þig fyrir pabba, svo bestur og blíðastur og líka fyrir hve frábær vinur þú varst, ég gat alltaf leitað til þín og mömmu alveg sama hve málið var smátt eða risastórt, þú varst góður vinur, frábær tengdapabbi og veit ég að Gummi á eftir að sakna þín mikið, þið áttuð ekki sjaldan bátspjall saman, þú sagðir svo oft ef Gummi veit það ekki þá veit það enginn. Ég er þakklát fyrir helgina sem við áttum saman uppi í bústað í mars. Við systkinin vorum svo ótrúlega lánsöm að ferðast mikið með ykkur mömmu hérna innanlands, krúsa um klakann á gulum Bronco með bleika tjaldið, ferðanna sem voru farnar í Miðhús á Djúpavogi til ömmu og afa, hitta Ívar og Pétur bræður þína og fjölskyldurnar þeirra, fara niður í Tríton með afa, rölta fjöruborðið, læra að fleyta kerlingar og sjá aflann hjá Ívari þegar hann kom í land á Möggunni.

Með tárum og trega þarf ég að kveðja þig en efst í huga mér er þakklæti fyrir að hafa átt þig að, eins mikinn klett og þú varst, staðfastur og einlægur, en ég er lánsöm að fá að hafa mömmu hjá okkur.

Þangað til næst, þín dóttir

Sigrún Huld.