Sumarstörf Borgin hefur fjölgað störfum fyrir ungmenni í sumar.
Sumarstörf Borgin hefur fjölgað störfum fyrir ungmenni í sumar. — Morgunblaðið/Ásdís
Borgarráð hefur samþykkt að fjölga þeim einstaklingum um 750 sem fá sumarstörf hjá borginni. Er þetta gert til að koma sérstaklega til móts við 17 og 18 ára ungmenni. Með þessu verða yfir 1.

Borgarráð hefur samþykkt að fjölga þeim einstaklingum um 750 sem fá sumarstörf hjá borginni. Er þetta gert til að koma sérstaklega til móts við 17 og 18 ára ungmenni. Með þessu verða yfir 1.700 sumarstörf í boði, að því er kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Fyrir námsmenn 18 ára og eldri verða 500 ný sumarstörf í boði. Ráðningartímabilið hjá hverjum og einum verður allt að tíu vikur. Áætlaður heildarkostnaður Reykjavíkurborgar, þegar búið er að reikna mótframlag frá ríki, verður 131 milljón króna. Þetta er sambærileg aðgerð og ráðist var í síðasta sumar. Sumarstörf fyrir 17 ára einstaklinga verða 250 og ráðningartímabilið hjá hverjum og einum verður sex vikur. Kostnaður vegna starfanna verður 147 milljónir kr.

Borgin hafði áður auglýst sumarstörf fyrir ungmenni og áætlað að ráða 994 einstaklinga í þau. Þar af eru 115 sem munu starfa hjá íþróttafélögum og æskulýðssamtökum í samvinnu við ÍTR.