Stigahæstur Halldór Garðar Hermannsson skoraði 21 stig gegn KR.
Stigahæstur Halldór Garðar Hermannsson skoraði 21 stig gegn KR. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
KÖRFUBOLTINN Kristján Jónsson kris@mbl.is Þórsarar létu ekki sóttvarnahléið slá sig út af laginu og héldu sínu striki þegar KR-ingar komu í heimsókn í Þorlákshöfn í gærkvöldi í Dominos-deild karla í körfuknattleik.

KÖRFUBOLTINN

Kristján Jónsson

kris@mbl.is Þórsarar létu ekki sóttvarnahléið slá sig út af laginu og héldu sínu striki þegar KR-ingar komu í heimsókn í Þorlákshöfn í gærkvöldi í Dominos-deild karla í körfuknattleik. Þórsarar eru í toppbaráttunni eftir gott gengi í vetur og unnu KR-inga 84:76.

Þór er með 22 stig eins og Stjarnan í 2. og 3. sæti deildarinnar en KR er í 4. sæti með 20 stig. Þór setti því KR aftur fyrir sig með sigrinum. Forskot Keflvíkinga á toppnum er ansi gott en liðið er með 28 stig.

Þór tók forystuna strax í fyrsta leikhluta og var yfir út leikinn. Halldór Garðar Hermannsson skoraði 21 stig fyrir Þór og gaf auk þess 7 stoðsendingar en Tyler Sabin var með 24 stig hjá KR. KR-ingar tefldu fram Þóri Guðmundi Þorbjarnarsyni og skoraði hann 7 stig og tók 10 fráköst en á eftir að stilla miðið betur.

Hafa ekki gefist upp

Haukar náðu í tvö afar mikilvæg stig þegar liðið lagði ÍR að velli á Ásvöllum 104:94. Haukar eru í bullandi fallhættu eftir erfiðan vetur og eru nú með 8 stig eins og Höttur. Eru liðin tveimur stigum á eftir Njarðvík sem er í 10. sæti. Sigurinn í gær gæti því reynst mjög mikilvægur þegar upp verður staðið.

Sævaldur Bjarnason tók við þjálfun Hauka af Israel Martin upp úr miðjum mars og er þetta fyrsti sigurinn undir hans stjórn. Hansel Atencia skoraði 25 stig fyrir Hauka en Evan Singletary 23 fyrir ÍR.

Baráttan í neðri hlutanum gæti orðið mjög áhugaverð þegar félög með mikla sögu í efstu deild eins og Njarðvík og Haukar berjast fyrir lífi sínu í deildinni. ÍR er með 14 stig og hefur andrými en miðað við úrslitin í gær gæti liðið sogast niður að fallsvæðinu.

Ótrúleg úrslit á Króknum

Þór frá Akureyri er með 16 stig og í ágætum málum en í gær var eitthvað mikið að hjá liðinu. Tindastóll rótburstaði Þór 117:65 þegar Akureyringar renndu á Krókinn. Merkilega mikill munur á liðunum miðað við að þau eru með jafn mörg stig í deildinni. Hvort um stórkostlega frammistöðu Skagfirðinga hafi verið að ræða eða sérstaklega slæman dag hjá Akureyringum er ekki gott að segja en líklega er það sitt lítið af hvoru. Lið Tindastóls hefur ekki safnað jafn mörgum stigum og búist var við fyrir fram en mögulega gæti stórsigur sem þessi gefið leikmönnum liðsins meðbyr.

Pétur Rúnar Birgisson átti stórleik hjá Tindastóli og skoraði 25 stig en gaf auk þess 11 stoðsendingar. Dedrick Basile skoraði 15 stig fyrir Þór.

Valur sneri taflinu við

Valur náði í tvö stig á Egilsstöðum þegar liðið vann Hött 95:91 en Höttur hafði níu stiga forskot 47:38 að loknum fyrri hálfleik.

Valur var tveimur stigum yfir þegar Jordan Roland fór á vítalínuna og um tíu sekúndur voru eftir. Skoraði hann úr fyrra vítinu en ekki því síðara. Þar hefði getað myndast möguleiki fyrir Hött að jafna. En þá hefðu þeir þurft að ná frákastinu. Svo fór ekki því Pavel Ermolinskij fyrirliði Vals kom til skjalanna og náði sóknarfrákastinu. Skoraði úr tveimur vítum í framhaldinu og tryggði sigurinn. Pavel hafði ekki hitt úr skoti í leiknum en hefur tilhneigingu til að gera vel þegar mikið er undir.

Michael Mallory og Bryan Alberts skoruðu 19 stig. Jordan Roland var stigahæstur hjá Val með 35 stig. Jón Arnór Stefánsson skoraði 16 stig en skotnýtingin var afar góð því hann hitti úr þremur af fimm fyrir utan þriggja stiga línuna og öllum þremur inni í teig.

Valur er í 5. sæti með 18 stig.