Náttúra Tónskáldið Gunnar Andreas Kristinsson sækir innblástur víða og þá meðal annars í náttúrufyrirbæri.
Náttúra Tónskáldið Gunnar Andreas Kristinsson sækir innblástur víða og þá meðal annars í náttúrufyrirbæri.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Moonbow , önnur plata tónskáldsins Gunnars Andreasar Kristinssonar, kemur út í dag á vegum hinnar virtu bandarísku útgáfu Sono Luminus.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Moonbow , önnur plata tónskáldsins Gunnars Andreasar Kristinssonar, kemur út í dag á vegum hinnar virtu bandarísku útgáfu Sono Luminus. Er það jafnframt fyrsta platan með verkum Gunnars sem fyrirtækið gefur út á heimsvísu en Naxos sér um dreifingu hennar. Fyrri plata Gunnars, Patterns , kom út fyrir átta árum og hlaut Kraumsverðlaunin árið 2013.

Gunnar segir Moonbow mun umfangsmeiri í sniðum og þá bæði hvað varðar stærð verka og fjölda hljóðfæraleikara. Fimm verk eru á plötunni og flutt af kammerhópunum Caput, Strokkvartettinum Sigga og Duo Harpverki.

Íslandstenging

Gunnar er spurður að því hvort ekki sé eftirsótt hjá tónskáldum að fá plötu útgefna af Sono Luminus og telur hann svo vera. „Það hefur verið einhver Íslandstenging hjá fyrirtækinu sem hefur spottað spennandi tónlistarsenu hérna á Íslandi og komið íslenskum tónskáldum og tónlistarhópum á kortið erlendis,“ segir hann. Fyrirtækið sé lítið en hafi byggst hratt upp og njóti vaxandi virðingar.

Platan kemur út stafrænt og einnig á tvöföldum diski, bæði venjulegum stereódiski og Blue-ray en þann síðarnefnda er hægt að spila í fjölóma hátalarakerfi. Gunnar segir ákveðna upptökutækni einkennismerki Sono Luminus. „Hún snýst um að dreifa vel úr hljóðfæraleikurum í hring með marga míkrófóna. Þá hljómar upptakan eins og maður sitji sjálfur í miðjunni,“ útskýrir Gunnar.

Hann segir upptökum fyrir plötuna hafa verið nýlokið þegar fyrsta Covid-19-smitið greindist hér á landi, í febrúar í fyrra. „Daginn eftir að upptökurnar kláruðust kom fyrsta smitið upp á Íslandi,“ segir Gunnar.

Skemmtileg breidd

–Átta ár eru liðin frá því Patterns kom út. Hefur nýja platan að geyma úrval verka sem þú hefur samið á þeim tíma?

„Já, flest verkin eru einmitt samin á síðustu átta árum og ég valdi þau í samráði við Sono Luminus. Þau gefa góða mynd af því sem ég hef verið að gera, verkin eru stærri í sniðum og fleiri hljóðfæraleikarar, lengri verk,“ svarar Gunnar.

–Eru þetta innbyrðis ólík verk?

„Það eru kannski einhverjar tengingar, tvö verk sem hafa tengingar sín á milli í formi og stíl en svo er til dæmis eitt verk sem á sér lengri sögu. Frumútgáfan var samin 2004 og svo endurútsetti ég það og það var flutt aftur 2016. Þannig að það er í gjörólíkum stíl en býður upp á skemmtilega breidd,“ svarar Gunnar.

Heillaður af ýmsum náttúrufyrirbærum

Titlar verkanna eru athyglisverðir, til dæmis heitir eitt „Sisyfos“ og er þar sótt í grísku goðafræðina, „Patterns IIb“ er byggt á íslenska þjóðlaginu „Fagurt er í Fjörðum“ og „Moonbow“ vísar til tunglboga. Svo virðist sem Gunnar sæki innblástur víða og þá m.a. í náttúrufyrirbæri og goðsagnir. „Innblásturinn er margslunginn, í rauninni er ég heillaður af náttúrufyrirbærum núna,“ segir Gunnar og nefnir líka grísku goðafræðina sem fleiri tónskáld hafi byggt verk sín á. Í henni má finna söguna um Sísýfos, konunginn sem var hnepptur af Seifi í þann þrældóm að rúlla stórum og níðþungum steini upp hæð en steinninn rúllaði alltaf niður aftur á byrjunarreit, eins og frægt er. Táknrænt fyrir þrautseigju mannsins og strit sem stundum virðist bæði enda- og tilgangslaust.

Gunnar er spurður að því hvernig tónverk hann hafi samið út frá sögunni. „Form verksins er svolítið þannig að það byrjar á einhverjum lágpunkti, síðan magnast upp spenna og svo kemur maður aftur á núllpunktinn,“ svarar Gunnar og bendir á tengingu milli sögunnar af Sísýfosi og kófsins. „Ég var að hugsa til baka um daginn, um þetta skrítna ár sem er eiginlega búið að vera eins og refsing. Ég hef verið að undirbúa einhver verk og gera fullt af skissum og svo bara fellur allt niður eða því er frestað,“ segir Gunnar og hlær að baslinu.

Opnar vonandi leiðir

–Heldurðu að útgáfa Sono Luminus á plötunni þinni muni leiða til þess að þú fáir fleiri verkefni sem tónskáld?

„Maður vonar það náttúrulega að þetta opni einhverjar leiðir, núna verður þessi tónlist aðgengileg um allan heim og maður rennir alveg blint í sjóinn með viðbrögðin. Það verða einhver viðbrögð og það er bara rosa gaman,“ svarar Gunnar. Hvað útgáfutónleika varðar segist hann sjá fyrir sér að halda eina slíka eða útgáfufögnuð í haust, þegar allt verður vonandi orðið eðlilegt aftur hvað varðar fjöldatakmarkanir og sóttvarnir.