Horfinn Veggurinn við Austurstræti víkur fyrir mannlífinu.
Horfinn Veggurinn við Austurstræti víkur fyrir mannlífinu. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sonja Sif Þórólfsdóttir sonja@mbl.is Vegfarendur við Austurvöll hafa eflaust tekið eftir því að hlaðnir veggir við torgið hafa verið teknir niður. Í stað þeirra verður hellulagt og blómabeðum komið fyrir.

Sonja Sif Þórólfsdóttir

sonja@mbl.is

Vegfarendur við Austurvöll hafa eflaust tekið eftir því að hlaðnir veggir við torgið hafa verið teknir niður. Í stað þeirra verður hellulagt og blómabeðum komið fyrir. Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar og staðgengill formanns skipulags- og samgönguráðs, segir að hugmyndin um að opna betur inn á torgið hafi reglulega komið upp og nú hafi hún loksins orðið að veruleika.

Hann segir að upprunalega hafi veggirnir verið hlaðnir til að skýla Austurvelli fyrir umferð bíla í gegnum Vallarstræti. Lokað hefur verið fyrir umferð í gegnum Vallarstræti í áratugi og ekki er stefnt að því að opna fyrir hana aftur. Veggirnir hafa því staðið í ákveðnu tilgangsleysi við torgið lengi.

„Þegar þetta var skoðað fyrir ári síðan komust menn að því að veggurinn var dálítið illa farinn. Þannig að niðurstaðan varð að taka hann einfaldlega niður og opna þannig betur inn á torgið. Þá geta veitingastaðir nýtt þetta svæði til að setja borð og stóla út. Síðan munum við setja bekki og blómabeð,“ segir Pawel. Veitingahús hafa undanfarið nýtt götuplássið á Vallarstræti til að setja fram borð og stóla og á sólríkum sumardögum myndast góð stemning. Í sumar munu því veitingamenn hafa pláss fyrir enn fleiri borð og meira flæði verður inn á Austurvöll.

„Við ákváðum að drífa í þessu snemma árs þannig að þegar sumarið birtist í allri sinni dýrð þá verður þetta klárt,“ segir Pawel.